Makar Sankranti

Hindúatrú / Hátíðir / Makar Sankranti

Sækja pdf-skjal

 

Makar Sankranti Í Paush mánuði (des./jan.) halda hindúar upp á það að daginn tekur að lengja á norðurhveli jarðar og veturinn því kvaddur. Hátíðin er þekktust undir nafninu Makar Sankranti er þó ekki kölluð það sama alls staðar. Einnig er mismunandi eftir landsvæðum hvernig hátíðarhöldin fara fram.

Í Gujarat og Maharashtra héröðum Indlands setja litríkir flugdrekar svip sinn á daginn þar sem jafnt ungir sem aldnir taka þátt í flugdrekaleikjum.

Í Punjab héraði er hátíðin kölluð Lohri og þar safnast ættingjar og vinir saman við stóran varðeld og henda sælgæti, sykurreyr og hrís á eldinn.

Í Uttar Pradesh héraði kallast hátíðin Kicheri. Þar er talið mikilvægt að baða sig þennan dag og fjöldi fólks baðar sig í Sangam við Prayagraj þar sem árnar Ganga, Jamuna og Saraswathi mætast.

Í Suður-Indlandi kallast hátíðin Pongal og er uppskeruhátíð sem endist í þrjá daga. Á fyrsta deginum er fátækum gefinn matur, föt og peningar auk þess sem regnguðinum eru færð hrísgrjón soðin í mjólk. Á öðrum degi er sólguðinum færð sama fórn og á þriðja degi eru fjölskyldunautgripirnir heiðraðir fyrir erfiðisvinnu sína á ökrunum. Það er gert með því að baða þá, mála í skærum litum og skreyta með blómum og bjöllum. Með þessum gjöfum læra hindúar að vera ekki sjálfselskir heldur koma fram við alla með ást og virðingu og að hinn raunverulegi auður felst í kærleik, vináttu, náttúrunni og dýrunum sem gefa okkur svo margt.