Hindúatrú / Hátíðir / Raksha Bandhan
 
Raksha Bandhan er aldagömul hátíð tileinkuð ást, vináttu og bræðralagi. Hún er haldin hátíðleg í Bhādrapad mánuði (ágúst/sept.). Orðið raksha merkir vernd en bandhan merkir að binda.
Það er gömul hefð að á þessum degi bindi systur helgan þráð, rakhi, um úlnlið bræðra sinna til tákns um ást þeirra og umhyggju. Systirin málar líka tilak á enni bróður síns og í staðinn gefur bróðirinn henni þakklætisgjöf og lofar að hugsa vel um hana og vernda.
Síðastliðna áratugi hefur þessi hefð hinsvegar þróast og er nú ekki lengur einskorðuð við systkini. Rakhi er því m.a. bundið um úlnlið hermanna og góðir vinir skiptast á rakhi sem tákni um vináttu sína. Auk þess hefur sú hefð skapast á Indlandi að konur bindi rakhi um mitti forsætisráðherrans og prestar binda það um mitti safnaðarmeðlima sinna.
Hindúar nota þennan dag til að hitta fjölskyldur sínar, borða saman og skiptast á gjöfum. Þeir sem ekki geta hist senda rakhikort með kærleiksorðum. Hefðbundið rakhi armband er fléttað úr rauðum og gylltum þráðum en í dag eru böndin í öllum regnbogans litum auk þess sem þau eru oft skreytt með marglitum silkiþráðum, steinum og perlum. Hefðin segir að ef kona bindi rakhi um hönd manns þá verði hann skuldbundinn henni ævilangt og beri að vernda hana.