Hindúatrú / Tákn / Tilak og bindi
 
Bindi
Eitt af þekktustu táknum hindúa er depill sem konur setja mitt á milli augabrúnanna og kallast bindi. Orðið bindi merkir dropi eða doppa. Bindi táknar hina kvenlegu orku og á því að vernda konurnar og eiginmenn þeirra. Það er auk þess leið til að leggja áherslu á hið svokallaða þriðja auga, svæðið milli augnabrúnanna. Hindúar segja að þar sé útgöngustaður innri orku og því sé bindi gagnlegt til þess að viðhalda orku og styrkja einbeitingu. Þar af leiðandi er algengt að bindi sé notað við hugleiðslu þegar þörf er á mikilli einbeitingu.
Samkvæmt gamalli hefð eiga eingöngu giftar konur að vera með bindi. Nú til dags er þó fyrst og fremst litið á bindi sem skraut og það notað jafnt af giftum sem ógiftum konum og hvort sem þær eru hindúar eða ekki.
Hefðbundið bindi er rauð doppa sem konur mála á sig en rauði liturinn táknar heiður, ást og velgengni. Núorðið sjást hinsvegar allir litir og form og jafnvel algengt að notaður sé skartgripur í stað málningar og verslanir á Indlandi selja sjálflímandi bindi í öllum regnbogans litum og lögunum.
Tilak
Ef karlmaður er með tákn á enninu kallast það tilak. Hjá þeim er það yfirleitt í formi línu eða lína. Helgir menn og guðræknir aðalsmenn setja á sig tilak daglega. Aðrir hindúar setja það yfirleitt ekki á sig nema við sérstök tilefni s.s. brúðkaup eða trúarlegar athafnir. Prestar í musterum hindúa bera einnig oft tilak eða bindi á gesti sína til að sýna velþóknun guðs á þeim. Líkt og bindi er tilak notað til að bæta einbeitinguna við hugleiðslu.
Táknin eru máluð á með hendinni eða með járnstimpli. Notuð er aska frá fórnareldi úr musterinu, rautt blý, kol, kúamykja eða mauk úr ákveðnum jurtum. Meðlimir sumra trúarsöfnuða mála tilak ekki eingöngu á ennið heldur einnig á mismarga aðra hluta líkamans. Oft er hægt að þekkja meðlimi ákveðinna trúarsöfnuða á því hverskonar tilak þeir eru með. Fylgjendur Shiva má t.d. þekkja á því að þeir eru með þrjár láréttar línur á enninu auk annarra skreytinga. Fylgjendur Vishnu eru með útgáfu sem er yfirleitt með tveimur eða fleiri lóðréttum línum sem tákna fót Vishnu. Fylgjendur Gyðjunnar nota yfirleitt alltaf rautt púður fyrir sitt tilak.