Helgir staðir

Hindúatrú / Tákn / Helgir staðir

Sækja pdf-skjal

 

Helgir staðir Í Indlandi eru þúsundir helgra staða sem milljónir pílagríma heimsækja ár hvert. Hver staður er yfirleitt tengdur sérstökum guði eða helgum mönnum og þykja þeir oft heillavænlegir á einhvern sérstakan hátt.

Vatn er sérstaklega heilagt hjá hindúum og það að baða sig hefur trúarlega merkingu. Á Indlandi er yfirleitt talað um sjö helgar ár þar sem áin Ganges er sú merkasta en árnar Yamuna og Sarasvati koma þar á eftir. Árnar eru taldar kvenkyns og eru persónugerðar sem gyðjur. Ganga sem er gyðja Ganges er yfirleitt sýnd ríðandi á krókódíl og gyðjan Yamuna ríður skjaldböku.

Víðs vegar um landið er einnig að finna helga læki, tjarnir og staði við strandirnar. Fjöll og hæðir hafa einnig sérstaka merkingu fyrir hindúa. Mikilvægust eru Himalayafjöllin í Norður-Indlandi. Samkvæmt goðsögunum býr guðinn Shiva í einu fjallinu og kona hans Parvati er sögð vera dóttir Himalaya. Það er algengt að helgir menn flytji til Himalayafjalla til að lifa lífi meinlæta og einangrunar.

Önnur helg fjöll eru t.d. Vindhya fjöllin sem afmarka Norður- og Suður-Indland og Venkata hæðin í Suður-Indlandi. Í Vindhya fjöllunum er Vaishno Devi musterið sem er tileinkað Gyðjunni. Ganga þarf um 12 km leið til að komast að hellismunnanum og til að komast inn í musterið sjálft þarf að skríða gegnum mjög þröngan inngang. Í tenglasafninu hér til hliðar er myndband þar sem má m.a. sjá hvernig inngangurinn inn í musterið er.

Venkata hæðin er sjöunda hæð, sjöunda tindar Tirumala og á henni er frægt musteri, Tirumala Venkateswara musterið, sem er tileinkað Vishnu. Musterið er líklega vinsælasti helgistaður í heimi en þangað koma um 50 – 100 þúsund pílagrímar daglega.

Margar borgir og bæir hafa sérstaka merkingu í hugum hindúa. Ein sú helgasta er borgin Varanasi sem stendur við bakka Ganges. Varanasi, einnig þekkt undir nöfnunum Benares og Kashi, er ein af elstu borgum í heimi. Borgin er sögð vera heimili guðsins Shiva og í henni er frægt musteri tileinkað honum sem kallast Gullna musterið. Varanasi er þekkt fyrir bálfarir sínar auk þess sem margir hindúar flytja til borgarinnar þegar þeir eldast í von um að það hjálpi þeim til að öðlast frelsun að deyja á þessum helga stað.

Aðrar helgar borgir eru t.d. Mathura þar sem guðinn Krishna á að hafa fæðst og bærinn Vrindavan sem er í fornum skógi þar sem hann á að hafa alist upp. Í Mathura eru um 5000 musteri tileinkuð guðinum og í Vrindavan eru þau nokkur hundruð.

Þetta kort sýnir helstu helgu staði hindúa, bæði borgir, ár og fjöll.