Gullvör - Kennsluleiðbeiningar

GULLVÖR Kennslubók í málfræði fyrir unglingastig Kennsluleiðbeiningar

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 2 Fyrri hluti Um bókina og notkun hennar Gullvör – gömul og ný Bók sú sem hér er fylgt úr hlaði er bæði gömul og ný. Hún kom fyrst út 1997 og hét þá Beygingafræði, en árið eftir, 1998, var hún endurútgefin undir því nafni sem hefur fylgt henni síðan. Hún heitir Gullvör og orðið beygist eins og vör: Gullvör – um Gullvör – frá Gullvör – til Gullvarar. Nafnið er hugsað út frá orðinu vör og vísar til tungumálsins sem bókin fjallar um og birtist á vörum þeirra sem það nota. Bókin hefur nú verið endurskoðuð og uppsetningu breytt. Ákveðið var að setja allt efnið í eina bók sem nemendur geta fengið við upphaf 8. bekkjar. Hún fylgir þeim til loka grunnskólans og efninu hefur verið raðað niður með tilliti til þess. Um það verður fjallað í köflunum sem fara hér á eftir. Lausnir við öllum verkefnum sem eru í bókinni er hægt að finna inni á vef Menntamálastofnunar. Málfræðikennsla í unglingadeildum Stundum má heyra skólamenn tala um það sem óyfirstíganlegt vandamál að málfræði sé svo leiðinleg að nemendur þjáist yfir því að þurfa að læra hana. Þetta er auðvitað firra. Ég kenndi málfræði í unglingadeildum grunnskólans í 25 ár og fátt hef ég unnið skemmtilegra. Stundum hitti ég þessa nemendur, áratugum eftir að leiðir okkar lágu saman í grunnskólanum, og þá rifjum við upp gamlar minningar eins og títt er. Oftar en ekki er þessum gömlu nemendum mínum eftirminnilegast úr íslenskunni hvað þeim fannst gaman í málfræði. Því að málfræðikennsla er eins og allt annað í lífinu. Það veldur hver á heldur. Ég vil sem langreyndur kennari miðla nokkrum heilræðum til þeirra sem kenna unglingum málfræði. 1. Kennið aldrei nema eitt í einu. Við erum að tala um unglinga sem eru að þroskast og þeir læra best þannig að taka fyrir eitt atriði í senn og ljúka því farsællega. Svolítið upphafnir af því að hafa lokið góðu verki snúa þeir sér að því næsta. Í verkefnunum í Gullvör eru orðin sem á að vinna með undirstrikuð. Ef nemendur eiga að greina stig lýsingarorða eiga þeir ekki að byrja á því að finna lýsingarorðin. Þeir eru að læra um stig lýsingarorða en ekki orðflokkagreiningu. Þetta á við um allar formdeildir málfræðinnar. 2. Þegar bekkurinn er búinn að ná sæmilega góðum tökum á verkefninu (einu í einu) er hægt að leggja mat á vinnuna, m.a. með því að leggja fyrir könnun, einfalda og auðskilda, sem allir ráða vel við, og gefa svo einkunn fyrir, segja svo við bekkinn: „Þið gerðuð þetta með sóma.“ Og nemendur fara heim og sýna einkunnina. „Sjáðu hvað ég fékk í málfræði!“ Nemendur hafa gaman af því sem þeir geta ráðið við. Þeim leiðist það sem er svo yfirgripsmikið og flókið að þeir geta ekki leyst það. 3. Kennari þarf að kunna vel það sem hann er að kenna og aldrei er lögð of mikil áhersla á góðan undirbúning. Á hitt skal bent að það er heldur ekkert athugavert við það að kennari segi við bekkinn: „Ég veit þetta bara því miður ekki.“ Svo má bæta við: „En ég skal fletta þessu upp fyrir þig.“ Hugmyndin um hinn óskeikula kennara sem allt veit og skilur er óraunhæf og ekki neinum til framdráttar. Kennari þarf að hafa gott safn af hinum ýmsu gögnum til að fletta upp vafaatriðum og það er gott fyrir nemendur að venjast því. Stundum er hægt að segja við þann sem spyr: „Þarna er bókin. Flettu þessu nú upp fyrir mig.“ 4. Hér að framan var talað um mikilvægi þess að kenna bara eitt í einu. Þegar kennt er um beygingarkerfi sagna í íslensku er sérdeilis mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Sagnir breytast eftir persónum. Fyrst þarf að læra um persónurnar (þær hafa reyndar komið fyrir í fornafnakaflanum) og sagnorðin breytast eftir því með hvaða persónu þau standa. Næst kemur tala, eintala og fleirtala, og þá breytist allt aftur eftir því hver talan er. Þetta er nú gott og blessað. En svo kemur bara það þriðja: hættir; persónuhættirnir eru þrír og nú breytist allt eftir því hver hátturinn er, sérstaklega hleypur allur pakkinn á milli fram-

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 3 söguháttar og viðtengingarháttar. Persónur, tölur og hættir, þetta er rétt komið inn fyrir eða tæplega það þegar yfir skellur það fjórða: tíð, nútíð eða þátíð, og enn fer allur pakkinn á flug. Kennarinn verður að skilja að móttakan á öllum þessum ósköpum er í heilunum á unglingum sem eru rétt að skríða yfir á formgerðarstigið sem sá svissneski Piaget útskýrði svo skemmtilega. Formdeildirnar, sem þau eru þarna að læra, ganga á víxl, þær skarast og virka hver inni í annarri. Til að þau ráði við þetta verður að fara gætilega, taka eitt í einu og helst að gera hlé á milli. Annars slær öllu út. Kennurum er bent á það getur verið mjög hjálplegt að hafa stuðningsbækur við höndina. Sérstaklega er bent á bók sem heitir Málvísir – handbók um málfræði eftir Ingu Rósu Þórðardóttur og Jóhannes B. Sigtryggsson. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/malvisir-handbok_um_malfraedi/ Þrír yfirflokkar orða Í bókinni eru helstu grunnþættir íslenskrar málfræði settir fram með hefðbundnu sniði. Á það skal bent að tungumálið hefur haldist óbreytt lengi og mikil áhersla hefur gegnum tíðina verið lögð á það að halda því óbreyttu eftir því sem hægt er. Ekki hefur enn verið hvikað frá þeirri stefnu. Málfræðin er því hina sama og verið hefur og aðferðirnar við að kenna hana hljóta að taka mið af því. Orðflokkarnir eru samkvæmt hefðinni taldir vera ellefu. Það eru fimm flokkar fallorða: greinir, nafnorð, lýsingarorð, töluorð og fornöfn; sagnorð, sem ekki skiptast í undirflokka og óbeygjanleg orð: forsetningar, atviksorð, samtengingar, upphrópanir og nafnháttarmerki. Venja er að tala um að orðin skiptust í þrjá yfir flokka.