Mjólkurhafið

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Mjólkurhafið

Sækja pdf-skjal

 

Mjólkurhafið Ein frægasta og mest hrífandi goðsaga í Purana ritunum er sagan af því þegar guðirnir hrærðu í svokölluðu mjólkurhafi. Þar segir frá baráttu guða og djöfla og skýrist hvernig guðirnir öðluðust ódauðleika.

Sagan segir að guðinn Indra hafi fengið það hlutverk að vernda heiminn fyrir djöflum. Með heillagyðjuna Lakshmi sér við hlið sinnti Indra hlutverki sínu til fjölda ára. En nærvera gyðjunnar gerði hann kærulausan. Einn dag batt vitringur laufsveig með helgum blómum og færði guðinum en í hroka sínum henti Indra blómunum á gólfið. Þessa hegðun gat Lakshmi ekki sæst við svo hún kvaddi heim guðanna og stökk ofan í hið mikla mjólkurhaf.

Án gyðjunnar voru guðirnir ekki lengur blessaðir með velgengni eða auðlegð. Heimurinn varð myrkari, fólk varð gráðugt og enginn færði fórnir til guðanna. Völd þeirra minnkuðu því og á endanum tóku djöflarnir völdin.

Indra spurði Vishnu hvað ætti að gera og hann sagði að guðirnir ættu að hræra í Mjólkurhafinu til að finna Lakshmi og fá hana til að koma aftur. Hann sagði þeim einnig að það væru aðrir dýrgripir í hafinu sem gætu hjálpað þeim svo sem ódáinsveigar sem myndu gera þá ódauðlega og þannig hjálpa þeim að berjast við djöflana.

Vishnu vissi hinsvegar að guðirnir myndu aldrei geta hrært í hinu mikla hafi sjálfir svo hann gerði samning við djöflana um að hjálpa til og þá fengju þeir hluta af þeim fjársjóðum sem væru faldir í hafinu. Guðir og djöflar bjuggu sér til hræru úr fjallinu Madura, sem þeir komu fyrir á miðju hafinu, og vöfðu risasnáknum Vasuki utan um fjallið og strengdu svo yfir hafið. Djöflarnir héldu í höfuðið en guðirnir í halann og svo toguðu þeir til skiptis þannig að fjallið vaggaði til og hrærði vel í hafinu.

Í hundruð ára hrærðu guðir og djöflar í hafinu og upp komu hinir ýmsu dýrgripir. Lakshmi birtist þar sem fögur kona standandi á lótusblómi og samþykkti að koma aftur til guðanna. Síðastur upp úr hafinu var ódauðleikadrykkurinn og djöflarnir flýttu sér að grípa hann. Vishnu breytti sér þá í Mohini, fagra konu sem heillaði alla djöflana og tókst þannig að skipta á töfradrykknum og vínflösku.

Þannig öðluðust guðirnir ódauðleika og yfirburði yfir djöflunum. Með þá yfirburði og heillaorku Lakshmi fylgjandi sér sigruðu þeir djöflana og náð aftur yfirráðum yfir heiminum.

Á hinni gríðarstóru Kumbha Mela hátíð sem er haldin á 12 ára fresti er þessara atburða minnst sérstaklega.