Hindúatrú / Hátíðir / Varsha Pratipada
 
Fyrsti dagur Chaitra mánuðar, sem er fyrsti mánuðurinn í dagatali hindúa, er nýárshátíð þar sem fæðingu ársins er fagnað. Þessi hátíð, sem kallast Varsha Pratipada, er einnig vorhátíð og táknar endurnýjun. Hindúar telja því Varsha Pratipada vera góðan dag til að hugleiða líf sitt og byrja á nýjum verkefnum. Í sumum héröðum Indlands er útbúin sérstök jurtablanda sem er í senn beisk og sæt og á að tákna andstæðurnar í lífi okkar, gleði og sorg, sigra og mistök. Blöndunni er fórnað til guðanna og svo deilt á meðal fólksins. Þessum degi er fyrst og fremst fagnað í Suður-Indlandi því annars staðar kjósa hindúar frekar að fagna nýári að hausti til, eftir dívalí hátíðina.