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 4 Fallorð (2., 3. og 4. kafli) Á eftir inngangskaflanum koma þrír kaflar um fallorð. Þar hefur markvisst verið reynt að skipta efninu niður eftir þyngd. Kafli 2, Fallorð I, er einkum ætlaður 8. bekk og á að þjóna þeim sem eru að byrja að nema málfræði. Þar er tekið á nokkrum grunnatriðum fræðanna og reynt var að gera þá umfjöllun einfalda og skýra. Í Fallorð II, 3. kafla, sem er ætlaður 9. bekk, eru sett fram greiningaratriði fallorða og leiðbeint um það hvernig skuli greina fallorðin eftir beygingarfræðilegum einkennum þeirra. Þrjú atriði eru greind við greini og fornöfn, einnig við töluorð þar sem það er hægt, fimm atriði eru greind við nafnorð og sex við lýsingarorð en einu þeirra, sem heitir staða lýsingarorða, er frestað þar til í 4. kafla sem ber heitið Fallorð III. Reynslan er sú að staða lýsingarorða vill vefjast fyrir nemendum. Hér er því gerð tillaga um það að því verði frestað þar til nemendur hafa bætt við sig einu ári á þroskaleiðinni eða í sumum tilvikum sleppt. Það verður þó alltaf að vera ákvörðunaratriði hverju sinni og háð mati kennarans. Á bls. 23–24 er sagt frá beygingum lýsingarorða. Vert er að benda á að skoða betur dæmin um veika og sterka beygingu og skoða lýsingarorðin þar ef sú staðreynd vefst fyrir nemendum að öl lo. geti beygst bæði veikt og sterkt. Kafli 4, Fallorð III, tekur á ýmsum þyngri atriðum. Þar er umfjöllun um óreglulega beygingu nafnorða, rætt um kenniföll og uppflettimyndir nafnorða og lýsingarorða, beygingu nokkurra fornafna, mun á ákveðnum greini og ábendingarfornafni og sitthvað fleira í þeim dúr. Kaflinn er ætlaður 10. bekk og gert er ráð fyrir að þá séu nemendur í stakk búnir til að ná meiri yfirsýn yfir málfræðina og kynna sér til hlítar hinar erfiðari hliðar hennar. Á það skal bent, að víða í 4. kafla og reyndar á fleiri stöðum í bókinni eru nemendur hvattir til að rifja upp ákveðna kafla framar í bókinni. Mjög mikilvægt er að taka þær ábendingar alvarlega. Yfirferðin í 10. bekk er ekki síst hugsuð sem upprifjun og endurtekning á því sem farið var yfir í 3. kafla árið áður. Þegar kemur í 10. bekk hafa nemendur bætt við sig einu ári á lífsgöngunni og eiga að geta séð námsefnið frá árinu áður í nýju og skýrara ljósi. Í kaflanum um uppflettimyndir nafnorða á bls. 29 er verið að skoða beygingarendingar orða þegar leitað er að nafnorðum í orðabók. Vakin er athygli á því að í sumum sterkum karlkynsorðum getur verið óvissa um þgf. et. Þar kemur stundum -i á eftir orðinu, stundum ekki. Í sumum tilvikum er val um þetta. Sagnorð (5., 6. og 7. kafli) Í 5. kafla, sem heitir Sagnorð I, er fjallað um grunnatriði sagnorðabeygingarinnar. Sá kafli er ætlaður 8. bekk. Þar eru tekin fyrir einföldustu atriðin og reynt að gera þau auðskilin og aðgengileg. Nemendur 8. bekkjar eiga að ljúka við þennan kafla með þá vissu að þeir kunni innihald hans í þaula. Í 6. kafla, sem heitir Sagnorð II og er ætlaður 9. bekk, er farið yfir öll helstu greiningaratriði sagnorða. Í 7. kafla, sem kallast Sagnorð III, eru svo tekin fyrir ýmis þyngri og erfiðari atriði sem líklegt er talið að vefjist frekar fyrir yngri nemendum. Þar má nefna þolmynd sagna, sem var frestað í 6. kafla, blandaða beygingu sagna sem gengur út á núþálegar sagnir og ri-sagnir, ópersónulegar sagnir, orsakarsagnir og að síðustu afleiddar myndir sagna, sem heppilegt er að skoða til að bæta kunnáttu í stafsetningu (sjá Kennimyndirnar hjálpa bls. 59). Hvað 7. kaflann varðar þá á þar það sama við og sagt var um 4. kaflann og fallorðin. Í 7. kafla er verið að kenna erfiðustu þættina í greiningu sagnorða og ýmislegt fleira sem hefur reynst unglingunum erfitt. Sumu af því má sleppa ef það reynist hinum ungu heilum ofviða. Ítrekað skal hér mikilvægi þess að rifja vel upp það sem kennt var árið áður.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 5 Full greining Það sem kallað er full greining, þegar öll orð í textanum eru greind út frá beygingarlegum einkennum, er tekið fyrir í 8. kafla. Þar er greiningartexti, heil saga sem hægt er að greina til hlítar. Auðvitað þarf ekki að greina allan textann. Hann er langur og best er að skipta honum niður, taka aðeins lítinn hluta í einu. Bent skal á í því sambandi að þar eru ekki gerðar kröfur til þess að smáorð séu greind í undirflokka. Þessi kafli er hafður á undan kaflanum um óbeygjanleg orð. Eftir að 7. kafla lýkur eiga nemendur að geta fullgreint fallorð og sagnorð. Óbeygjanleg orð þurfa nemendur auðvitað að læra einhvern tíma, en gefinn er sá möguleiki að fullgreina verkefni 8 þannig að þau óbeygjanlegu séu einfaldlega greind sem óbeygjanleg orð, skammstafað ób. Það þarf ekki að gera þetta allt í einu. Röð kaflanna Eins og komið hefur fram hér að ofan er ljóst að kaflarnir verða ekki teknir í röð þegar bókin er kennd. Gert er ráð fyrir því að í 8. bekk sé farið yfir kafla 2 og 5. Kaflar 3, 4, 6 og 7 bíða þar til í 9. og 10. bekk. Sama á við um aðra kafla í bókinni. Alls ekki er gert ráð fyrir að þeir séu teknir og kenndir hver á eftir öðrum í númeraröð. Þetta verður kennari að skipuleggja í upphafi skólaárs. Sá sem hér skrifar hefði getað hugsað sér að kenna 10. kafla, um hljóðbreytingar, strax í 8. bekk og hugsanlega líka 14. kafla, Sitthvað um orðin. Hafa ber í huga að málfræði er yfirleitt dálítið þung fyrir 8. bekk og má sem best spara hana þar til einu eða tveimur árum seinna. Eitt er rétt að skoða þegar kennslan er skipulögð. Vel er hægt að kenna sama kaflann tvö ár í röð. Þá gæti fyrri yfirferðin verið lausleg, hugsanlega tekinn hluti af kaflanum, og árið eftir er það rifjað upp og haldið áfram með efnið. Þetta gæti til dæmis átt við um 9. kafla, sem fjallar um smáorðin. Vel er hægt að kenna 8. bekk að þekkja nafnháttarmerki og upphrópanir og vinna tilheyrandi verkefni. Næsta ár má taka fyrir erfiðari hluti. Samtengingar og forsetningar eru snúnar fyrir þennan aldurshóp, best að skoða það efni í 10. bekk. Það skapar heppilegan sveigjanleika í yfirferðinni að hafa alla málfræðina í einni bók. Kennari getur þá gripið það sem hann kýs hverju sinni miðað við þann hóp sem hann er að kenna. Kafli um hljóðfræði, var upphaflega settur inn sem valmöguleiki ef kennari óskaði þess. Þessum kafla var sleppt í endanlegri útgáfu en hann er birtur hér aftar í kennsluleiðbeiningunum. Þar er farið yfir helstu þætti hljóðfræðinnar. Þessum kafla geta kennarar auðvitað sem best sleppt. Í þeim tilvikum, hins vegar, þar sem kennari hefur lokið yfirferð í vinnusömum bekk og enn er eftir eitthvað af skólaárinu, er tilvalið að kenna nemendum undirstöðuatriði hljóðfræðinnar. Það kemur þeim til góða í framhaldsskólanum.