Helgirit

Kristni / Kennisetningar og reglur / Helgirit

Sækja pdf-skjal

 

Helgirit Helgirit kristinna manna nefnist Biblía. Orðið Biblía er komið úr grísku og merkir bækur. Biblían eru margar bækur eða 66 sem skiptast í tvo hluta, Gamla og Nýja testamentið. Orðið testamenti kemur úr latínu og þýðir sáttmáli. Gamla testamentið skiptist í 39 bækur og var upphaflega skrifað á hebresku. Þar er saga Ísraelsmanna rakin en einnig eru þar ljóð, sálmar og spádómar um komu frelsarans. Gamla testamentið er sameiginlegt helgirit gyðingdóms og kristindóms. Nýja testamentið er hins vegar eingöngu helgirit kristinna manna. Nýja testamentið skiptist í 27 bækur og var upphaflega skrifað á grísku. Þar eru frásagnir af lífi, starfi og upprisu Jesú Krists, frásagnir af postulunum, bréfum til safnaða og opinberunarbók Jóhannesar. Nýja testamentið er álíka að stærð og Kóraninn, helgirit múslima.

Samkvæmt skilningi kristinna manna er Biblían orð Guðs. Það sem í henni stendur er það sem Guð vill segja og útskýra fyrir mönnunum hvernig eigi að haga sér. Gamla testamentið er oft nefnt „hin spámannlegu rit“ af kristnum mönnum og Nýja testametið „hin postullegu rit". Þetta skýrist af því að Gamla testamentið er skrifað áður en Jesú Kristur er sendur mönnunum og það boði komu hans sem frelsara mannkynsins. Nýja testamentið sé hins vegar skrifað af postulum Jesú Krists og lærisveinum þeirra eftir komu Krists. Það boði að spádómar Gamla testamentisins hafi ræst og frelsari heimsins sé Jesú Kristur sonur Guðs, getinn af heilögum anda.

Talið er að Biblían hafi verið skrifuð á löngum tíma eða frá því 1450 f.Kr. og þar til um 100 e.Kr. Höfundar hennar eru margir og lengi vel varðveittust bækur Gamla testamentisins sem munnlegar frásagnir. Hins vegar hafi verið byrjað að skrifa bækur Nýja testamentisins um 58 e.Kr. Þó er talið að nokkur bréf Páls postula séu aðeins eldri. Biblían er sennilega mest lestna bók veraldar og hún hefur verið gefin út á fjölmörgum tungumálum. Talið er að búið sé að þýða hana eða hluta hennar yfir á meira en tvö þúsund tungumál. Árið 1536 byrjaði Oddur Gottskálksson að þýða Nýja testamentið fyrir Íslendinga en prentun þess lauk ekki fyrir en árið 1540. Þetta var einnig fyrsta prentaða bókin hér á landi sem vitað er um. Árið 1584 kom svo Biblían út í heild sinni á íslensku en það var Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum sem stóð fyrir þeirri útgáfu og því er hún kennd við hann og nefnd Guðbrandsbiblía.