Gyðjan

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Gyðjan

Sækja pdf-skjal

 

Gyðjan Fá trúarbrögð leggja jafn mikla áherslu á mikilvægi kvendómsins og hindúatrú. Í hindúatrú er hin kvenlega hlið guðdómleikans talin jafn mikilvæg og hin karlmannlega. Hindúar trúa því að til sé kvenleg sköpunarorka, móðureðli og frumkraftur sem flæði um allan heiminn. Þessa orku kalla þeir Shakti og hún er talin ábyrg fyrir sköpun, frjósemi og breytingum. Fyrir hindúa er Shakti það sama og Deví. En orðið Deví merkir gyðja eða hin kvenlega hlið guðdómsins. Þegar hindúar tala um Deví eða Gyðjuna hljómar það stundum eins og um eina ákveðna gyðju sé að ræða en í raun er átt við hvaða gyðju sem er eða jafnvel allar. Því líkt og Brahman, alheimssálin, birtist í óendanlega mismunandi myndum þá birtist Shakti eða hin kvenlega hlið guðdómleikans í mörgum mismunandi gyðjum.

Sérstakur söfnuður innan hindúatrúar sem kallast Shaktism lítur svo á að Shakti eða Deví sé hinn eini sanni guð og æðri öðrum verum. Í öðrum söfnuðum hindúatrúar birtist Shakti eða kvendómurinn í mörgum mismunandi birtingarmyndum eða mismunandi gyðjum. Þrjár mikilvægustu gyðjurnar eru:

  • Saraswati, gyðja þekkingar og lista
  • Lakshmi, gyðja auðs og velgengni
  • Parvati, móðurgyðjan sem margir hindúar líta á sem hina einu sönnu Shakti

Þessar þrjár gyðjur eru fylgikonur hinnar hindúísku guðlegu þrenningar, Brahma, Vishnu og Shiva en án kvenlegu hliðarinnar væru þeir óvirkir og gagnslausir.

Auk þeirra eru til þúsundir minni gyðja í hindúatrú.