Kýrin er heilagt dýr í hindúatrú og hefur hún verið tengd við mismunandi guði s.s. Shiva en fararskjóti hans er naut og Krishna sem var kúahirðir í æsku. Í hinum fornu helgibókum Rigveda var kýrin sögð vera Devi, Gyðjan sjálf. Kýrin var einnig snemma tengd við prestastéttina, brahman og margir hindúar líta svo á að það að drepa kú sé sambærilegt við að drepa mann af brahman-stétt. Af þessum ástæðum er því bannað að drepa kýr í flestum héröðum Indlands auk þess sem hindúar borða ekki nautakjöt.
Flestar fjölskyldur í sveitum eiga mjólkurkú sem þau koma fram við eins og hluta af fjölskyldunni. Kýrin er auðvitað mjög gagnleg skepna og gefur mikið af sér. Hún gefur mjólk, ysting og smjör. Saurinn er notaður sem orkugjafi víðs vegar um Indland og hlandið er t.d. notað við helgiathafnir auk þess sem sumir nota það til lækninga. Eftir að nautgripur er látinn eru bein, skinn og horn hans nýtt.