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 6 Síðari hluti Ýmsar hliðar málfræðinnar 1. Hvað er átt við þegar talað er um málfræði? Ekki er óalgengt að málfræðinni sé skipt niður í eftirtalda flokka: 1.1 Merkingarfræði Í merkingarfræði er m.a. leitast við að gera grein fyrir ýmsum þáttum í merkingu máls og merkingarbreytingum í samræmi við venjur málsamfélagsins á hverjum tíma. Verksvið merkingarfræðinnar tengist náið næsta þætti málfræðinnar sem er orðmyndunarfræðin. Helstu hugtök, sem koma við sögu í merkingarfræði, eru málshættir, orðtök, hlutstæð og óhlutstæð orð, huglægur og hlutlægur texti, tilfinningaorð, víðtæk og sértæk orð, samheiti, andheiti, erfðaorð, nýyrði og tökuorð. 1.2 Orðmyndunarfræði Hér er meðal annars fengist við nýyrðasmíð, tökuorð og aðlögun þeirra að málinu, slangur og tilurð þess og áhrif á tungumálið, og annað sem við kemur breytingum á orðaforðanum. Þá fjallar orðmyndunarfræðin einnig um sögu orðanna og þá þróun sem hefur átt sér stað í málinu; orð hafa fallið brott eða fengið nýja merkingu, önnur hafa breyst í tímans rás, og veldur það því að orðaforði nútímamáls er allmjög frábrugðinn því sem hann var við upphaf Íslands byggðar. 1.3 Beygingarfræði Í beygingarfræðinni er einkum fjallað um beygingarkerfi íslenskrar tungu. Íslenska er beygingamál og beygingakerfið er eitt af helstu einkennum hennar. Við sem tölum íslensku erum stolt af þessu beygingakerfi og við erum staðráðin í að viðhalda því óbreyttu eftir því sem mögulegt er. Beygingarkerfið nær einkum til fallorða og sagnorða. Helstu beygingarformdeildir (beygingarþættir) eru: kyn, tala, fall – þessar formdeildir eru sameiginlegar öllum fallorðum ákveðni – formdeild sem tilheyrir nafnorðum og lýsingarorðum stig – tilheyrir lýsingarorðum (og einstaka atviksorðum) persóna, tala, háttur, tíð – þessar formdeildir tilheyra sagnorðum Auk formdeildanna (sem hér voru feitletraðar) er venja að greina ýmis fleiri atriði við fallorð og sagnorð. Þar má nefna stöðu lýsingarorða og myndir sagna sem hvorugt telst þó til beygingarformdeilda. Aðrir orðflokkar, sem oft kallast einu nafni óbeygjanleg orð (atviksorð, samtengingar, forsetningar, nafnháttarmerki, upphrópanir), hafa ekki neinar slíkar formdeildir fyrir utan það að sum atviksorð stigbreytast líkt og lýsingarorð. Hér á eftir (sjá 4) verður fjallað nánar um beygingarfræði og þá hyggjum við sérstaklega að þessum formdeildum og öðrum svokölluðum greiningaratriðum orða.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 7 1 Fromkin & Rodman 1998:14–16. 1.4 Hljóðfræði Hljóðfræði snýst meðal annars um flokkun málhljóða og getur til dæmis verið afar gagnleg þegar fjallað er um framburð og framsögn. Til að læra um staðbundinn framburð, svo dæmi sé tekið, er nauðsynlegt að kunna nokkur undirstöðuatriði í hljóðfræði. Staðbundinn framburður er það kallað þegar málnotendur bera orð fram á mismunandi hátt eftir því hvar á landinu þeir eru aldir upp. Í flestum tilvikum er ógerlegt að lýsa þessum framburðareinkennum með því að tala um bókstafi eða orð. Tungumálið er miklu flóknara en það. Svo að hægt sé að gera grein fyrir hinum ýmsu tilbrigðum tungunnar verðum við að kljúfa hvern bókstaf niður í smærri einingar. Þessar einingar köllum við málhljóð. Um þau fjallar hljóðfræðin. 1.5 Setningafræði Setningafræðin hefur meðal annars það hlutverk að lýsa gerð setninga og gera grein fyrir og skýra röð og tengsl hinna ýmsu liða innan þeirra. Orðin raðast saman í setningar og setningarnar í málsgreinar. Setningafræði er gagnleg þegar fjallað er um stíl enda skarast setningafræðin við stílfræðina. 1.6 Stílfræði Í stílfræðinni er venjulega fengist við ritaðan texta. Þar reynir á það hvort við erum sæmilega heima í þeim hugtökum sem við höfum tileinkað okkur, t.d. í setningafræðinni, enda skarast þessar tvær greinar mjög eins og áður kom fram. Til að fjalla um stíl notum við auk þess hugtök eins og hlutlægur/huglægur, skýr/óskýr, gagnorður/fáorður/margorður, flatur/myndauðugur o.fl. Þar fjöllum við um sjónarhorn höfundarins, tíma, umhverfi og persónulýsingar og þá má kannski segja að umræðan sé farin að fjarlægjast nokkuð það sem lagt var upp með, sem var málfræði. En allt tengist þetta saman því að stíllinn samanstendur af orðunum og túlkar merkingu þeirra og orðmyndunin og orðavalið hefur hvort tveggja vissulega sín áhrif á stílinn. Beyging orðanna getur líka haft áhrif á stílinn, hljóðfræðin gægist þar inn, t.d. í formi mismunandi framburðar eftir landshlutum, sem vel gæti haft áhrif á stílinn, og lykill að umræðunni um stílinn liggur í hugtökum setningafræðinnar. 2. Málfræði – lýsandi málfræði – forskriftarmálfræði Sérhvert tungumál á sér sitt málkerfi og fjölda flókinna reglna sem stýra því. Í heild myndar þetta málfræði viðkomandi máls. Þessa málfræði kunna þeir sem eiga viðkomandi mál að móðurmáli, og í mörgum tilfellum fjölmargir aðrir sem lært hafa málið sem annað mál. Málfræði allra helstu tungumála heimsins hefur verið lýst og um þau fjallað í ótölulegum fjölda málfræðibóka. En veljamámismunandi sjónarhorn til að lýsa málfræði eða málkerfi tungumála. Tvö algengustu sjónarhornin eru annars vegar það sem kallað er lýsandi málfræði (e. descriptive grammars) og hins vegar svokölluð forskriftarmálfræði (e. prescriptive grammars).¹ Ef við skoðum tungumál okkar hlutlaust, athugum einingar þess hverja fyrir sig og skoðum reglurnar sem skapast hafa um notkun þess eru við að fást við lýsandi málfræði. Málfræðibók, sem væri samin samkvæmt þessu sjónarmiði, myndi lýsa fyrir okkur sem best, og á sem hlutlausastan hátt, hvernig málnotendur tala í raun og veru, en ekki veita okkur leiðbeiningar t.d. um hvað teldist vera rétt eða gott mál. Hér á landi hafa málfræðibækur af þessu tagi helst verið samdar sem fræðibækur eða kennslubækur handa háskólanemum. Forskriftarmálfræði gefur hins vegar dálítið einfaldaðri mynd af málkerfinu, þar sem reynt hefur verið að velja það sem er reglulegast eða elst eða það sem af öðrum ástæðum er talið heppilegt að nota, og málnotendur hvattir til að fara eftir þessu kerfi – með öðrum orðum: reglurnar eru látnar ráða því að nokkru leyti hvernig

