Hindúatrú / Hátíðir / Ganesh Chaturthi
 
Ganesh er sonur guðsins Siva og gyðjunnar Parvati. Hann er guð viskunnar og einn af mest dýrkuðu guðum hindúatrúar. Ganesh er talinn vera góður í að fjarlægja hindranir og er því einkum tilbeðinn þegar fólk hefur ný verkefni eða opnar ný fyrirtæki. Hann er einnig talinn vera verndari ferðamanna. Hann er sagður vera með líkama manns en höfuð af fíl. Söguna af því hvernig Ganesh fékk fílshöfuðið má finna í kaflanum Ganesh. Á Ganesh Chaturthi hátíðinni er afmælisdegi hans fagnað.
Hátíðin er haldin í Bhādrapad mánuði (ágúst/sept.) og víðsvegar á Indlandi er hún opinber gleðihátíð sem stendur í heila 10 daga. Litríkum og fjölbreytilegum líkönum af Ganesh er stillt upp á heimilum og musterum og fjölskyldur og vinir hittast síðan og tilbiðja stytturnar saman. Ólíkt mörgum öðrum hátíðum hindúa eru fáir sem fasta á Ganesh Chaturthi heldur er einmitt lögð áhersla á að éta á sig gat af mat og sætindum. Sérstaklega eru áberandi sælgætismolar sem eru gerðir úr kókoshnetum og sykri og kallast modaks en samkvæmt goðsögnunum var Ganesh mikið fyrir þá (sjá nánar í kaflanum um Ganesh) .