Fílaguðinn Ganesh

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Fílaguðinn Ganesh

Sækja pdf-skjal

 

Fílaguðinn Ganesh Ganesh, guðinn með fílshöfuðið, er einn af elskuðustu guðum hindúa. Hann er guð viskunnar og því er trúað að hann geti lagt eða fjarlægt hindranir fyrir fólk og leyst erfið vandamál. Þegar hindúar standa á tímamótum og eru að byrja á einhverju nýju, t.d. að ganga í hjónaband, flytja í nýtt hús, byrja í nýrri vinnu eða fara í ferðalag þá biðja þeir Ganesh um að blessa sig. Sums staðar á Indland málar fólk myndir af Ganesh á veggi og fyrir ofan dyr sem á að færa þeim lukku.

Hindúar í öllum söfnuðum dýrka Ganesh og hann er einnig dýrkaður í öðrum trúarbrögðum s.s. búddadóm og janisma.

Ganesh er talinn vera drottnari leturs og lærdóms og er sagður einstaklega gáfaður og meta lærdóm og þekkingu mikils. Hann er einnig sagður vera mikill sælgætisgrís og var sérstaklega hrifinn af sælgætismolum sem eru gerðir úr kókoshnetum og sykri og kallast modaks. Hann var svo gráðugur í molana að hann hámaði þá í sig í hundraðavís og var því feitlaginn fyrir vikið. Ein goðsaga segir að eitt sinn hafi tunglið litið niður á hinn búttaða Ganesh og farið að gera grín að holdafari hans. Ganesh sárnaði grínið og brást illa við. Hann sneri sér að tunglinu og lagði á það þau álög að fegurð þess myndi aldrei haldast stöðug. Frá þeim tíma sést full fegurð tunglsins aðeins í eina nótt á 28 daga fresti.

Margar sögur eru af því hvernig Ganesh á að hafa fengið fílshöfuð sitt en eftirfarandi er líklega vinsælust:

Ganesh er sonur gyðjunnar Parvati og guðsins Shiva. Eitt sinn bað Parvati son sinn að standa vörð meðan hún baðaði sig og ekki hleypa neinum inn. Nokkru síðar kom eiginmaður hennar, Shiva, þar að og vildi fá að sjá konu sína. Ganesh hlýddi hinsvegar orðum móður sinnar og bannaði Shiva að koma inn. Shiva varð æfur yfir því að drengurinn skildi voga sér að standa í vegi fyrir honum og hjó af honum höfuðið með þríforknum sínum. Þegar Parvati kom úr baðinu og sá líflausan líkama sonar síns varð hún bæði döpur og reið og skipaði Shiva að lífga drenginn strax við. Shiva rann þá reiðin og fullur af eftirsjá fór hann að leita að höfði Ganesh til að geta lífgað hann við. Höfuðið hafði hinsvegar flogið um langan veg og var hvergi sjáanlegt. Shiva skipaði þá hermönnum sínum að finna fyrstu lifandi veruna sem lægi með höfuðið í norðurátt og færa honum höfuð hennar. Þessi vera reyndist vera fíll og Shiva festi því fílshöfuðið á líkama drengsins og lífgaði hann aftur við.

Fæðingu Ganesh er fagnað á hátíðinni Ganesh Chaturthi.