Brahman - alheimssálin

Hindúatrú / Kennisetningar / Brahman - alheimssálin

Sækja pdf-skjal

 

Brahman Hindúar trúa því að til sé eilíf, óbreytanleg orka sem umlykur heiminn að utan og innan, er allstaðar og í öllu. Þessi orka er kölluð Brahman og er grunnurinn sem allar greinar hindúatrúar byggja á. Brahman er því stundum nefnd alheimssálin sem sameinar allt líf og orku í heiminum. Einnig er hægt að líta á Brahman sem einn eilífan, óendanlegan og ópersónulegan guð.

Gömul saga segir af vitrum manni sem var að kenna syni sínum um Brahman. Hann sagði syninum að setja smá salt út í vatn og taka það svo úr því aftur. Sonurinn setti saltið í vatnið og við það leystist það að sjálfsögðu upp og blandaðist vatninu svo ekki var hægt að taka það aftur upp. Faðirinn sagði þá syninum að nærvera Brahman í heiminum væri svipuð og saltið í vatninu, við sjáum það ekki en það er samt allsstaðar.

Flestir hindúar tilbiðja marga guði með mismunandi eiginleikum. Flestir þeirra líta svo á að þessir guðir séu í raun mismunandi holdgervingar Brahman. Sumir hópar innan hindúatrúar tilbiðja hinsvegar ekki neina guði en einbeita sér þess í stað að því að styrkja samband sitt við alheimssálina, Brahman. Hindúatrú er því í raun mjög sérstök blanda af algyðistrú og fjölgyðistrú.