Lakshmi

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Lakshmi

Sækja pdf-skjal

 

Lakshmi Lakshmi er eiginkona guðsins Vishnu. Hún er ein af vinsælustu gyðjum hindúa og er þekkt sem gyðja auðs, fegurðar og hreinleika.

Lakshmi er yfirleitt sýnd sem fögur kona með fjóra handleggi sem stendur á lótusblómi. Fyrir aftan hana má yfirleitt sjá einn eða tvo fíla ofan í vatninu. Einnig er hún stundum sýnd sitja við fætur Vishnu að nudda fætur hans.

Hindúar trúa því að hver sá sem tilbiður Lakshmi af einlægni en ekki af græðgi verði blessaður með velgengni, gæfu og auðæfum. Það er líka sagt að Lakshmi hafi búsetu á stöðum þar sem fyrirfinnist vinnusemi, hugrekki og aðrar góðar dyggðir en að hún fari um leið og þessir eiginleikar séu ekki lengur til staðar. Eitt sinn yfirgaf hún meira að segja híbýli guðanna og þurftu þeir að leita að henni í þúsundir ára áður en þeir fundu hana aftur. Söguna af því má lesa í kaflanum Mjólkurhafið.

Dívalí hátíðin sem er líklega vinsælasta hátíð hindúa er tileinkuð Lakshmi og þá kveikir fólk á olíulömpum og setur í glugga sína í þeirri von að það vísi Lakshmi á heimili þeirra svo hún færi þeim gæfu á komandi ári.

Eins og aðrir af stóru guðunum þá á Lakshmi sér aðrar birtingarmyndir. Það er litið svo á að bæði Sita, eiginkona guðsins Rama, og Radha, eiginkona guðsins Krishna, séu í raun Lakshmi í öðrum líkama. En Rama og Krishna eru einmitt báðir álitnir aðrar myndir guðsins Vishnu eiginmanns Lakshmi.