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 8 2 Fromkin & Rodman 1998:17–18. 3 Aðalnámskrá grunnskóla 2013:100. við tölum. Málfræðibók samin út frá þessu sjónarhorni myndi sem sagt horfa fram hjá ýmiss konar óreglu í málinu og gefa einfaldari mynd af því, og í vissum tilfellum væri bent á hvað teldist vera rétt eða rangt mál. Hér á landi hafa flestar málfræðibækur fyrir grunn- og framhaldsskóla verið meira eða minna mótaðar af þessu viðhorfi, og á það að talsverðu leyti einnig við um málfræðikennslubækur í öðrum löndum. Alla tíð hafa verið til menn sem hafa litið svo á að til væri eitthvað sem héti rétt mál – og þar með er skapaður grundvöllur fyrir því að tala líka um rangt mál. Forskriftarmálfræðin fæst við það að segja fyrir um það hvernig eigi að tala og skrifa, þ.e. hvað sé rétt mál. Það gerir hin lýsandi málfræði ekki, þar er engin afstaða tekin heldur aðeins sett fram hlutlaus lýsing á því hvernig málið er notað. Þegar Íslendingar tóku sig til og hreinsuðu tungumál sitt um og upp úr miðri 19. öld var það gert á forsendum forskriftarmálfræðinnar. Nokkrir fróðir menn settu fram kenningu eða kenningar um það hvernig málið skyldi vera og á þeim kenningum var byggt þegar skólanemum var kennt að tala og skrifa rétt. Í Málfræði Björns Guðfinnssonar má lesa eftirfarandi: Athgr. Oft er ranglega farið með 1. p. ft. nt. og þt. í miðmynd. Er endingin látin vera -ustum í stað -umst: klæddustum í stað klæddumst, hittustum í stað hittumst o. s. frv. Þetta ber eindregið að forðast (Björn Guðfinnsson 1967:72). Þetta er gott dæmi um forskriftarmálfræði. Björn hefur mjög ákveðna skoðun á því hvað sé viðunandi málfar og hvað ekki. Þetta viðhorf hafa sumir skólamenn viljað fordæma en gleyma þá því að við sem þjóð höfum ákveðið að halda tungunni sem mest óbreyttri. Gaman væri að vita hvernig á að gera það ef ekki eru gefnar leiðbeiningar um það hvað er rétt og hvað rangt. Sumir tala líka um skólamálfræði sem hefur það hlutverk að skýra eiginleika tungumálsins fyrir þeim sem ekki kunna það fyrir. Til að læra nýtt mál vel er í flestum tilvikum óhjákvæmilegt að læra málfræði þess.² 3. Er gagn að því að kunna málfræði? Svo undarlegt sem það er þá hafa menn gegnum tíðina deilt um það hvort málfræðikennsla skilaði einhverjum árangri og hvort það hefði yfirleitt nokkuð upp á sig að vera að kenna málfræði. Hér á eftir verður reynt að benda á nokkur atriði sem þessu tengjast og færa rök fyrir því að málfræðikennsla sé af hins góða fremur en hitt. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 segir meðal annars um málfræði: Færni í notkun tungumál, bæði móðurmáls og annarra mála, er grundvallaratriði í mannlegum samskiptum. Markmið málfræðikennslu í grunnskóla er að gera nemendur viðræðuhæfa um mál og málfar, gera þá að betri málnotendum og glæða áhuga þeirra á móðurmálinu. Síðar segir: Málfræðihugtök koma að gagni þegar rætt er ummál og málnotkun. Þau eru nauðsynleg til þess að hafa full not af orðabókum, handbókum og öðrum gagnabrunnum um mál.³ Eins og hér kemur fram verða nemendur í skólum meðal annars að vera viðræðuhæfir um tungumálið. Til þess þurfa þeir að þekkja hugtakakerfi þess og það læra þeir ekki ánmálfræðikennslu. Stundum er því haldið fram að málfræðikennsla sé gagnslaus og skili engu nema leiðindum til nemenda, meðal annars vegna þess að þeir kunni fyrir allar þessar reglur sem verið sé að kenna þeim. Grunnskólanemandi, sem orðinn er 13–14 ára gamall og hefur til að bera sæmilega málgreind kann að nota allar beygingarformdeildir tungumálsins og notar þær hárrétt. Hvers vegna þarf þá að vera að stagast á þessu við hann og láta hann læra fræði sem hann kann fyrir? Þarna er auðvitað um að ræða allhastarlegan misskilning eins og stundum gerist í skólaumræðunni, því miður. Það er allt annað að læra tungumál á máltökuskeiðinu en eftir að því lýkur. Þegar börn eru á máltökuskeiðinu rennur tungumálið inn í vitund þeirra að því er virðist fyrirhafnarlaust og beygingarkerfið sest

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 9 4 Höskuldur Þráinsson 1998:153 5 Guðrún Kvaran 2005:218-219 þar að án þess að einstaklingurinn hafi hugmynd um eitt einasta hugtak í málfræði. Þegar máltökuskeiðinu lýkur, við upphaf unglingsára, höfum við hins vegar glatað hæfileikanum til að nema tungumál á þennan þægilega máta. Þeir sem læra tungumál í framhaldsskólum verða því að notast við aðrar aðferðir. Þá kemur til það sem nefnt var hér á undan og kallast skólamálfræði. Hugtök beygingarkerfisins eru notuð til að útskýra hvernig nýja málið virkar og eftir þessu kerfi lærum við að tala það og skrifa. Þetta er ein af meginástæðum þess að talið er nauðsynlegt fyrir námsmenn að kunna hugtakakerfi málfræðinnar. Flest þau tungumál, semvið lærum, eru lík íslensku og formdeildirnar eru í aðalatriðum þær sömu. Við þurfum bara að þekkja þessar formdeildir og kunna að beita þeim og svo yfirfærum við þær á það tungumál sem við erum að læra. Sumir hafa sagt sem svo að ef tungumálakennarar vilji að unglingar þekki einhver málfræðihugtök þá geti þeir kennt þeim þau fræði sjálfir. En það er auðvitað langskynsamlegast, eins og Höskuldur Þráinsson hefur bent á, að börn læri um þessi hugtök á því tungumáli sem þau kunna fyrir. Þá kunna þau hugtökin og eru fær í að beita þeim og þurfa ekki annað en að læra hvað þau heita til að geta síðan yfirfært þau á næsta tungumál.