Hvernig áin Ganges varð til

Hindúatrú / Guðir og goðsögur / Hvernig áin Ganges varð til

Sækja pdf-skjal

 

Áin Ganges Einu sinni var voldugur konungur að nafni Sagara sem átti 60 þúsund syni. Sagara hafði mikla trú á yfirburðum sínum og til að sýna vald sitt og mikilleika ákvað hann að fara í leik. Hann sleppti glæsilegasta hesti ríkisins lausum í eitt ár og ef engum konungi annars ríkis tækist að handsama hestinn væri það merki um að Sagara væri þeim öllum æðri.

Regnguðinn Indra hafði hinsvegar áhyggjur af því að Sagara væri að verða of valdamikill og gæti farið að vilja taka yfir ríki sitt. Indra ákvað því að ræna hestinum og fela hann þar sem hann hélt að enginn myndi finna hann. Hann tjóðraði hestinn í helli, djúpt neðanjarðar, hjá helgum manni sem hafði valið sér þennan rólega stað til að stunda íhugun.

Þegar í ljós koma að hesturinn var týndur lofuðu synir Sagara föður sínum að finna hann og færa honum. Þeir leituðu um öll lönd og á endanum fundu þeir hestinn í hellinum. Þar sem helgi maðurinn sat hjá hestinum héldu þeir að hann hefði rænt honum og réðust því á hann. Við það vaknaði hann úr hugleiðslunni og varð æfur af reiði yfir trufluninni. Með neistandi augnráði einu saman breytti hann öllum hinum 60 þúsund bræðrum í ösku og bræðurnir festust milli heima, milli lífs og dauða og komust ekki áfram í hringrás lífsins.

Löngu síðar, þegar Bhagiratha barnabarn Sagara var orðinn konungur, heyrði hann söguna af örlögum frænda sinna og fór að leita leiða til að hjálpa þeim að öðlast sáluhjálp. Hann komst að því að eina leiðin til að bjarga þeim væri ef Ganga, gyðja áa og fljóta, myndi koma og hreinsa sálir þeirra. Hann bað því Vishnu um að senda Ganga til jarðarinnar. Vishnu vorkenndi bræðrunum og varð því við ósk Bhagiratha og skipaði Ganga að falla til jarðarinnar. Guðinn Shiva vissi hinsvegar að ef Ganga félli á jörðina án þess að nokkuð drægi úr fallinu þá myndi jörðin brotna undan þunga hennar. Þar sem hann sá hana falla niður greip hann hana með síða, þykka hárinu sínu. Síðan lét hann hana renna rólega niður á jörðina í nokkrum straumum. Ganga rann svo yfir Indland og þegar hún snerti ösku bræðranna 60 þúsund frelsuðust sálir þeirra og þeir fundu frið.

Hindúar telja að þarna hafi áin Ganges orðið til en hún rennur yfir Indland, frá Himalayafjöllum út í Bengalflóa. Hindúar trúa því að Ganges sé heilög á og jafnvel minnsti dropi af vatni úr ánni geti hreinsað burt syndir þeirra. Á bökkum Ganges stendur hin helga borg Varanasi sem er sögð vera uppáhaldsstaður Shiva á jörðinni. Þar er vatnið talið sérstaklega heilagt og kröftugt og árlega streyma þangað milljónir manna til að baða sig í hinu helga vatni.