Hindúatrú / Hátíðir / Rama Navami
 
Á Rama Navami er fæðingu Rama fagnað en hann á að hafa fæðst á hádegi á níunda degi Chaitra (mars/apríl). Rama er hetjan í fornu og vinsælu sagnaljóði sem heitir Ramayana. Ljóðið er um 50 þúsund línur og segir frá lífi Rama frá fæðingu til dauða. Rama var prins og mikil hetja en einnig guðinn Vishnu holdgaður í mann. Hjá hindúum er Rama tákn fullkomnunar. Hann er hinn fullkomni sonur, eiginmaður og síðast en ekki síst konungur.
Viku fyrir hátíðarhöldin hefst upplestur á Ramayana ljóðinu í musterum og stendur hann stanslaust yfir fram að hátíðardeginum en þá eru mikilvægustu atriðin lesin upp. Hindúar þrífa hús sín og skreyta á Rama Navami. Ávöxtum og blómum er fórnað á fjölskyldualtarið og fólk fer í bað snemma dags. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn hefur bænastundina með því að mála tilak á enni allra fjölskyldumeðlima áður þau sameinast í bæn. Líkan eða stytta af Rama sem barni er sett í vöggu og breitt yfir. Um hádegi er teppið tekið af Rama og honum boðinn sérstakur matur sem síðan er deilt meðal fólksins. Sumir fasta að hluta til t.d. með því að borða ekki ákveðinn mat s.s. lauk, hvítlauk, sum krydd og hveitivörur. Hindúar leggja áherslu á siðferðislega íhugun á þessum degi og reyna að vera sérstaklega örlátir við aðra. Margir trúa því að Rama láti óskir þeirra rætast sem tilbiðja hann þennan dag.
Á fæðingastað Rama, Ayodhya í Uttar Pradesh, eru hátíðahöldin sérstaklega umfangsmikil og draga að mikinn fjölda fólks ár hvert. Auk Rama tilbiðja hindúar Sita, eiginkonu hans, Lakshmana, bróður hans og apaguðinn Hanuman á þessum degi.