Rama og Sita

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Rama og Sita

Sækja pdf-skjal

 

Rama og Sita Sagan af Rama og Sita er ein af frægustu ástar- og bardagasögum heims. Sagan er í löngu og fornu sagnaljóði sem er 24 þúsund vers og heitir Ramayana. Það er talið hafa verið samið fyrir 5000 árum síðan en ljóðið er mjög vinsælt enn í dag og gerð hafa verið fjöldi leikrita, barnabóka og sjónvarpsþátta upp úr efni þess.

Rama er mjög vinsæll guð hjá hindúum en þeir trúa því að hann sé í raun guðinn Vishnu í annarri mynd. Einnig líta þeir svo á að Sita, eiginkona Rama, sé í raun Lakshmi, eiginkona Vishnu.

Rama var konungssonur í borginni Ayodhya á Indlandi. Hann var myndarlegur, góður, hugrakkur, duglegur og að öllu leyti hinn fullkomni maður. Rama kvæntist prinsessu að nafni Sita og þau voru mjög ástfangin. Þegar faðir hans, konungurinn, hugðist setjast í helgan stein átti Rama að taka við krúnunni. Stjúpmóðir Rama var hinsvegar á öðru máli. Löngu áður hafði hún bjargað lífi konungsins í bardaga og hann hafði lofað að veita henni tvær óskir. Nú fannst henni tími til kominn að hann stæði við loforð sitt og bað hann um að gera son sinn Bharata að konungi en senda Rama í útlegð í 14 ár. Þar sem konungurinn var maður orða sinna hlýddi hann eiginkonu sinni með sorg í hjarta og Rama flutti út í skóginn ásamt Situ, eiginkonu sinni, og Lakshman bróður sínum.

Mörg ár liðu og Rama, Sita og Lakshman lifðu hamingjusöm og hógvær í litlum kofa í skóginum sem veitti þeim allan þann mat og nauðsynjar sem þau þurftu. Dag einn sá Sita fagurt gulllitað dádýr milli trjánna og varð hugfangin af fegurð þess. Hún bað Rama og Lakshman að færa sér dýrið en hún vildi eiga það sem gæludýr. Rama og Lakshman fóru því út í skóginn til að leita að gyllta dádýrinu en Sita var ein heima. Allt í einu birtist gamall maður við kofann og bað Sita um að hleypa sér inn. Hann var klæddur eins og helgur maður svo Sita treysti honum en um leið og hann kom inn fyrir dyrnar varpaði hann af sér klæðunum og í ljós kom að þetta var hinn hræðilegi Ravana sem var djöflakonungur með 10 höfuð. Hann hafði sent dádýrið til að lokka Rama og Lakshman í burtu svo hann gæti rænt Sita og gert hana að eiginkonu sinni. Djöflakonungurinn greip Sita, kastaði henni á stríðsvagn sinn, og þaut með hana um himininn til hallar sinnar.

Þegar Rama og bróðir hans sneru aftur fundu þeir Sita hvergi og urðu hræddir og sorgmæddir. Í marga daga leituðu þeir í skóginum án árangurs. Þá komu þeir að apaborginni Kishkindha þar sem þeir hittu apahetjuna Hanuman sem féllst á að að hjálpa þeim að finna Sita. Hanuman sendi af stað risastóran apaher sem leitaði hátt og lágt en án árangurs. Þegar þeir komu í syðsta hluta Indlands hittu þeir hrægamminn Sampathi sem sagði þeim að Ravana hefði flogið með Situ til eyjarinnar Lanka sem var langt út á hafi. Til að ná þangað þurftu þeir að komast yfir hafið. Það vildi svo vel til að Hanuman var enginn venjulegur api heldur hafði hann ofurnáttúrulega hæfileika og hann tók því tilhlaup, stökk yfir hafið og lenti við höll Ravana á eyjunni. Hann læddist laumulega um höllina og fann hvar Sita var haldið fanginni. Þegar Hanuman ætlaði að snúa til baka til Rama náðu hermenn Ravana honum, bundu hann og kveiktu í rófu hans. Verandi lipur og göldróttur slapp Hanuman hinsvegar úr böndunum og klifraði lipurlega upp á þak hallarinnar. Þar hoppaði hann af einu þaki á annað enn með eldinn logandi á rófunni þannig að það kviknaði í öllum þökunum í höllinni. Síðan tók hann risastökk aftur yfir hafið þar sem Rama beið fregna.

Þegar Rama frétti af stöðunni safnaði hann stórum herdeildum af öllum vinveittum verum á suður-ströndinni, þar með talið öpum og björnum. Þeir byggðu risavaxna brú yfir hafið og stormuðu af stað yfir til eyjunnar Lanka þar sem Ravana var í óða önn að safna saman sínum bestu liðsforingjum, djöflahermönnum og risum til að berjast við her Rama. Á brast mikill og ógurlegur bardagi, örvar flugu í báðar áttir og loftið ómaði af reiði og angistarópum. Í bardaganum voru margir drepnir og særðir og Lakshuman, bróðir Rama, var meðal hinna særðu. Í von um að bjarga lífi Lakshuman skaust Hanuman eins og elding um himininn alla leið norður til Himalayafjallgarðanna til að finna töfrajurt sem gæti bjargað honum. Hann þekkti hinsvegar ekki í sundur jurtirnar þannig að hann brá á það ráð að lyfta upp heilu fjalli og flaug með það til baka. Þar voru réttu jurtirnar fundnar og notaðar til að lækna Lakshuman. Rama var Hanuman svo þakklátur að hann sagði að hér eftir yrðu þeir sem bræður.

Nú var kominn tími til að Rama og Ravana mættust einir í bardaga. Ravana æddi öskrandi á móti Rama í fullum herklæðum. Rama var hinsvegar hinn rólegasti. Hann setti gyllta ör í bogann sinn, miðaði vandlega og skaut. Örin, sem var gjöf frá guðunum, hitti Ravana í hjartastað og hann datt samstundis niður dauður.

Eftir dauða Ravana voru Sita og Rama sameinuð aftur. Nú voru einnig 14 ár liðin frá því þau voru send í útlegð frá Ayodhya og þau héldu því heim á leið. Það var dimm nótt og tungl hulið skýjum er þau sneru aftur til borgarinnar og því erfitt að rata. En íbúar borgarinnar höfðu frétt af heimkomu þeirra, kveikt á olíulömpum og sett í glugga heimila sinna til að vísa þeim veginn. Er Rama kom heim var hann krýndur konungur og var bæði góður og réttlátur stjórnandi.

Á divalí hátíðinni er sögunnar af Rama og Situ og heimkomu þeirra til borgarinnar minnst.