Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Sagan af Prahlad og Holika
 
Ein af sögunum sem tengjast hátíðinni Holi er sagan af drengnum Prahlad og illu norninni Holiku.
Sagan segir frá djöflakonunginum Hiranyakashyap sem var bæði illur og hrokafullur og taldi sig vera æðri en allir guðirnir. Sonur hans, Prahalad, tilbað hinsvegar guðinn Vishnu þrátt fyrir að faðir hans bannaði honum það. Einn dag spurði konungurinn son sinn hvor væri æðri, Guð eða hann, og sonurinn svaraði að auðvitað væri Guð æðri konungi. Konungurinn varð hamslaus af reiði og ákvað að drepa son sinn. Það var hinsvegar sama hvað hann reyndi, Prahalad lifði af allar morðtilraunir hans. Hiranyakashyap kastaði honum fram af kletti, lét fílahjörð traðka á honum, snáka bíta hann og hermenn ráðast á hann en alltaf lifði drengurinn.
Konungurinn bað því systur sína, Holiku, að drepa drenginn. Guðirnir höfðu gefið Holiku þann töfrakraft að eldur gat ekki skaðað hana. Holika tók því Prahalad í fangið, settist á stóran logandi bálköst og taldi víst að pilturinn myndi brenna meðan hún slyppi ómeidd. Það er hinsvegar aldrei gáfulegt að taka gjöfum guðanna sem sjálfsögðum hlut. Þar sem að Holika var að reyna að nota gjöf sína til að gera illt þá hvarf krafturinn og hún brann sjálf til ösku. Prahalad hafði hinsvegar verið trúr Vishnu, guði sínum, og í þakkarskyni verndaði Vishnu drenginn fyrir eldinum og hann lifði af. Stuttu síðar drap Vishnu djöflakónginn Hiranyakashyap og Prahad tók við völdum og varð vitur og góður konungur.