⁴ Stundum er einnig nefnd til sögunnar önnur ástæða fyrir því að gott sé að kunna málfræði. Nemendur í skólum, sem eru að fást við að læra að semja ritgerð, svo dæmi sé tekið, verða að geta rætt um tungumálið. Hugtök eins og aðalsetning og aukasetning, frumlag, andlag, nefnifall, aukaföll, nútíð, þátíð, hættir sagna, allt eru þetta hugtök sem í miðju kafi eru komin inn í umræðuna og sá sem ekki veit hvað þetta er – hvað verður um hann í skólakerfinu? Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig kenna ætti um ýmsar hliðar ritgerðarsmíðanna ef nemendur þekktu ekki muninn á fallorðum og sagnorðum, eða kæmu af fjöllum þegar talað er um fallstjórn eða tíðir sagna. Sú kennsla yrði að sumu leyti eins og að útskýra liti fyrir blindummanni. Ég er ekki í minnsta vafa um að kunnátta í málfræði er hverjum manni gagnleg. Fleiri rök mætti tína til um gagnsemi málfræðikunnáttu, en hér verður látið staðar numið. 4. Þættir beygingarfræðinnar Löng hefð er fyrir því að skipta orðum niður í flokka eftir sameiginlegum einkennum þeirra. Eins og fyrr var nefnt má skipta öllum orðum í þrjár aðalfylkingar: fallorð, sagnorð og smáorð eða óbeygjanleg orð. Hér á eftir verður fjallað um þessar fylkingar, hverja fyrir sig, og byrjað á fallorðunum. Fallorðaflokkarnir eru: greinir, nafnorð, lýsingarorð, töluorð og fornöfn. 4.1 Greinir. Greinirinn er líklega á mörkum þess að geta kallast orðflokkur. Langoftast er honum skeytt aftan á naforðin. En greinir stendur stundum einn og sér í setningunni og hann hefur sín einkenni, meðal annars beygingu eftir kyni, tölu og falli. Um greininn verður nánar fjallað síðar (sjá 4.3). 4.2 Nafnorð Nafnorð hafa þrenns konar málfræðileg einkenni: setningarleg, þ.e. þau bæta við sig greini; merkingarleg, þau eru heiti einhvers; og beygingarleg, þau beygjast í kyni, tölu og föllum eins og önnur fallorð.⁵ Það einkenni nafnorða, sem auðveldast er að nota til að þekkja þau fljótt og vel, er að þau geta bætt við sig greini; hundur, hundur-inn; tík, tík-in; auga, auga-ð.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 10 4.2.1 Fallbeyging Nafnorð í íslensku hafa fjögur föll: eintala: fleirtala: nefnifall hundur hundar þolfall hund hunda þágufall hundi hundum eignarfall hunds hunda 4.2.2 Kenniföll Kenniföll heita þau föll sem gefin eru upp í orðabókum og gefa mynd af því hvernig orðið beygist. Kenniföllin eru: nf.et., ef.et. og nf.ft. (sbr. skáletruðu orðin hér að ofan). Í orðabókinni er nefnifallið gefið upp (það er kallað uppflettimynd orðsins) og eftir það endingar síðari kennifallanna tveggja. Þar stendur skv. þessu ef við flettum upp á orðinu hundur: hundur -s, -ar. Þar á eftir stendur k sem táknar kyn orðsins, karlkyn. 4.2.3 Um kennsluna Mikilvægt er að kenna unglingum um kenniföllin. Um þau er fjallað í 4. kafla sem, heitir Fallorð III, og er ætlaður 10. bekk. Þó er ekkert sem bannar að þetta sé tekið fyrir fyrr ef þannig stendur á. Það opnar nemendum leið inn í orðabókina og skýrir fyrir þeim tákn sem þar eru notuð. Rétt er að leggja áherslu á að til þess að kenna þetta efni í grunnskólanum er nauðsynlegt að velja góð dæmi. Dæmin verða að vera lýsandi og skýr. Til að byrja með er rétt að nota orð sem hafa venjulegar fleirtöluendingar: gaur, -s, -ar; gripur, -s, -ir; krókur, -s, -ar; drottning, -ar, -ar; sól, -ar, -ir; kind, -ar, -ur Sum orð hafa enga fleirtöluendingu. Það á til dæmis við um mörg hvorugkynsorð. Í stað upplýsinga um fleirtöluendinguna kemur þá strik í orðabókinni: blóm, -s, –; hreiður, -urs, – Og fleirtalan getur verið frábrugðin eintölunni að ýmsu leyti eins og sést í orðabókinni: bók, -ar, bækur Hér er allt orðið gefið upp til að sýna að stofnsérhljóðið breytist við það að orðið er sett í fleirtölu. Þegar þetta hefur verið æft og allir hafa skilið hvernig kenniföll eru fundin og hvað þau sýna getum við byrjað að benda á undantekningar eins og óreglulega beygingu, t.d. kýr, ær, móðir, faðir, bróðir, vetur, hönd, o.s.frv. Aldrei verður lögð of mikil áhersla á það að kenna fyrst vel og rækilega grunnþættina og æfa þá með skýrum og undantekningalausum verkefnum uns nemendur hafa náð góðri þjálfun í þeim. Þá, og ekki fyrr, er hægt að leyfa sér að víkja að flóknari þáttum.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 11 4.2.4 Tala Nafnorð hafa tvær tölur, eintölu og fleirtölu. Hér er um svo einfalt efni að ræða að ekki er þörf á að leggja sérstaka áherslu á það í kennslunni. Öllum, sem tala tungumálið, er ljóst hvaða munur er á eintölu og fleirtölu. Nemendur kunna þetta fyrir, þurfa bara að vita hvað það heitir. 4.2.5 Kyn Kyn nafnorða í íslensku eru þrjú, karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Dæmi: maður, kona, barn Svipaða sögu má segja um kynið og áður var minnst á hvað varðar töluna. Þetta er einfalt og vefst yfirleitt alls ekki fyrir neinum. 4.2.6 Sterk og veik beyging Nafnorðum má skipta í tvo flokka eftir því hvort þau hafa sterka eða veika beygingu. Ef orð beygist sterkt endar það í eignarfalli eintölu á samhljóði og endingin er þá -s, -ar eða -ur. Orð með veika beygingu enda á sérhljóði í öllum föllum eintölu. Dæmi um veika og sterka beygingu: sterk beyging: hestur bók barn hest bók barn hesti bók barni hest-s bók-ar barn-s veik beyging: nemand-i kon-a aug-a nemand-a kon-u aug-a nemand-a kon-u aug-a nemand-a kon-u aug-a Varasöm eru orð eins og heiði og belti. Þar sést að ávallt verður að gæta að eignarfallinu: heiði belti heiði belti heiði belti heið-ar belti-s Bæði orðin enda á sérhljóða í öllum föllum nema því síðasta. Þau tilheyra því sterkri beygingu. Ágætt er að kenna um sterka og veika beygingu í tengslum við kenniföllin. Þó skal þess gætt vandlega að kenna annað fyrst og hitt á eftir. Það getur skapaðmikil vandamál á unglingastiginu að kenna tvo hluti um leið, þó svo að hvor um sig sé einfaldur. Unga fólkið verður að fá svigrúm til að meðtaka þessi nýju fræði á þeim hraða sem því hentar.