Kump Mela

Hindúatrú / Hátíðir / Kump Mela

Sækja pdf-skjal

 

Kump Mela Kumbh Mela er mjög stór pílagrímshátíð sem er haldin á mismunandi stöðum við ána Ganges á fjögurra ára fresti. Á 12 ára fresti er haldin enn stærri hátíð sem kallast Puma Kumbh Mela þar sem milljónir manna koma saman og er því líklega fjölmennasta pílagrímshátíð á jörðinni. Eftir 12 Puma Kumbh Mela hátíðir, eða á 144 ára fresti, er að síðan haldin enn stærri hátíð, Maha Kumbh Mela. Síðasta Maha Kumbh Mela var haldin árið 2001 og þá komu um 60 milljónir saman í borginni Allahbad.

Tímasetning hátíðarinnar er reiknuð út frá stöðu himintunglanna. Aðalástæðan fyrir því að pílagrímar safnast að hinni helgu á Ganges á þessum tíma er sá að þetta á að vera sérstaklega helgur og heillvænlegur tími til að baða sig í ánni og auka þannig líkurnar á að ná einingu við guð og losna undan hinni endalausu hringrás endurfæðinga. Svokallaðir sadhua, sem eru jógameistarar eða flökkumunkar setja dulrænt mark sitt á hátíðarhöldin en þeir streyma í þúsundatali að ánni til að baða sig í henni. Sadhuar eru oft klæddir appelsínugulum kyrtlum eða pjötlum og þekja skinn sitt með ösku og púðri. Þeir eyða ævinni í að reyna að nálgast guð og margir nota sérstakar og eftirtektarverðar aðferðir til þess s.s. að stunda ekki kynlíf, sofa á naglarúmi, klippa aldrei hár sitt og skegg, klæðast aldrei fötum jafnvel þótt kalt sé í veðri eða með því að halda öðrum handleggnum upp í loftið í mörg ár. Markmiðið er að sýna vald hugans yfir líkamanum. Það eru 4–5 milljónir sadhua á Indlandi í dag og þeir gegna mikilvægu hlutverki meðal hindúa. Þeir blessa fólk, gerast dómarar í ágreiningsmálum og eru einnig taldir geta lagt álög á fólk.