Gullvör - Kennsluleiðbeiningar

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 10 4.2.1 Fallbeyging Nafnorð í íslensku hafa fjögur föll: eintala: fleirtala: nefnifall hundur hundar þolfall hund hunda þágufall hundi hundum eignarfall hunds hunda 4.2.2 Kenniföll Kenniföll heita þau föll sem gefin eru upp í orðabókum og gefa mynd af því hvernig orðið beygist. Kenniföllin eru: nf.et., ef.et. og nf.ft. (sbr. skáletruðu orðin hér að ofan). Í orðabókinni er nefnifallið gefið upp (það er kallað uppflettimynd orðsins) og eftir það endingar síðari kennifallanna tveggja. Þar stendur skv. þessu ef við flettum upp á orðinu hundur: hundur -s, -ar. Þar á eftir stendur k sem táknar kyn orðsins, karlkyn. 4.2.3 Um kennsluna Mikilvægt er að kenna unglingum um kenniföllin. Um þau er fjallað í 4. kafla sem, heitir Fallorð III, og er ætlaður 10. bekk. Þó er ekkert sem bannar að þetta sé tekið fyrir fyrr ef þannig stendur á. Það opnar nemendum leið inn í orðabókina og skýrir fyrir þeim tákn sem þar eru notuð. Rétt er að leggja áherslu á að til þess að kenna þetta efni í grunnskólanum er nauðsynlegt að velja góð dæmi. Dæmin verða að vera lýsandi og skýr. Til að byrja með er rétt að nota orð sem hafa venjulegar fleirtöluendingar: gaur, -s, -ar; gripur, -s, -ir; krókur, -s, -ar; drottning, -ar, -ar; sól, -ar, -ir; kind, -ar, -ur Sum orð hafa enga fleirtöluendingu. Það á til dæmis við um mörg hvorugkynsorð. Í stað upplýsinga um fleirtöluendinguna kemur þá strik í orðabókinni: blóm, -s, –; hreiður, -urs, – Og fleirtalan getur verið frábrugðin eintölunni að ýmsu leyti eins og sést í orðabókinni: bók, -ar, bækur Hér er allt orðið gefið upp til að sýna að stofnsérhljóðið breytist við það að orðið er sett í fleirtölu. Þegar þetta hefur verið æft og allir hafa skilið hvernig kenniföll eru fundin og hvað þau sýna getum við byrjað að benda á undantekningar eins og óreglulega beygingu, t.d. kýr, ær, móðir, faðir, bróðir, vetur, hönd, o.s.frv. Aldrei verður lögð of mikil áhersla á það að kenna fyrst vel og rækilega grunnþættina og æfa þá með skýrum og undantekningalausum verkefnum uns nemendur hafa náð góðri þjálfun í þeim. Þá, og ekki fyrr, er hægt að leyfa sér að víkja að flóknari þáttum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=