Mahashivratri

Hindúatrú / Hátíðir / Mahashivratri

Sækja pdf-skjal

 

Mahashivratri Mahashivratri hátíðin er haldin nóttina og daginn á undan nýju tungli Māgh mánaðar (jan./feb.). Hátíðin sem er líka þekkt sem Shivaratri eða nótt Shiva er tileinkuð Shiva, einum af þremur aðalguðum hindúa.

Hjá hindúum táknar nóttin hið illa, óréttlæti, fáfræði og ógæfu en við nýtt tungl fer hinsvegar að birta yfir nóttinni. Hindúar segja að líkt og hið nýja tungl hafi Shiva birst til að bjarga heiminum frá síauknu myrkri og fáfræði og því er nýtt tungl tákn Shiva. Tunglið sem byrjar á Mahashivratri er sérstaklega mikilvægt vegna þess að þá nótt er sagt að Shiva hafi dansaði alheimsdansinn sinn, Tandav.

Á þessum degi er brúðkaupi Shiva og Parvati einnig fagnað.

Ein af goðsögnunum sem tengjast Mahashivratri er sagan af því þegar guðirnir hrærðu í svokölluðu Mjólkurhafi til að leita af fjársóðum þess. Eitt af því sem guðirnir jusu upp úr hafinu var svo sterkt eitur að það hefði getað eytt öllum heiminum. Shiva stökk hinsvegar til og bjargaði málunum með því að drekka eitrið. Hann var nógu sterkur til að þola eitrið en til að læknast af áhrifum þess þurfti hann hinsvegar að halda sér vakandi alla nóttina. Hinir guðirnir hjálpuðu honum við það með því að dansa og skemmta honum alla nóttina. Til minningar um þetta vaka og fasta fylgjendur Shiva alla hátíðarnóttina og ungar stúlkur syngja lofgjörð til guðsins svo hann blessi þær með góðum eiginmanni. Myndum af Shiva er færður sérstakur matur, prasad, úr ávöxtum, rótargrænmeti og kókoshnetum. Næsta morgun er fastan rofin með því að borða þennan mat.

Önnur goðsögn sem tengist Mahashivratri hátíðinni segir frá fátækum manni að nafni Lubdhaka sem gekk eitt sinn langt inn í skóginn til að safna eldiviði. Við sólsetur villtist hann og þurfti að eyða nóttinni í skóginum. Hann klifraði upp í tré til að leita skjóls þar til myndi birta á ný. Alla nóttina heyrði hann urr í tígrisdýrum og öðrum villtum dýrum og var of hræddur til að fara niður úr trénu. Til að halda sér vakandi sönglaði hann nafn Shiva og plokkaði eitt og eitt laufblað af trénu og lét þau detta niður á jörðina. Við sólarupprás sá hann að fyrir neðan tréð var Shiva linga, sem er eitt algengasta tákn Shiva, og laufblöðin sem hann hafði látið falla á jörðina höfðu fallið á það. Shiva var mjög ánægður við þessa næturlöngu tilbeiðslu Lubdhaka og lét villidýrin hverfa á braut. Auk þess verðlaunaði guðinn Lubdhaka með guðlegri alsælu. Á hverju ári er sagan af Lubdhaka sögð að kvöldi Mahashivratri og að fordæmi hans eru Shiva linga styttur í musterum baðaðar með mjólk, vatni og hunangi, smurðar með sandalviðarþykkni og skreyttar með blómum guðinum til heiðurs.

Fallegt myndskeið frá Mahashivratri