Helgirit

Hindúatrú / Kennisetningar / Helgirit

Sækja pdf-skjal

 

Helgirit Hindúar hafa hundruð helgirita sem innihalda siðareglur, goðsögur og heimspekilegar hugleiðingar. Elstu og mikilvægustu helgiritin voru skrifuð á tungumálinu sanskrít sem var talað á Indlandi til forna.

Vedaritin

Elstu ritin eru Vedaritin eða bækur viskunnar. Vedaritin eru fjögur og heita Ljóðaviskan (Rig veda), Söngviskan (Sama veda), Fórnviskan (Yajur veda) og Töfraviskan (Atharva veda). Ritin samanstanda af lofsöngvum, trúarsöngvum og lýsingum á því hvernig helgiathafnir eigi að fara fram. Margt í ritunum er notað enn í dag þó annað þyki hinsvegar úrelt og hafi litla sem enga tengingu við nútíma hindúatrú.

Margir hindúar trúa því að Vedaritin séu af guðlegum uppruna, þ.e. hafi ekki verið samin af mönnum heldur Guði. Ein kenningin um uppruna ritanna er að hvert rit hafi komið frá hverju höfði guðsins Brahma (sjá nánar í kafla um Brahma).

Enginn veit nákvæmlega hvenær Vedurnar voru samdar. Framan af þótti það saurgun á hinum helga texta að skrifa hann niður og því kenndu hinir helgu menn lærisveinum sínum textann sem þannig gekk mann fram að manni jafnvel í mörg hundruð ár áður en hann var skrifaður niður. Talið er að loks fyrir u.þ.b. 2800 árum síðan hafi hann loks verið skrifaður niður og ritunum safnað saman.

Itihasas

Orðið itihasas merkir „saga" eða „það sem hefur gerst". Itihasasritin segja sögur af mismunandi holdgervingum guðanna og innihalda mikinn heimspekilegan og siðferðislegan boðskap.

Itihasasritin samanstanda annarsvegar af tveimur af vinsælustu helgiritum hindúa, söguljóðunum Mahabharata og Ramayana, og svo hinsvegar af Puranaritunum.

Mahabharata er lengsti ljóðabálkur í heimi, skiptist í 18 bækur og er með næstum 100 þúsund erindi. Ljóðabálkurinn er talinn vera um 2800 ára gamall en hefur tekið breytingum í gegnum aldirnar og inniheldur heimspekilegar íhuganir um dharma, skyldur og siðferði.

Mikilvægasti og vinsælasti hlutinn heitir Bhagavad Gíta eða Söngur drottins. Oft er talað um Bhagavad Gíta sem leiðbeiningar fyrir mannkynið frá hinum vinsæla guði Krishna, sem er ein af fjölmörgum birtingarmyndum Vishnu. Bhagavad Gíta gerist á 18 dögum í miklu stríði milli tveggja tengdra ætta og er sett upp sem samtal milli Krishna og prinsins Arjuna. Í samtalinu stappar Krishna í hann stálinu og segir honum í leiðinni frá fyrri birtingarmyndum sínum á jörðinni um leið og hann útskýrir tilgang lífsins, skyldur einstaklingsins og leiðina til andlegs frelsis.

Ramayana eða „Ganga Rama" er söguljóð sem var skrifað fyrir u.þ.b. 2200 árum en er líklega byggð á eldri sögu sem hefur gengið mann fram af manni. Hún er vinsæl og ævintýraleg saga sem fjallar um hetjuna Rama (sem er einnig holdgerving guðsins Vishnu), útlegð hans og baráttu við tíuhöfða djöfulinn Ravana. Sagan er mjög vinsæl meðal hindúa og gerð hafa verið leikrit eftir henni, hún kvikmynduð og skrifaðar barnabækur og gerðar teiknimyndir upp úr efni hennar. Þú getur lesið stutta útgáfu af sögunni í kaflanum Rama og Sita.

Puranas

Puranaritin eru safn af goðsögum, sálmum, fornum sögum af konungum, hetjum og vitringum, lífsreglum og lýsingum á alheiminum ásamt ýmsum leiðbeiningum sem tengjast trúarlífi hindúa. Elstu útgáfur af Puranaritunum eru um 2300 ára gamlar.