Yantra

Hindúatrú / Tákn / Yantra

Sækja pdf-skjal

 

Yantra Yantra er mynd sem táknar heimsmynd hindúa. Á sanskrít merkir orðið yantra tæki eða hljóðfæri en yantra getur í raun merkt tákn, vél eða hvað sem er svo framarlega sem það hefur skipulag.

Yantran sýnir ekki eingöngu hinn veraldlega heim og á henni eru ekki lönd og höf eða himinn og jörð heldur sýnir hún heiminn eins og hindúar trúa að hann sé í raun og veru, þar sem miðjan táknar guðdóminn en endarnir hið veraldlega.

Yöntrur geta hvort heldur verið í tvívídd og teiknaðar á pappír eða í þrívídd og þá gerðar úr steini eða málmum. Þær eru búnar til við mjög flókna helgiathöfn og er litið á þær sem helga gripi innblásna af Guði. Yantran er gerð úr mörgum formum, ferningum, þríhyrningum, hringum og blómamunstri sem allt leggst saman á skipulagðan hátt. Stjarna gerð úr tveimur þríhyrningum, þar sem annar snýr upp en hinn niður, táknar jafnvægið milli kynjanna. Þríhyrningurinn sem snýr upp táknar karlmennsku en hinn kvendóm.

Á yöntrunni er einnig oft hægt að finna mörg tákn s.s. swastiku sem á að veita tilbiðjendum lukku og auðlegð, lótus sem hjálpar til við íhugun og bindi-punkt sem táknar upphafsstað sköpunarinnar og eilífðina.

Við tilbeiðslu einbeita hindúar sér að miðpunkti yöntrunar sem er tákn Brahman en margir trúa því að það hjálpi þeim að sjá það sem er dulið mannlegum augum. Auk þess að vera notaðar við tilbeiðslu eru yöntrur teiknaðar á staði þar sem byggja á musteri. Þá er hægt að búa til sérstakar yöntrur til að að tákna stöðu plánetanna á ákveðnum degi og tíma.