Krishna Janmashtami

Hindúatrú / Hátíðir / Krishna Janamashtami

Sækja pdf-skjal

 

Krishna Janamashtami Janamashtami hátíðin er haldin til að fagna fæðingu Krishna sem er einn vinsælasti guð hindúatrúar. Krishna sem er jafnt stríðsmaður, hetja, kennari og heimsspekingur er sagður vera ein birtingarmynd guðsins Vishnu sem er einn af þremur yfirguðum hindúa.

Krishna Janamashtami hátíðin stendur í tvo daga og er haldin í Shrāvana mánuði (júlí/ágúst).

Þar sem Krishna er vinsæll og mikilvægur guð hjá hindúum leggja þeir mikla vinnu í undirbúning hátíðarinnar. Margir hindúar fasta fyrri dag hennar og snerta ekki mat fyrr en á miðnætti en þá færast hátíðarhöldin í aukana. Talið er að Krishna hafi fæðst um miðnætti svo þá er stytta af honum böðuð, klædd, lögð í vöggu og tilbeðin. Við dagrenningu mála konur munstur sem vísar í átt að heimilum þeirra. Munstrið líkist fótsporum lítilla barna og tákna komu Krishna inn á heimilin.

Þar sem goðsögurnar segja að Krishna hafi verið sérstaklega hrifinn af mjólkurvörum þá eru bornar fram kræsingar unnar úr mjólkurvörum. Leikin eru leikrit um líf Krishna og fólk dansar og syngur til að hylla guðinn. Farið er með helgar möntrur til að heiðra Krishna. Sumstaðar er pottur fullur af smjöri hengdur hátt upp í loft eða tré og hópar af ungum karlmönnum keppast við að ná pottinum og brjóta hann. Þessi leikur á að minna á grallaralegt eðli hins vinsæla guðs.

Krishna Janamashtami hátíðahöld

 

Litli Krishna - stikla