Kristni / Siðir / Altarisganga
 
Altarisganga eða heilög kvöldmáltíð er athöfn þar sem kristnir menn minnast Jesú og dauða hans. Söfnuðurinn gengur að lágu handriði, sem nefnist grátur, og er fyrir framan altarið. Þar útdeilir presturinn messuvíni úr bikar, sem táknar blóð Krists og oblátu, sem táknar líkama Krists. Við þessa athöfn er verið að minnast síðustu kvöldmáltíðar Jesú og lærisveina hans áður en Jesús var krossfestur.
Þessi siður hefur haldist frá upphafi sem minningarathöfn en einnig hefur Guðsríki verið líkt við mikla kvöldmáltíð eða veislu. Það er þó misjafnt eftir kirkjudeildum hvernig litið er á þessa athöfn og merkingu hennar. Í sumum kirkjum er altarisganga á hverjum sunnudegi en sjaldnar hjá öðrum.