Þrjár meginstefnur

Kristni / Síðari tímar / Þrjár meginstefnur

Sækja pdf-skjal

 

Þrjár meginstefnur Kristin trú skiptist í margar kirkjudeildir en þó eru aðallega ríkjandi þrjár stefnur þ.e. rómversk-kaþólska kirkjan, rétttrúnaðarkirkjan og evangelíska kirkjan. Þær skiptast svo í minni trúfélög.

Fjölmennasta kristna trúfélagið í dag er rómversk-kaþólska kirkjan en um það bil milljarður jarðarbúa aðhyllist hana víðsvegar um heim. Það er helmingur allra kristna manna.

Trúarhefð rómversk-kaþólsku kirkjunnar er sterk og þar gegna sakramentin mikilvægu hlutverki. Í augum kaþólskra eru þau óafturkallanleg. Sakramentin sjö eru skírn, ferming, heilög kvöldmáltíð (altarisganga), hjónavígslan, skriftir, smurning sjúkra og deyjandi og prestvígslan. Einnig er tilbeiðsla dýrlinga áberandi hjá rómversk-kaþólsku kirkjunni. Þeir sem komast í dýrðlingatölu er fólk sem hefur markað sögu kristninnar, unnið óeigingjarnt starf á vegum hennar eða látist píslavættis dauða. María mey nýtur sérstakrar virðingar og er oft ákölluð.

Það sem einkennir rómversk-kaþólsku kirkjuna öðrum kristnum kirkjudeildum fremur er hið óskeikula vald páfans. Páfinn er æðsti yfirmaður kirkjunnar og er með aðsetur í Vatikaninu í Róm á Ítalíu sem er sjálfstætt ríki. Hann er talinn vera eftirmaður Péturs postula sem settist að í Róm á sínum tíma.

Rómversk-kaþólska kirkjan heldur stíft í ýmsa siði eins og að prestar mega ekki ganga í hjónaband og að getnaðarvarnir og fóstureyðingar eru ekki leyfðar. Nunnu- og munkaklaustur eru einnig rekin víða á vegum kirkjunnar. Lengi vel fóru messur fram á latínu en það hefur þó breyst sumstaðar. Þegar Íslendingar lögtóku kristni á Alþingi árið 1000 tóku þeir rómversk-kaþólska trú sem var ríkjandi allt fram um miðja 16. öld.

Rétttrúnaðarkirkjan eða Orþódox-kirkjan hefur sterk tengsl við frumkirkjuna eins og sú rómversk-kaþólska en er hins vegar stjórnað af biskupum, patríörkum og þingi en ekki einum yfirmanni. Varðandi helgisiði þá leggja þeir áherslu á sakramentin en séreinkenni þeirra er áhersla á íkona eða helgimyndir til að auka andlegan þroska. Innan rétttrúnaðarkirkjunnar mega prestar vera giftir ef það gerist fyrir prestvígsluna.

Hvert land hefur sína þjóðkirkju sem notar sitt tungumál og siði en helgihald og tilbeiðslan er sú sama. Messuhald er mjög frábrugðið rómversk-kaþólsku kirkjunni. Mikið er lagt upp úr upplifun og tilfinningum. Oftar en ekki stendur söfnuðurinn við messu en hún er einskonar endurtekning á lífi Jesú frá fæðingu og að upprisunni sem að endingu lýkur með heilagri kvöldmáltíð eða altarisgöngu. Páskarnir hafa mikla sérstöðu innan þessarar kirkjudeildar en söfnuðurinn kemur saman að kvöldi páskadags og situr í myrkvaðri kirkju fram að miðnætti. Þá er kveikt á kerti við altarið sem síðan er notað til að kveikja á kertum sem söfnuðurinn heldur á. Þegar allir halda á lifandi ljósi er kirkjuklukkum hringt og þá hefst helgihald páskanna.

Rétttrúnaðarkirkjan fylgir einnig eldra tímatali og því halda þeir jólin (Hátíðirjólahátíðin) 6. janúar en ekki 25. desember eins og rómversk-kaþólska kirkjan.

Evangelískar kirkjur eru upprunnar frá 16. öld þegar Marteinn Lúther og fleiri kristnir siðbreytingarmenn mótmæltu meginkenningum rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þó sérstaklega óskeikuleika páfans. Evangelíska kirkjan er því einnig nefnd mótmælenda kirkjan og fylgjendur hennar mótmælendur. Evangelíum þýðir fagnaðarerindi en þessi kirkjudeild leggur einmitt mikla áherslu á fagnaðarerindið þ.e. fyrirgefningu syndanna fyrir trúna á Jesú Krist og af því dregur hún nafn sitt. Ólíkt rómversk-kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni hefur evangelíska kirkjan eingöngu tvö sakramenti en það eru skírn og heilög kvöldmáltíð eða altarisganga.

Í evangelískum kirkjudeildum eru kirkjur mun látlausari og dýrlingar ekki í hávegum hafðir. Aðaláherslan er á Biblíuna og þá einkum fagnaðarerindið en einnig hefur predíkun alltaf verið mikilvægur þáttur. Marteinn Lúther var þýskur munkur og einn þeirra sem var á móti ýmsum siðum og kenningum rómversk-kaþólsku kirkjunnar og af því dregur lútherstrúin nafn sitt. Lútherska kirkjan breiddist út um Norður-Þýskaland og þaðan til Norðurlandanna. Íslenska þjóðkirkjan er lúthersk kirkja. Fleiri aðilar settu sig upp á móti rómversk-kaþólsku kirkjunni í Evrópu og upp úr þessum siðbótum spretta einnig enska biskupakirkjan og kalvinstrúarkirkjan.