Hljóðið aúm

Hindúatrú / Tákn / Hljóðið aúm

Sækja pdf-skjal

 

Aúm Aúm er hið heilaga hljóð hindúa sem þeir telja að innihaldi kjarna sannrar visku. Það er sagt að aúm hafi verið fyrsta hljóðið sem heyrðist við sköpunina og að úr því hafi alheimurinn orðið til. Orðið er því límið sem heldur alheiminum saman. Aúm er einnig talsvert notað af janistum og búddistum.

Mismunandi merkingar eru lagðar í orðið. Sumir telja að það merki sá sem verndar. Aðrir segja að hljóðin þrjú sem mynda aúm séu samsett úr tákni hinnar guðlegu þrenningar – a fyrir Brahma, ú fyrir Vishnu og m fyrir Mahadev, sem er annað nafn Shiva. Einnig er talið að hljóðin tákni heimana þrjá – jörð, loft og himin og kjarna vedaritanna þriggja: rigveda, yajurveda og samaveda. Almennt er talið að hver sem merkingin sé þá vísi hún samt alltaf til Brahman, alheimssálarinnar eða Guðs.

Hindúar nota aúm í upphafi og enda bæna, mantra, við hugleiðslu og í jóga æfingum. Rituð útgáfa af orðinu er orðið alheimstákn fyrir hindúatrú líkt og krossinn hjá kristnum og sexarma stjarnan hjá gyðingum. Ritaða útgáfan er auk þess oft notuð til að marka upphaf texta í trúarhandritum.

Hátt upp í Himalayafjöllunum er tindur sem nefnist Om Parvat. Hann er helgur í augum hindúa vegna þess að snjórinn leggst þannig á tindinn að hann myndar munstur sem líkist skemmtilega mikið tákninu aúm.