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 12 6 Guðrún Kvaran 2005:204 4.3 Greinir Eins og fyrr sagði geta nafnorð bætt við sig greini. Þetta er sá þáttur sem greinir þau frá öðrum orðum. Í málfræðigreiningu í skólabókum eru nemendur oft látnir greina hvort nafnorð hefur viðskeyttan greini eða ekki. Þetta er auðvelt og þarfnast ekki nánari útskýringa eða kennslu: maður / maður-inn; kona / kona-n; barn / barn-ið Hér er hins vegar rétt að staldra lítillega við hugtakið ákveðni. Ákveðni er stundum talin sérstök formdeild í íslensku.⁶ Það sem ákvarðar ákveðni nafnorða er þá hvort þau hafa ákveðinn greini eða ekki. Ákveðni lýsingarorða er heldur flóknara mál og verður rætt hér á eftir. Ekki er endilega ætlast til þess að hugtakið ákveðni sé rætt við nemendur grunnskólans. 4.4 Lýsingarorð Lýsingarorð hafa að mestu leyti sömu beygingarþætti og nafnorð. Formdeildirnar kyn, tala og fall eru eins og í nafnorðunum og því óþarfi að endurtaka það sem sagt hefur verið um þá þætti hér að framan. Þegar kemur að því hvort um er að ræða sterka eða veika beygingu er annað uppi á teningnum. 4.4.1 Sterk og veik beyging lýsingarorða Reglurnar um sterka og veika beygingu lýsingarorða eru í grunnatriðum þær sömu og fyrir nafnorð. Þannig enda orð í veikri beygingu í öllum föllum eintölu á sérhljóði, aukaföllin þrjú eru öll eins. Og í sterkri beygingu enda orðin á samhljóði í eignarfalli eintölu. Veik beyging: stóri maðurinn góða konan þæga barnið stóra manninn góðu konuna þæga barnið stóra manninum góðu konunni þæga barninu stóra mannsins góðu konunnar þæga barnsins Sterk beyging: stór maður góð kona þægt barn stóran mann góða konu þægt barn stórum manni góðri konu þægu barni stórs manns góðrar konu þægs barns Munurinn er sá að öfugt við nafnorð, þar sem kyn er óbreytanlegur þáttur fyrir hvert orð, þá geta öll lýsingarorð (í frumstigi og efsta stigi) haft sterka eða veika beygingu eftir setningarlegri stöðu. Þegar nánar er að gætt kemur í ljós að í fyrra tilvikinu, þar sem lýsingarorðin beygjast veikt, er greinir áfastur við nafnorðin sem fylgja þeim. Til að breyta beygingu lýsingarorðanna úr veikri í sterka tökum við greininn aftan af nafnorðinu sem lýsingarorðið stendur með: fljóti hlaupar-inn > fljótur hlaupari Þetta mætti orða þannig að lýsingarorð er ákveðið ef það stendur í veikri beygingu en ekki þegar það beygist sterkt. Ekki er þó nein þörf á að láta nemendur grunnskólans læra um ákveðni lýsingarorða. Ef til vill má benda þeim á hvað gerist þegar greinirinn fellur aftan af nafnorðinu en gæta verður þess að slíkar útskýringar verði ekki of flóknar.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 13 4.4.2 Stig lýsingarorða Lýsingarorð hafa þrjú stig, frumstig, miðstig og efsta stig. Dæmi: langur – lengri – lengstur; þungur – þyngri – þyngstur Hér er ekki þörf á miklum útskýringum. Þessi formdeild er einföld og skýrir sig að mestu sjálf. Nemendur grunnskólans ná þessu atriði yfirleitt auðveldlega. Hér er rétt að benda á að sum atviksorð stigbreytast á sama hátt og lýsingarorð. Dæmi: nærri – nær – næst; lengi – lengur – lengst; snemma – fyrr – fyrst 4.4.3 Lýsingarorð eða atviksorð Oft er hægt að þekkja hvort um er að ræða lýsingarorð eða atviksorð með því að breyta um tölu á frumlagi setningarinnar. Ef orðið breytist er það lýsingarorð: barnið las hátt – börnin lásu hátt (ao.) fjallið er hátt – fjöllin eru há (lo.) Ef ekki er ljóst hvort um er að ræða lýsingarorð eða atviksorð prófa sumir að máta orðin gott og vel við það orð sem þeir eru í vafa um: Ef orðið gott fellur inn í setninguna er oftast umað ræða lýsingarorðen ef orðið vel fellur inn í þá er oftast umað ræða atviksorð: Barnið las hátt *barnið las gott barnið las vel Í setningunni „barnið las hátt“ er hátt atviksorð. Hér er stjarna (*) höfð á undan dæminu semverður málfræðilega rangt. – Þetta höfum við heyrt að sé stundum kallað „gott og vel reglan“. 4.5 Sagnorð Beygingarformdeildir sagnorða eru: persóna, tala, háttur og tíð. Auk þess er venja að greina tvö atriði til viðbótar. Þau heita mynd og beyging (sterk, veik,blönduð). Verður nú hugað að hverjum þessara þátta fyrir sig. 4.5.1 Persóna sagna Persónur sagna eru þrjár og þær tengjast persónufornöfnunum. Ekki er hægt að fjalla um persónur sagna án þess að nota fornöfnin: fyrsta persóna (ég, ft. við), önnur persóna (þú, ft. þið) og þriðja persóna, sem tekur þá yfir allt sem ekki er annað hvort fyrsta eða önnur persóna. Sagnorðið breytist eftir því við hvaða persónu er átt: ég fer ég skrifa þú ferð þú skrifar hann (hún, það) fer hann (hún, það) skrifar Oftast eru tvær persónurnar eins í eintölu, ýmist

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 14 1. og 3. (sjá fyrra dæmið) eða 2. og 3. (sjá síðara dæmið). Einstaka sagnir hafa mismunandi beygingarmyndir fyrir allar persónur í eintölu: ég vil ég þvæ ég sé þú vilt þú þværð þú sérð hann (hún, það) vill hann þvær hann sér 4.5.2 Tala sagnorða Sagnorð hafa tvær tölur eins og fallorðin, eintölu og fleirtölu. Eins og dæmin sýndu með persónurnar breytast sagnorðin eftir því hver talan er. Bætum nú við dæmin sem sýnd voru hér að ofan: eintala: ég fer ég skrifa þú ferð þú skrifar hann (hún, það) fer hann skrifar fleirtala: við förum við skrifum þið farið þið skrifið þeir (þær, þau) fara þeir skrifa Persóna og tala sagnorða eru formdeildir sem ekki þarfnast mikilla útskýringa líkt og áður kom fram um stig lýsingarorða. Nemendum veitist yfirleitt auðvelt að fást við þessi málfræðiatriði. Hér skal enn minnt á mikilvægi þess að gefa nemendum kost á að æfa sig vel og rækilega í því sem þeir ráða við og láta þá vita að þeir séu á réttri leið. Slík uppörvun er afar mikilvægur þáttur í kennslunni. Málfræðiatriðin eru mjög mismunandi að þyngd eins og bent verður á hér á eftir í tengslum við hætti sagna. 4.5.3 Hættir sagna Hættir sagna eru alls sex í íslensku. Þeim er skipt í persónuhætti og fallhætti. Persónuhættirnir eru þrír: framsöguháttur (gríp, grípur, grípum, grípið, greip, greipst, gripum, gripuð, gripu) viðtengingarháttur (grípi, grípir, grípum, grípið, gripi, gripir, gripum, gripuð, gripu) boðháttur (gríptu, grípið) Fallhættirnir eru líka þrír: nafnháttur (grípa) lýsingarháttur nútíðar (grípandi) lýsingarháttur þátíðar (gripið, gripinn/gripin/gripið)

