Vishnu

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Vishnu

Sækja pdf-skjal

 

Vishnu Vishnu er sá guð hinnar hindúísku þrenningar sem hefur það hlutverk að vernda og viðhalda heiminum. Það gerir hann m.a. með því að koma til jarðarinnar á erfiðum tímum og hjálpa til við að koma aftur á jafnvægi. Hann birtist í mismunandi líkömum bæði manna og dýra. Vaishnava er stór söfnuður innan hindúatrúar þar sem Vishnú ert talinn æðstur guðanna og meðlimir safnaðarins dýrka aðeins hann.

Vishnu er sagður vera með bláan húðlit og fjóra handleggi. Á myndum er hann yfirleitt sýndur með srivatsa á brjóstinu en það er hindúískt tákn sem táknar Lakshmi, eiginkonu hans. Um hálsinn hefur hann gjarnan hálsmen úr blómum og gimsteini sem Lakshmi býr í. Hann er einnig með kórónu á höfðinu og með tvo eyrnalokka sem tákna andstæðurnar í heiminum, þekkingu og fáfræði, hamingju og óhamingju, sælu og sársauka. Á sumum myndum er hann sýndur hvíla sig á Ananata sem er ódauðlegur og óendanlega stór snákur.

Í hverri hönd heldur Vishnu á einum af eftirfarandi hlutum:

  • kuðung, sem framleiðir hljóðið "aúm", tákn sköpunarinnar
  • kringlu (chakra), sem táknar hugann
  • lótus, táknar tilveruna og frelsun
  • veldissprota, sem táknar andlegan og líkamlegan styrk

Hindúar trúa því að Vishnu hafi birst níu sinnum á jörðinni í níu mismunandi myndum og að hann eigi eftir að birtast einu sinni enn áður en heimurinn muni eyðast. Birtingarmyndir Vishnu eru kallaðar avatar sem er sanskrít og merkir „sá sem stígur niður" (frá himni til jarðar). Tíu birtingarmyndir Vishnu eru:

Matsya (fiskur)

Eitt sinn holdgaðist Vishnu sem fiskurinn Matsya til að bjarga mannkyninu frá alheimsflóði. Þú getur lesið söguna um flóðið í kaflanum Alheimsflóðið.

Kurma (skjaldbaka)

Í gervi skjaldbökunnar Kurma hjálpaði Vishnu guðunum að hræra í mjólkurhafinu til að finna ódáinsveigarnar og heillagyðjuna Lakshmi sem hafði horfið ofan í hafið. Þú getur lesið söguna um mjólkurhafið í kaflanum Mjólkurhafið.

Varaha (villisvín)

Í gervi villisvíns endurheimti Vishnu Vedurnar, helgirit hindúa, eftir að þeim var stolið.

Narasimha (hálft ljón, hálfur maður)

Í þessu gervi eyddi Vishnu djöfli sem hafði náð að gera sig ónæman fyrir árásum manna, skepna og guða.

Vamana (dvergvaxinn vitringur sem gat stækkað að eigin vild)

Þegar illi djöfullinn Bali hafði tekið völd á jörðinni og rekið alla guðina frá himnum tók Vishnú form dvergsins Vamana. Sem Vamana gabbaði hann Bali til að gefa sér eins mikið af veldi sínu eins og dvergurinn gæti tekið í þremur skrefum. Áður en hann tók skrefin stækkaði hann sig svo mikið að hann náði að stíga yfir allan heiminn í þessum þremur skrefum.

Parasurama (ofsafenginn veiðimaður)

Vishnu fór í þetta form til að losa jörðina við alla ótrúaða og synduga menn.

Rama (mikill stríðsmaður og fullkominn maður)

Sem Rama drap Vishnu djöflakónginn Ravana sem hafði rænt eiginkonu hans Situ. Þú getur lesið söguna um Rama í kaflanum Rama og Sita.

Krishna (andlega þróaður maður)

Krishna er hetjan í Mahabharata söguljóðinu og einn af mest elskuðu guðum hindúa. Hann er sagður hafa komið með frægar leiðbeiningar fyrir mannkynið sem kallast Baghavad Gita og segja okkur hvernig við eigum að haga okkur í daglegu lífi til að öðlast lífsfyllingu. Þú getur lesið meira um Krishna í kaflanum Krishna.

Búdda (sá alvitri)

Hindúar trúa því að Siddharta Búdda hafi verið Vishnu endurholdgaður. Búdda kom með nýjan boðskap og í kringum hann skapaðist algjörlega nýr átrúnaður. Hægt er að lesa meira um Búdda í köflunum um Búddadóm.

Kalki

Tíunda birtingarmynd Vishnu á enn eftir að verða en hindúar trúa því að þegar heiminum fer að hnigna og heimsendir sé í nánd þá muni Vishnu endurfæðast sem Kalki og ríða um jörðina á hvítum hesti.

Aðrar hliðar Vishnu

Auk þessara tíu birtingarmynda eða holdgana hefur Vishnu að því virðist endalausar hliðar og eiginleika. Fjölbreytileiki hans er svo mikill að hann hefur 1000 nöfn sem hvert lýsir einum af óendanlegum eiginleikum hans. Hari (sá sem tekur), Ananta (óendanlegur) og Hayagriva (sá sem gefur þekkingu) eru meðal nafna Vishnu en öll þúsund nöfnin eru skráð í ritið Vishnu sahasranama.

Eiginkona Vishnu er gyðjan Lakshmi. Hún er ein af vinsælustu gyðjum hindúa og er þekkt sem gyðja auðs, velgengni og hreinleika. Hvar sem Lakshmi kemur fylgir auðlegð og velgengni.