Alheimsflóðið

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Alheimsflóðið

Sækja pdf-skjal

 

Alheimsflóðið Í Puranas-ritunum er að finna fjölda goðsagna um sögu heimsins, konunga, guða, hetja og fræðimanna ásamt lýsingum á skipulagi heimsins, landafræði og heimspeki. Ein af þessum sögum segir að fyrsti maðurinn á jörðinni og forfaðir alls mannkyns hafi heitið Mānu og verið góður og heiðvirður maður. Dag einn þegar Manu var að þvo hendur sínar sá hann lítinn fisk í skálinni. Fiskurinn, sem hét Matsya bað Manu að færa sig í stærra ílát svo hann gæti lifað. Manu varð við bón hans og færði fiskinn í stærri skál. Fiskurinn óx hinsvegar hratt og sífellt varð Manu að færa hann í stærri og stærri ílát. Á endanum var hann orðinn svo stór að Manu henti honum út í hafið. Fiskurinn þakkaði þá lífgjöfina með því að segja Manu að mikið flóð væri að koma sem myndi eyða öllu lífi á jörðinni og til að bjargast yrði hann að byggja sér stórt skip. Fiskurinn bað Manu líka að taka með sér bæði dýr og frjókorn af plöntum svo þeirra líf myndu líka bjargast.

Manu hlustaði á fiskinn og byggði sér stórt skip og fyllti það af dýrum og plöntum. Brátt fór að rigna og vatn flæddi yfir jörðina. Hvergi var land að sjá. Manu batt þá reipi við stórt horn á höfði fisksins stóra og fiskurinn synti með skipið í eftirdragi í leit að landi. Loks komu þeir að tindum Himalayafjalla sem rétt náðu upp úr hafinu og þar skipaði fiskurinn Manu að binda skipið og bíða þess að vatnið sjatnaði.

Hindúar líta svo á að fiskurinn Matsya hafi í raun verið guðinn Vishnu og þetta hafi verið fyrsta koma hans til jarðarinnar til að bjarga henni undan illum örlögum.