Áin Ganges

Hindúatrú / Tákn / Áin Ganges

Sækja pdf-skjal

 

Áin Ganges Áin Ganges, eða hin mikla móðir, er næst stærsta áin á Indlandsskaga, yfir 2000 km löng. Áin á upptök sín í vesturhluta Himalayafjalla og rennur í suðaustur átt yfir skagann með ósa í Bengalflóa sem er hafið austan við Indlandsskaga. Dalurinn í kringum ána er mjög frjósamur og margar merkar borgir hafa staðið við hana.

Ganges er háheilög í augum hindúa en þeir trúa því að ef þeir baði sig í fljótinu hreinsist þeir af syndum sínum og auðveldi þannig leið sína til frelsunar. Á hverjum degi fara um 60.000 manns niður að ánni til að þvo sér. Auk þess ferðast Indverjar langar leiðir til að dreifa ösku látinna ættinga sinn í ánna svo að sál þeirra megi losna undan endurfæðingu og ná sameiningu með alheimssálinni, Brahman.

Yfirleitt er talað um sjö helgar ár á Indlandi og þar er Ganges helgust. Hindúar líta á árnar sem kvenkyns og dýrka þær sem gyðjur. Gyðja Ganges heitir Ganga og er yfirleitt sýnd ríðandi á krókódíl. Í kaflanum Hvernig áin Ganges varð til getur þú lesið söguna um hvernig áin Ganges kom til jarðarinnar.