Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Saraswati
 
Saraswati er gyðja þekkingar og lista. Viska hennar er sögð flæða eins og fljótið og fleyta burt fáfræði og myrkri. Hún á að vera höfundur sanskrít, tungumálsins sem helgirit hindúa, Vedurnar, voru skrifaðar á. Saraswati afneitar hinu veraldlega og sem tákn um hreinleika hennar og tengingu við hið andlega klæðist hún hvítum íburðarlitlum fötum og notar hvorki líkamsmálningu né skartgripi. Hún er með fjóra handleggi og á myndum er hún yfirleitt sýnd sitjandi á hvítum lótus þar sem hún heldur á:
- bók, sem táknar þekkingu hennar á vísindum og Vedunum
- hljóðfæri, sem táknar meistaralega hæfileika hennar á sviði allra lista
- potti með helgu vatni, sem táknar sköpunar- og hreinsunarkraft hennar
- bænabandi, sem táknar styrkinn sem fæst með hugleiðslu