Hindúatrú / Hátíðir / Hanuman Jayanti
 
Á Hanuman Jayanti hátíðinni er fæðingu apaguðsins, Hanuman Ji, fagnað. Hanuman Ji er tákn styrks og orku. Hann er sagður hafa vald yfir steinum, geta fært fjöllin, teygt sig til skýjanna og á einnig að geta breytt sér í hvaða form sem er. Hann er yfirleitt tengdur töfrum og hæfileikum til að sigra illa anda. Hindúar dýrka apaguðinn vegna ótakmarkaðrar hollustu hans við guðinn Rama en hann stýrði apaher sínum gegn djöflakonunginum Ravana til að hjálpa Rama að endurheimta eiginkonu sína Sita. Í þakkarskyni gaf Rama honum eilíft líf og lofaði því að hann yrði tilbeðinn samhliða sér. Það er því algengt að sjá myndir eða styttur af Hanuman við hlið mynda af Rama.
Hanuman Jayanti hátíðin er haldin í Chaitra mánuði (mars/apríl). Kvöldið og nóttina fyrir hátíðina eru haldnar sérstakar trúarathafnir í musterum þar sem apaguðinn er lofsunginn. Tilbeiðslunni líkur við sólarupprás og matarfórnum er dreift til allra en Hanuman er sagður hafa fæðst við sólarupprás. Á Indlandi fer fólk í litríkar skrúðgöngur þar sem líkneski af Hanuma Ji er borið eftir götunum og fólk dansar í kringum það. Sumir þátttakendur í skrúðgöngunni setja á sig grímur og rófur og líkja eftir apaguðinum.