Gyðingdómur / Tákn og helgir dómar / Tákn gyðingdóms
Davíðsstjarnan er tákn gyðingdómsins og stundum nefnd gyðingastjarnan. Stjarnan er mynduð úr tveim jafnhliða þríhyrningum svo það myndast sex armar eða svokallað hexagram. Táknið var fyrst notað á síðari hluta miðalda og telst því frekar nýlegt.
Ekki er vitað með vissu um hina upphaflegu merkingu táknsins en ýmsar kenningar hafa verið á lofti. Talið er að Davíð konungur hafi átt skjöld sem hann notaði í bardögum sínum og á honum hafi verið þessi sex arma stjarna. Einnig er talið að sex arma stjarna hafi verið undir sáttmálsörkinni í musterinu til forna. Önnur kenning er sú að stjarnan hafi fengið stöðu í sýnagógunni vegna þess að hún hafi sambærilegt gildi og sjö arma kertastjakinn sem er mun eldra tákn gyðingdómsins. Á honum er að finna þrjá arma hægra megin, þrjá vinstra megin og einn í miðjunni. Það sama gildir um stjörnuna að hún hefur sex arma og svo er miðjan. Miðað við þetta þá er vísunin í sköpunarsöguna því það tók Guð sex daga að skapa heiminn og svo hvíldi hann sig þann sjöunda.
Sjö arma kertastjakinn eða menorah er mun eldra tákn gyðingdómsins og hægt að rekja það alveg aftur til rómverska tímans. Kertastjakinn var mesti skrautgripurinn í hinu forna musteri Ísraelsmanna og er enn í dag tákn gyðinga þó svo að Davíðsstjarnan sé meira áberandi.
Ljónið er einnig táknrænt í gyðingdómi. Það hefur verið tákn ættbálks Júda. Í 1. Mósebók segir frá því þegar ættfaðirinn Jakob vísar til þess að Júda sonur hans sé ljónshvolpur, þegar hann blessar hann. Júda er einnig stundum nefndur „ljón“. Ljónið er tákn á skjaldarmerki Jerúsalem og skreytti eitt sinn þjóðfána Eþíópíu.