Swastika

Hindúatrú / Tákn / Swastika

Sækja pdf-skjal

 

Swastika Swastikan er fornt tákn sem fyrirfinnst víðsvegar um heiminn en er sérstaklega algengt í Indlandi og er mest notaða trúartákn hindúa. Swastika er kross með fjórum jafnlöngum örmum þar sem endi hvers arms beygist til hægri. Stundum eru punktar á milli hvers arms. Nafn þess kemur frá sanskrítar orðinu svasti sem merkir „er gott" og táknar því gæfu, heppni og velferð.

Talsverður merkingarmunur er á swastiku þar sem armarnir beygja til hægri og swastiku þar sem armarnir beygja til vinstri. Hægriarma-swastikan er tákn sólarinnar og guðsins Vishnu. Með snúningnum á arminum sýnir táknið göngu sólarinnar, eins og hún er í norðurhluta jarðar, frá austri til suðurs og frá suðri til vesturs. Vinstriarma-swastikan er hinsvegar tákn næturinnar, töfra og hinnar hræðilegu gyðju tímans Kali.

Algengast er að swastikan sé notuð sem happatákn og hún er notuð til að merkja byrjunina í bókhaldi, sett á hurðir og þröskulda, listaverk, fatnað og margt fleira. Hún er einnig mikilvægur hluti hátíðarskreytinga og meira að segja tertur eru skreyttar með henni.

Swastikan er einnig þekkt tákn annars staðar í heiminum. Vinstriarma-swastika táknaði t.d. hamar Þórs meðal norrænna manna á tímum víkinganna og hægriarma-swastikan var sólartákn meðal indíána Norður- og Mið-Ameríku.

Í valdatíð Hitlers í Þýskalandi tóku nasistar swastikuna og notuðu sem sitt tákn vegna þess að þeir töldu það vera arískt tákn sem táknaði yfirburði hins norræna ættstofns. Margir nasistaleiðtogar höfðu mikinn áhuga á dulrænum hlutum og það kann að vera að þeir hafi því verið heillaðir af tengslum swastikunnar við töfra.