Shiva

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Shiva

Sækja pdf-skjal

 

Shiva Shiva er þriðji guðinn í hindúísku guðaþrenningunni. Hlutverk Shiva er að eyða heiminum svo hægt sé að endurskapa hann. Hindúar trúa því að sífellt, alla daga og hvert augnablik sé Shiva að nota eyðingar- og endursköpunarkrafta sína til að eyða því sem er ófullkomið í heiminum svo góðar breytingar geti átt sér stað. Shiva er sagður vera hamslaus og ástríðufullur og oft öfgakenndur í hegðun. Hann er þversagnarkenndur, á sér bæði góðar og slæmar hliðar og hendist stundum á milli mikilla öfga. Stundum er hann meinlætamaður sem neitar sér um alla veraldlega ánægju en öðrum stundum er hann mikill nautnabelgur sem nýtur lífsins lystisemda.

Eiginkona Shiva er hin góða og móðurlega gyðja, Parvati. Samband Shiva við Parvati kemur jafnvægi á hann og hjálpar honum að forðast öfgarnar.

Þótt hlutverk Shiva sé að eyða er hann yfirleitt sýndur friðsæll og brosandi á myndum. Hann er sagður vera með blátt andlit og bláan háls en hvítan líkama. Á myndum er hann hinsvegar oft sýndur með bláan líkama. Meðan aðrir guðir eru sýndir í ríkulegu umhverfi þá er umhverfi Shiva íburðarlaust, hann er klæddur einföldu dýraskinni og heldur á þrífork sem tákn fyrir hina hindúísku þrenningu. Um hálsinn ber Shiva kóbruhálsmen sem tákn um vald hans yfir hættulegustu verum veraldar. Snákurinn táknar einnig eyðingar- og endursköpunarmátt Shiva því líkt og snákurinn losar sig reglulega við gamla skinnið til að fá nýtt og mýkra skinn þá eyðir Shiva því sem er úrelt til að rúm sé fyrir nýja og betri hluti.

Þegar Parvati, eiginkona Shiva, er með honum á myndum er hún alltaf við hlið hans til marks um að samband þeirra sé á jafnréttisgrundvelli. Stundum er Shiva meira að segja sýndur sem hálfur karlmaður og hálf kona þar sem kvenkynshelmingur hans er þá Parvati.

Á enni Shiva er þriðja augað sem er í senn uppspretta ótaminnar orku og tákn um visku og innsýn guðsins. Eitt sinn á ástarguðinn Kama að hafa truflað Shiva við hugleiðslu. Í bræði sinni opnaði Shiva þriðja augað og úr því lagði mikinn eld sem drap Kama. Ástarguðinn óheppni var ekki lífgaður við fyrr en Parvati skipti sér af málinu. Vanalega eru teiknaðar þrjár hvítar línur lárétt á enni Shiva sem fela þannig þriðja augað. Þessar línur nefnast vibhuti og tákna mátt Shiva.

Shaivism er söfnuður innan hindúatrúar þar sem litið er á Shiva sem æðstan guðanna og meðlimir safnaðarins dýrka aðeins hann. Þekkja má meðlimina á því að þeir teikna oft vibhuti línur á enni sitt.

Shiva er einnig táknaður sem shiva linga sem er reðurstytta sem á að tákna hráa orku Shiva, karmennsku hans og sköpunarkraft. Shiva linga er oft að finna í musterum tileinkuðum Shiva og þegar hann er tilbeðinn er styttan oft böðuð í vatni, mjólk og hunangi.

Shiva er meistari dansins en dans er mikilvægt listform á Indlandi. Takturinn í dansinum á að tákna jafnvægið í heiminum sem Shiva ber ábyrgð á. Mikilvægasti dans Shiva er Tandava sem er dans hringrásarinnar, fæðingar og dauða, sköpunar og eyðingar. Shiva dansar Tandava til að eyða því sem er illt og ófullkomið og skapa rúm fyrir endurnýjun og betrumbætur. Við endalok tímans mun Shiva svo dansa Tandava af fullum krafti og eyða með því öllum heiminum svo hægt sé að byrja upp á nýtt. Ein goðsaga segir frá því hvernig Shiva eyddi næstum heiminum með því að dansa þennan hættulega dans. Þið getið lesið hana í kaflanum um Parvati.

Mahashivaratri hátíðin er tileinkuð Shiva. Þá koma hindúar saman í musterum og framkvæma helgiathafnir guðinum til heiðurs. Hægt er að lesa um hátíðahöldin í kaflanum Mahashivaratri.

Dans Shiva