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 15 7 Guðrún Kvaran 2005:206 8 Ágæta umfjöllun um horf er að finna í grein Ingibjargar B. Frímannsdóttur (2005) 4.5.4 Um kennsluna Í Gullvör er fjallað um sagnorðin í þremur köflum sem eru misþungir (sjá fyrri hluta, um bókina og notkun hennar). Í 5. kafla, þar sem fyrst er rætt um sagnorð, er farið nokkuð vandlega yfir persónur sagna og tölur og því næst er kennt um tvo af háttunum, boðhátt og nafnhátt. Boðháttur er auðveldastur af þessu öllu, bein skipun í 2. persónu, og bara til í nútíð í eintölu og fleirtölu: farðu, farið (þið). Nafnháttur er líka auðveldur, lítur alltaf eins út. Gæta verður þess að verkefnið sé þannig gert að þar séu ekki sagnir sem standa í 3. persónu fleirtölu framsöguháttar í nútíð (þeir syngja, þær hlaupa o.s.frv.). Þessi beygingarmynd er nefnilega eins og nafnhátturinn. Þetta getur ruglað unglingana í ríminu og á ekki að kenna fyrr en seinna. Kaflaskiptingin er gerð með það að markmiði að viðfangsefnið verði auðvelt og aðgengilegt, nemendur geti lokið kaflanum vissir um að þeir kunni efni hans og hafi á því full tök. Líklega er best, undir venjulegum kringumstæðum, að kenna 5. kaflann í 8. bekk. Það fer þó eftir ýmsu og kennarar verða að meta það hvað þeir telja að hópurinn ráði við. Í 6. kafla er svo kennt um alla hættina. Sá kafli er miðaður við 9. bekk, þó með sama fyrirvara og áður. Þar er heill kafli sem gengur út á að skýra muninn á framsöguhætti og viðtengingarhætti út frá beinni og óbeinni ræðu. Lýsingarhættirnir eru svo skýrðir, þeir eru yfirleitt ekki vandamál, a.m.k. ekki lýsingarháttur nútíðar. Til að útskýra mun á persónuháttum og fallháttum getur verið gott að nota tvær sagnorðarunur. Sú fyrri er þannig: Stelpan mun hafa komið gangandi heim. Hin er svona: Hundurinn beit, urraði, slefaði og gelti af æsingi. Hér eru sagnorðin feitletruð, fjögur í hvorri málsgrein. Nú er spurt: hvaða sagnir eru í persónuháttum, hverjar eru í fallháttum? Til að ná svarinu fram á skýran og myndrænan hátt skiptum við um tölu á frumlaginu, setjum það í báðum tilvikum í fleirtölu. Skoðum svo hvernig sagnorðin bregðast við: Stelpurnar munu hafa komið gangandi heim. Hundarnir bitu, urruðu, slefuðu og geltu af æsingi. Í fyrra tilvikinu breytist aðeins ein sögn, mun > munu. Í seinna tilvikinu breytast þær allar. Þetta dæmi notum við til að útskýra hvernig sagnir í persónuháttum bregðast við þegar breytt er um tölu (og oftast þegar breytt er um persónu) en fallháttarsagnirnar breytast ekki (lýsingarháttur þátíðar þegar hann myndast með sögninni að vera, breytist eftir persónum og tölum en best er að vera ekki að flækja málið með þeim upplýsingum, a.m.k. alls ekki fyrr en á síðustu stigum kennslunnar). Í fyrra tilvikinu eru dæmi um alla fallhættina þrjá sem kemur sér vel við útskýringarnar. Áður en horfið er frá háttum sagna er rétt að benda á eitt atriði enn. Þegar kennt er um hættina veldur það oft nokkrum vandræðum og misskilningi að þar eru heiti á yfir- og undirhugtökum þau sömu. Talað er um persónuhætti og fallhætti og þessir tveir flokkar skiptast svo í undirflokka sem bera sömu heiti, þ.e. undirflokkarnir heita líka – hættir, framsöguháttur, viðtengingarháttur o.s.frv. Rétt er að hafa þetta í huga þegar kennt er og e.t.v. má benda nemendum á þetta ef það gæti orðið til þess að þeim gengi betur að átta sig á flokkunum. Þó verður að gæta þess að slíkar útskýringar verið ekki of flóknar. 4.5.5 Tíðir sagna Tíðir sagna eru tvær, nútíð og þátíð og þær er auðvelt að þekkja í sundur: (ég) tek / (ég) tók; (hún) stekkur / (hún) stökk. Rétt er að benda á hugtakið horf í þessu sambandi. Horf er málfræðileg formdeild sem lætur í ljós hvort einhver verknaður er að hefjast, hvort hann stendur yfir, hvort honum er lokið o.s.frv.⁷ Ekki hefur verið venja að kenna grunnskólanemum um horf sagna.⁸

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 16 4.5.6 Myndir sagna Myndir sagna eru þrjár, germynd, miðmynd og þolmynd. Germynd er algengust og mest notuð. Miðmynd finnst með því að bæta -st aftan við ger- myndina: skipið fór (germynd) skipið fórst (miðmynd) Hér sést að sögnin breytir ummerkingu þegar miðmyndarendingunni er bætt við hana. Að farast er allt annað en að fara. Þetta gerist oftast þegar sögn tekur miðmyndarendingu. Þolmynd er af allt öðru tagi en hinar tvær því að hún er samsett af tveimur sögnum (eða fleiri). Þolmynd myndast með hjálparsögnunum að vera eða verða að viðbættum lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Að sumu leyti er óheppilegt að um hana skuli venjulega vera fjallað um leið og um germynd og miðmynd, en þetta hefur alla tíð verið gert og við því er lítið að gera. hesturinn var sóttur húsið er málað Rétt er að benda á að sagnorðin í þessum dæmum standa hvert fyrir sig í germynd. Það er eingöngu samsetningin sem er þolmynd. Oft er hægt að breyta germyndarsetningum í þolmynd og öfugt: drengurinn sótti hestinn (germynd) hesturinn var sóttur af drengnum (þolmynd) Eins er oft hægt að breyta miðmynd í germynd og öfugt: Jón kyssti Gunnu (germynd) Jón og Gunna kysstust (miðmynd) Í bókinni er farin sú leið að kenna um germynd og miðmynd í 6. kafla en þolmyndin er geymd fram í 7. kafla. Þetta er gert til að auðvelda kennsluna. Hugmyndin er að nemendur læri um germynd og miðmynd í 9. bekk og læri svo um þolmynd í 10. bekk. 4.5.7 Beyging sagnorða Sagnir hafa þrenns konar beygingu: sterka, veika og blandaða. Til að skoða beygingu sagna þarf að kynna til sögunnar hugtak sem kallast kennimynd. Kennimyndir sagna þjóna því hlutverki að gefa innsýn í það hvernig sögnin beygist. Þær eru eins konar notkunardæmi, leiðarvísir um það hvernig sögnin beygist, gefinn upp í þremur eða fjórum orðum (sjá auk þessa tilvitnun í Höskuld Þráinsson hér á eftir). Sterkar sagnir hafa fjórar kennimyndir: 1. 2. 3. 4. bíta beit bitum bitið 1. 2. 3. 4. nema nam námum numið

