Hindúatrú / Hátíðir / Navaratri
 
Navaratri eða níu nætur er ein ef merkilegustu hátíðum hindúa. Navaratri er haldin í kringum uppskerutímann, í Āshvin mánuði, og eins og nafnið gefur til kynna stendur hún í níu daga.
Hátíðin er tileinkuð Devi, hinum kvenlega guðdómi í hindúatrú en þar er ólíkt flestum öðrum trúarbrögðum lögð mikil áhersla á móðurhlutverk Guðs. Devi er oft einfaldlega nefnd Gyðjan og yfirleitt er litið svo á að allar gyðjur hindúatrúar séu í raun mismunandi birtingarmyndir af Devi eða Gyðjunni.
Á Navarati er algengt að sérstök áhersla sé lögð á gyðjurnar Durga, Lakshmi og Saraswati og hverri gyðju eru tileinkaðir þrír dagar. Fyrstu þrír dagarnir eru tileinkaðir Durga, gyðju styrks og hugrekkis, sem talin er geta hjálpað fólki að sigrast á göllum sínum og syndum. Næstu þrír dagar eru tileinkaðir Lakshmi, gyðju auðs og velgengni, sem talin er geta gert fólk ríkt og látið drauma þeirra rætast. Síðustu þrír dagarnir eru tileinkaðir viskugyðjunni Saraswati, sem gefur fólki visku og vísdóm.
Navarati er skrautleg og fjörug hátíð. Gullmarkaðir á Indlandi eru opnir frameftir hvert kvöld því þetta þykir góður tími til að kaupa gull og gimsteina. Konur færa hver annarri gjafir og fara í sitt fínasta púss. Fólk fer út að borða og dansa á hverju kvöldi. Gyðjunni eru færðar matarfórnir og algengt er að diskarnir séu sérstaklega skreyttir henni til heiðurs. Sumir fylgismenn Durga fasta á Navarati og bjóða almenningi bænir til verndar heilsu og eignum. Heimili eru skreytt með lömpum, blómum, dúkkum og styttum af gyðjunum í öllum stærðum og gerðum. Á hverjum degi hátíðarinnar planta konur mismunandi útsæði í lítil ílát og fórna því svo til gyðjunnar á síðasta degi. Þetta er gert til að fagna góðri uppskeru en einnig til að blíðka pláneturnar níu sem hindúar trúa að geti haft áhrif á daglegt líf sitt.
Margar hefðir tengdar Navarati vísa í goðsagnir sem tengjast gyðjunum. Gyðjan Durga hitti móður sína aðeins í níu daga á hverju ári og fjölskyldur reyna því að fara heim til ættingja sinna á Navarati. Í einni sögunni um Durga barðist hún án hvíldar við djöfulinn Mahishasura í 9 daga og 9 nætur og á tíunda deginum drap hún hann. Þeim degi er fagnað á eftir Navarati hátíðinni og kallast Vijayadasami sem merkir tíundi dagur sigurs. Vijayadasami þykir einstaklega heillvænlegur dagur og hindúar nota hann til að hefja ný verkefni. Margir skólar á Indlandi hefjast t.d. á Vijayadasami.
Á þessum tíunda degi fagna hindúar í norðurhluta Indlands einnig sigri Rama yfir djöflinum Ravana. Dagarnir 10 tákna þá 10 höfuð Ravana og fólk notar hvern dag til að reyna að losa sig undan slæmum tilfinningum s.s. reiði eða afbrýðissemi. Tíundi dagurinn er svo þekktur sem Sigurdagurinn og þá kemur fólk saman og syngur, spilar og segir sögur af Rama. Sýnd eru leikrit sem fjalla um baráttu Rama við Ravana og risavaxnar brúður af Ravana og öðrum djöflum eru brenndar á hverju kvöldi.
Sögunar af Rama og Durga er að finna í kaflanum Guðir og goðsögur.