Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Parvati
 
Parvati er dóttir Himavans drottnara Himalayafjalla og eiginkona Shiva. Hún er ein mikilvægasta gyðjan í Shaktisma og af mörgum álitin vera sjálf Shakti, hin kvenlega frumorka. Hún er góð og móðurleg gyðja sem hefur vald yfir kraftinum eða orkunni sem allar verur í heiminum þarfnast til að vera til.
Samband Parvati og Shiva er mjög sterkt og farsælt. Parvati er síðari eiginkona Shiva en samt í raun einnig sú fyrri því hún á að vera Sati, fyrri eiginkonan, endurfædd. Shiva og gyðjan Sati höfðu verið mjög ástfangin og gengu því í hjónaband þrátt fyrir að faðir Sati, Daksha, væri ekki hrifinn af hinum mislynda guði og var mótfallinn hjónabandinu. Dag einn hélt Daksha mikla veislu þar sem hann bauð fjölskyldumeðlimum, vinum, og guðum, og í raun öllum sem hann þekkti, nema Shiva. Í veislunni reisti hann upp styttu af Shiva sem hann gerði grín að og vanvirti. Þegar Sati sá þetta varð hún sárlega móðguð fyrir hönd eiginmanns síns og í reiði sinni stökk hún inn í stóran varðeld og brann til ösku.
Þegar Shiva uppgötvaði að ástkær eiginkona kona hans var dáin fylltist hann svo mikilli bræði að hann hóf umhugsunarlaust að dansa dauðadansinn. Hann dansaði án þess að stoppa og heimurinn var við það að eyðast þegar guðirnir náðu að róa hann með því að fleygja yfir hann öskunni af líkama Sati. Shiva lauk því ekki við dansinn og heiminum var bjargað. Hann varð hinsvegar gagntekinn af sorg, sökkti sér í hugleiðslu og hundsaði allar guðlegar skyldur sínar. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar er Sati endurfæddist sem Parvati að Shiva rankaði við sér og tók aftur að sinna skyldum sínum. Með ást sinni og þolinmæði kenndi Parvati Shiva mikilvægi hófsemi og kom jafnvægi á tilfinningar hans. Hindúar líta á Shiva og Parvati sem hið fullkomna dæmi um hjónabandssælu og þau eru sjaldan sýnd hvort án annars.
En Parvati á sér aðrar hliðar. Ein birtingarmynd hennar er Kali gyðja tíma og dauða. Sem Kali stjórnar hún bæði eyðandi og uppbyggjandi öflum tímans og er oft sýnd sem grimm og ofbeldisfull gyðja.
Önnur birtingarmynd hennar er svo stríðsgyðjan Durga sem bjargaði heiminum frá yfirráðum hins ógurlega djöfuls Mahishasura. Þú getur lesið nánar um það í kaflanum Durga.