Brahma

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Brahma

Sækja pdf-skjal

 

Brahma Brahma er sá guð hinnar hindúísku þrenningar sem hefur það hlutverk að skapa heiminn og allar heimsins verur. Þó nöfnin séu lík þá er Brahma ekki það sama og Brahman alheimsorkan.

Brahma er sagður vera með rauðleitan litarhátt, með fjögur höfuð og fjóra handleggi. Á myndum er hann auk þess yfirleitt sýndur með:

  • hvítt skegg, sem táknar visku
  • bók, sem táknar þekkingu
  • bænaband, sem táknar efnið sem var notað við sköpunina
  • kórónu, sem táknar guðlega yfirburði hans
  • lótus, sem táknar allt líf í heiminum
  • gull, sem táknar virkni

Hindúar trúa því að Vedurnar fjórar, sem eru elstu trúarrit hindúa, hafi komið frá honum, ein frá hverju höfði. Sumir segja að hið fjórskipta stéttakerfi hindúa hafi einnig komið frá honum.

Strax í upphafi sköpunarinnar á Brahma að hafa skapaði konu til að hjálpa sér. Hún hét Saraswati og varð síðar eiginkona hans. Brahma varð hugfanginn af fegurð hennar og starði á hana hverja stund. Saraswati fannst þetta óþægilegt og reyndi að forðast augnatillit hans. En það var sama í hvaða átt hún hljóp í felur það óx bara nýtt höfuð á Brahma, eitt fyrir hverja átt, svo hann gæti horft á hana sama hvar hún væri.

Brahma er sá guð sem er minnst dýrkaður í hindúatrú í dag. Af mörg þúsund musterum hindúa á Indlandi eru aðeins tvö tileinkuð honum. Sumir segja ástæðuna fyrir þessu vera hegningu guðsins Shiva fyrir að sinna ekki sköpunarverkinu nægjanlega vegna þess hve hugfanginn Brahma var af Saraswati. Aðrir segja að hann sé einfaldlega ekki dýrkaður lengur vegna þess að hlutverki hans sem skapara sé lokið. Það er hinsvegar hlutverk Vishnu að viðhalda heiminum og Shiva að sjá til þess að hann endurnýist reglulega.