Dívalí eða hátíð ljóssins er líklega vinsælasta hátíð hindúa. Hún er haldin síðustu 3 daga Āshvin mánaðar og fyrstu tvo daga Kartika mánaðar samkvæmt dagatali hindúa. Í Nepal og norður- og vesturhluta Indlands er auk þess haldið upp á nýtt ár á fjórða og aðaldegi hátíðarinnar.
Orðið dívalí er komið úr sanskrit og merkir röð ljósa. Á hátíðinni fagna hindúar sigri ljóssins yfir myrkrinu, þekkingu yfir fáfræði og sigri hins góða á hinu illa en í hugum flestra táknar ljósið einmitt kærleik og visku. Hátíðin er auk þess tengd nýju upphafi, endurvakningu vonar, skuldbindingu, vináttu og velvild.
Dívalí hátíðin er tileinkuð Lakshmi, gyðju auðs og fegurðar en í Norður-Indlandi er þess einnig minnst þegar Rama sneri heim eftir að hafa sigrað djöflakonunginn Ravana.
Mikill undirbúningur er fyrir hátíðina. Fólk fær sér ný föt og þrífur heimili sín og skreytir en því er trúað að gyðjan Lakshmi blessi eigendur fallegra og hreinna heimila á þessum tímamótum. Þegar hátíðin gengur í garð hittast fjölskyldur, borða saman kræsingar og skiptast á kortum, gjöfum og sætindum.
Sérstök áhersla er lögð á ljós í hátíðarhöldunum. Það er því mikið um ljósaskreytingar og nóttin lýst upp með flugeldum. Auk þess er hefð fyrir því að raða olíulömpum, sem kallast diyas, í glugga eða á handrið heimila, verslana, opinberra staða og mustera. Á Indlandi er þeim einnig fleytt eftir ám og fljótum. Olíulamparnir og flugeldarnir vísa til þess þegar Rama og Sita sneru aftur heim í ríki sitt eftir að hafa yfirbugað djöflakonunginn Ravana en þá fagnaði fólkið í ríkinu þeim með því að lýsa upp allt ríkið með olíulömpum og flugeldum.
Að morgni þriðja dags dívalí vakna hindúar víða um Indland fyrir sólarupprás og fara í notalegt bað með ilmolíum en það er gömul goðsögn að helga áin Ganges renni í allar ár og vatn þennan dag og baðið hafi því sömu áhrif og að baða sig í Ganges sjálfri. Auk þess vísar baðið til goðsagnar sem segir að guðirnir hafi baðað guðinn Krishna og nuddað hann með ilmolíum í þakklætisskyni eftir að hann sigraði djöfulinn Narakaasura.
Nýtt viðskiptaár hefst á dívalí og því heiðra margir hindúar Lakshmi gyðju auðs og velsældar í von um gott og árangursríkt ár. Það geta þeir meðal annars gert með því að skilja eftir opna glugga og dyr á heimilum sínum svo Lakshmi geti komið inn og blessað þá. Olíuljósin sem fólk setur í gluggana eiga að hjálpa gyðjunni að finna húsin. Auk þess eru sérstök munstur, rangoli , teiknuð á gólfin gyðjunni til heiðurs.
Sögurnar um sigur Rama á Ravana og sigur Krishna á Narakaasura er að finna í kaflanum Guðir og goðsögur.