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 17 Veikar sagnir hafa þrjár kennimyndir: 1. 2. 3. tala talaði talað 1. 2. 3. telja taldi talið Takið eftir því að 2. kennimynd er 1. (eða 3.) persóna eintölu í þátíð (sbr. síðar, það sem sagt verður um núþálegar sagnir). Til að kenna grunnskólanemum um kennimyndirnar og beygingu sagna er hægt að einfalda þetta annars flókna kerfi mjög mikið. Við notum hjálparorð sem gefin eru upp fyrir hverja kennimynd. Fyrir sterkar sagnir líta hjálparorðin þannig út: (að) (ég í þt.) (við í þt.) (hef) bíta beit bitum bitið nema nam námum numið sitja sat sátum setið Þegar kemur að veiku sögnunum notum við sama kerfið en setjumX í stað þriðju kennimyndarinnar: (að) (ég í þt.) (við í þt.) (hef) tala talaði X talað telja taldi X talið hella hellti X hellt Nemendum er sagt að nota þessi hjálparorð og þegar kemur að 2. kennimynd (ég í þt.) kemur í ljós hvort sögnin er veik eða sterk. Ef hún er endingarlaus í þátíð 1. persónu (eitt atkvæði, nemendum finnst oft gott að klappa saman lófunum til að telja atkvæðin) þá er hún sterk og kennimyndirnar eru þar af leiðandi fjórar. Ef hún hefur endingu í þátíð (ef sagnmyndin er tvö atkvæði eða fleiri) er hún veik og þá kemur kross í stað þriðju kennimyndarinnar. Ein reglan sem nota má við þetta er sú, að ef 2. kennimynd endar á -ði, -di eða -ti þá kemur kross í 3. kennimynd. Í 6. kafla er fjallað um sterka og veika beygingu sagna. Blandaða beygingin bíður þar til í 7. kafla. Þegar kemur að blönduðu beygingunni verður að nota önnur hjálparorð. Blandaða beygingin nær ekki yfir nema 14 sagnorð. Þau eru núþálegu sagnirnar tíu: eiga, mega, unna, kunna, muna, munu, skulu, þurfa, vita, vilja, og ri-sagnirnar: róa, gróa, núa, snúa. Kennimyndir núþálegra sagna eru þessar, og takið eftir því að 2. kennimynd þessara sagna er 1. (eða 3.) persóna eintölu í nútíð (en ekki þátíð eins og í veikum og sterkum sögnum, sbr. það sem sagt var um þær hér að ofan): muna – man – mundi – munað; vita – veit – vissi – vitað Um kennimyndir segir í Handbók um málfræði eftir Höskuld Þráinsson:

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 18 10 Eiríkur Rögnvaldsson 1990:109. 11 Björn Guðfinnsson 1967:76. Með kennimyndum er átt við þau beygingarform sagna sem gefa gleggstar vísbendingar um beygingu þeirra, þ.e. hvaða beygingarflokki þær tilheyra. Kennimyndir sagna eru taldar mismunandi (mismargar) eftir því hvort um er að ræða sterkar eða veikar sagnir.⁹ Í Íslenskri málfræði eftir Björn Guðfinnsson segir um ri-sagnir: Ri-sagnir hafa endinguna -ri í þátíð, en beygjast að öðru leyti sem sterkar sagnir. Síðan setur höfundur upp þrjár kennimyndir: gróa – greri – gróið o.s.frv.¹¹ Ri-sagnirnar eru dálítið utangátta í samfélagi íslenskra sagnorða; þær eru örfáar, forneskjulegar og frábrugðnar öðrum sögnum. Sérhljóðið í nútíð eintölu er ekki hið sama og í nafnhætti eða þátíð heldur er myndað með i-hljóðvarpi (af nafnhættinum): snúa – (ég) sný. Í Gullvör, fyrri útgáfu, voru þess vegna sýndar fjórar kennimyndir af ri-sögnum: snúa – sný – sneri – snúið. Þessu var breytt við þessa útgáfu til samræmis við þá hefð sem þarna hefur skapast (sbr. Björn Guðfinnsson sem fyrr var nefndur). Hjálparorðin, sem nemendur geta notað til að beygja núþálegar sagnir, eru þannig: (að) (ég nt.) (ég þt.) (hef) muna man mundi munað Við ri-sagnir er hægt að nota sömu hjálparorð og við veikar sagnir. (að) (ég þt.) (hef) róa reri róið núa neri núið Til að geta gert þetta rétt verður að læra utan að hvaða sagnir eru núþálegar og hverjar eru ri-sagnir. Enda er svolítill utanbókarlærdómur verulega hollur fyrir heilann. Rétt er að benda á að margir sleppa alveg blönduðu beygingunni (þ.e. núþálegum sögnum og ri-sögnum) í sumum bekkjum, t.d. hægferðarhópum. Þar er alveg nóg að læra bara um sterkar og veikar sagnir.

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 19 Við gerð bókarinnar var ákveðið að fella út kaflann um hljóðfræði en hafa hann fyrir þá kennara sem vilja nýta sér efnið hér í kennsluleiðbeiningunum. Hljóðfræði Í þessum kafla verður fjallað um talfærin og útskýrt í stuttu máli hvernig þau eru notuð til að mynda orð. Þá verður rætt um sérhljóð og skiptingu þeirra í einhljóð og tvíhljóð, rætt um kringd og ókringd sérhljóð, frammælt og uppmælt sérhljóð, nálæg, miðlæg og fjarlæg sérhljóð og löng og stutt sérhljóð. Þá verður fjallað um samhljóð og hvernig þau skiptast í lokhljóð, önghljóð, nefhljóð, hliðarhljóð og sveifluhljóð eftir því sem kallast myndunarháttur (þ.e. hvernig þau eru mynduð). Að lokum er stutt umfjöllun um það sem kallast myndunarstaður samhljóða (þ.e. hvar þau myndast í munninum). Þessi upptalning er nú orðin nokkuð löng og ógnvænleg en bent skal á að hljóðfræðin er alls ekki flókin þegar mál hafa verið skýrð og skilin. 1 Talfærin Orðin sem við segjum eru gerð úr hljóðum sem kallast málhljóð. Þau myndast í talfærunum. Helstu talfærin eru: nefhol, varir, tennur, tannberg, framgómur, uppgómur, gómfylla, tungubroddur, tungubak, kok og raddbönd. Málið sem við tölum verður þannig til að við þrýstum lofti upp úr lungunum upp í gegnum munnholið eða nefið og breytum stöðu talfæranna á meðan. 2 Sérhljóð/samhljóð Málhljóðunum er skipt í tvo flokka sem kallast sérhljóð og samhljóð. Samhljóð myndast á þann hátt að ýmist er þrengt að loftstraumnum (önghljóð), honum hleypt út um nefið (nefhljóð) eða lokað fyrir hann (lokhljóð) (sjá auk þess um l og r). Sérhljóðin eru mynduð með raddböndunum og ekki er þrengt að loftstraumnum á leið hans um talfærin en tunga og varir breyta stöðu sinni eftir því hvaða sérhljóð er verið að mynda. 3 Sérhljóð – einhljóð/tvíhljóð Sérhljóð í íslenku eru 13 og skiptast í tvo flokka sem heita einhljóð og tvíhljóð. 3.1 Einhljóðin eru: a e i í u ú o ö 3.2 Tvíhljóðin eru: ei (ey) æ au ó á Hvert tvíhljóð er í rauninni gert úr tveimur einhljóðum: ei = eí; æ = aí; au = öí; ó = oú; á = aú. Þetta sést vel ef við breytum um rithátt á orðunum, ritum t.d. orðið bær = baír eða orðið lauma = löíma. Framburður orðanna verður sá sami. Takið eftir því að ei og ey er sama hljóðið þó að táknin séu ekki eins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=