Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Durga
 
Stríðsgyðjan Durga er ein birtingarmynd á gyðjunni Parvati sem er gyðja kvenlegrar orku. Sem Durga sýnir hún annað form þessarar kvenlegu orku sem ósigrandi gyðja styrks og hugrekkis. Durga er ein af vinsælustu gyðjum hindúa en hún er sögð geta hjálpað fólki að sigrast á veikleikum sínum. Á myndum og styttum er hún yfirleitt sýnd með átta handleggi sem eru til þess að halda á öllum vopnum sem guðirnir gáfu henni til að berjast gegn djöflunum. Meðal vopnanna eru bogi og örvar, diskur, þríforkur, og bjúgsverð. Durga ferðast um á ljóni eða tígrisdýri og blæs í skel til að kalla stríðsmenn til bardaga.
Goðsögurnar segja að Durga hafi orðið til vegna þess að mikil neyð ríkti í heiminum og hún var sú eina sem gat bjargað honum. Hræðilegur djöfull að nafni Mahishasura hafði með risavöxnum djöflaher sínum sölsað undir sig bæði mannheima og guðaheima. Hann olli eymd og eyðingu hvert sem hann fór en hvorki menn né guðir gátu unnið honum mein. Miður sín hittust guðirnir til að ræða hvað væri hægt að gera. Þar sem þeir sátu og réðu ráðum sínum streymdu frá þeim orkugeislar og þar sem geislarnir mættust á gyðjunni Parvati varð mikið ljós og hin móðurlega gyðja breyttist í unga konu í fullum herklæðum, ríðandi á ljóni. Þar var komin Durga, stríðsgyðjan, sem hafði orðið til úr orku og eiginleikum allra guðanna. Guðirnir gáfu henni bestu vopnin sín og síðan réðst hún til atlögu gegn Mahishasura. Í bardaganum gerði djöfullinn Durgu erfitt fyrir með því að breyta reglulega um form og tók ýmist á sig mynd buffals, fíls, ljóns, manns eða djöfuls. En að lokum náði Durga að fella hann meðan hann var í formi buffals. Guðirnir náðu þá aftur yfirráðum yfir himnunum og friður og jafnvægi komst aftur á í heiminum.
Á hverju ári á hátíðinni Durga Puja eða Navaratri sem er í september eða október minnast hindúar þessa atburðar.