Krishna

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Krishna

Sækja pdf-skjal

 

Krishna Guðinn Krishna er ástsælasti guð hindúa sem álíta hann áttundu birtingarmynd guðsins Vishnu. Nafn hans merkir bæði "hinn dökki" og "hinn fagri" en hann er sagður vera óhemju myndarlegur með bláa eða svartleita húð. Á myndum er Krishna oft klæddur í gult pils, með kórónu úr páfuglafjöðrum og spilandi á flautu. Stundum er hann sýndur sem lítill drengur en stundum sem ungur maður.

Krishna er fjölbreytilegur guð. Hann er í senn mikill en góðlátlegur prakkari og sönn og hugrökk hetja. Hann er ímynd sannrar ástar og gleði og hindúar trúa því að hann hafi fæðst til að breiða út ást, kærleik og þekkingu.

Margir þeirra sem tilbiðja Vishnu sem æðsta guðinn líta á Krishna sem hans merkustu birtingarmynd. Sumir hindúar líta þó á Krishna sem sjálfstæðan guð og sumir telja hann jafnvel vera sjálfan Brahman. Sú hugmynd er einkum algeng fyrir utan Indland. Bhakti Yoga söfnuðurinn er t.d. söfnuður sem fylgir ekki neinum ákveðnum guði en lítur samt sérstaklega til Krishna vegna tengingar hans við ástina og kærleikann.

Krishna er auk þess mikilvæg persóna í öðrum átrúnaði en hindúatrú s.s. í janisma, búddhadómi og bahá'í-trú.

Frásagnir af ævi Krishna er að finna í ritinu Mahabharata. Þar segir að móðir Krishna hafi verið systir Kamsa sem var ógurlegur djöflakonungur í borginni Mathura. Því hafði verið spáð að Kamsa yrði drepinn af systursyni sínum svo hann lét varpa henni og eiginmanni hennar í fangelsi og lífláta öll börn sem þau eignuðust. Föður Krishna tókst þó að lauma Krishna út úr fangelsinu og kom honum fyrir í umsjón góðra hjóna í öðru héraði. Meðan Krishna var barn sendi hinn illi Kamsa marga djöfla til að drepa hann, meðal annars fimm höfða djöflasnák, risavaxinn fugl og ógurlega tröllkonu. Krishna sigraði hinsvegar alla djöflana með því að temja þá eða drepa.

Fósturfjölskylda Krishna voru kúahirðar og hann varð því sjálfur kúahirðir. Hann elskaði að spila á flautuna sína til að skemmta hinum kúahirðunum og mjaltastúlkunum. Hann hafði líka mjög gaman af því að stríða mjaltastúlkunum og til eru margar sögur af uppátækjum hans og vina hans þar sem þeir meðal annars slepptu kúnum lausum fyrir mjaltatíma, skvettu vatni á stúlkurnar, földu föt þeirra meðan þær böðuðu sig og stálu mjólkinni og smjörinu frá þeim. Hindúar líta svo á að með þessu hafi hann ekki bara verið að leika sér heldur hafi hann með þessu viljað kenna fólki að tengjast ekki um of hinu veraldlega því það geti alltaf horfið og eyðst. Þessum ærslaskap Krishna herma hindúar eftir á holi hátíðinni þar sem lituðu vatni er sprautað og skvett á allt og alla.

Krishna elskaði fósturmóður sína mjög heitt og þykir samband þeirra fullkomið samband móður og barns. Mjaltastúlkurnar voru líka mjög hrifnar af Krishna og honum þótti vænt um þær allar. Engin elskaði hann þó jafn mikið og Radha og enga elskaði hann meir en hana. Ein sagan segir að sem barn hafi Radha ekki opnað augun fyrr en Krishna stóð fyrir framan hana. Hindúar líta á ást þeirra sem hina fullkomnu ást og saman ráða þau yfir ást, rómantík og fegurðarskyni.

Líkt og Krishna er í raun endurholdgun á guðinum Vishnu þá er Radha sögð vera endurholdgun á Lakshmi eiginkonu Vishnu.

Eftir að Krishna óx úr grasi rættust spádómarnir um hann. Hann drap hinn illa frænda sinn, afi hans varð konungur yfir ríkinu og Krishna varð því prins. Ótal sögur eru af visku hans og hetjuskap. Í einni þeirra drap hann hinn ógurlega djöful Narakaasura og bjargaði 16 þúsund dætrum guðanna sem djöfullinn hafði rænt. Eftir sigurinn sneri Krishna aftur til guðanna eldsnemma morguns, þar sem honum var fagnað innilega, hann baðaður og nuddaður með ilmolíum. Þessarar sögu er minnst á þriðja degi dívalí hátíðar en þá er hefð fyrir því að hindúar fari í notalegt bað eldsnemma morguns.

Fæðingu Krishna er svo fagnað á Krishna Janamashtami hátíðinni sem stendur í tvo daga í Shrāvana mánuði.

Teiknimynd um litla Krishna