Holi

Hindúatrú / Hátíðir / Holi

Sækja pdf-skjal

 

Holi Holi hátíðin er haldin á fullu tungli í Phalunga mánuði (feb./mars). Þetta er lífleg og litrík vor- og gleðihátíð sem einkennist af ærslum og prakkaraskap. Á þessum degi brjóta hindúar hefðir og höft sem tengjast stétt, kyni, stöðu og aldri og það skemmta sér allir saman, karlar og konur, ríkir og fátækir, ungir og aldraðir. Hið stífa stéttakerfi víkur þennan dag, því fólk klæðist látlausum fötum þannig að erfiðara er að sjá mun á ríkum og fátækum og fólk skiptir jafnvel um hlutverk þannig að húsbændur þjóna t.d. þjónunum sínum.

Holi er kölluð hátíð litanna og er þekktust fyrir það að þennan dag streyma hindúar út á götur og kasta lituðu púðri og vatni hver á annan. Allir taka þátt, meira að segja þingmenn og ráðherrar. Holi hefur einnig á sér yfirbragð ástarinnar og unga fólkið daðrar óheflað á almannafæri. Fólk sleppir fram af sér beislinu og talar frjálslega . „Bura na mano, Holi hai" er algeng kveðja á holi en það þýðir „ekki vera móðgaður það er holi". Þessi galsi og gleði á að minna á grallaraeðli hins vinsæla guðs Krishna en í goðsögunum er sagt að þegar hann starfaði sem kúahirðir hafi hann átt það til að stríða mjaltastúlkunum góðlátlega með því að skvetta á þær vatni. Litaða púðrið vísar auk þess til þess er Krishna kvartaði við móður sína yfir því að húð hans væri svo miklu dekkri en húð Radha, æskuvinkonu sinnar. Móðir hans brá þá á það ráð að mála andlit Radha svo þau væru líkari. Litadýrðin vísar einnig til vorsins sem er að bresta á með allri sinni litadýrð.

Í Vrinadavan og Mathura, þar sem Krishna á að hafa alist upp, er holi sérstaklega stór hátíð sem er fagnað í 16 daga.

Nafn hátíðarinnar holi er dregið af nafni illu nornarinnar Holiku. Sögunnar af Holiku og drengnum Prahlad er minnst kvöldið fyrir holi með því að kveikja í stórum brennum og henda eftirlíkingum af Holiku á eldinn. Þessar brennur eru taldar hreinsa loftið af illum öndum.

Holí hátíðahöld í Utah, BandaríkjunumDansað í kringum brennu kvöldið fyrir holi