Klofningur kirkjunnar

Kristni / Síðari tímar / Klofningur kirkjunnar

Sækja pdf-skjal

 

Klofningur kirkjunnar Kristin trú breiddist út um allt Rómaveldi og einnig til annarra landa. Þeir sem stjórnuðu kirkjunum á fyrstu öldum hennar nefndust patríarkar. Þeir voru staðsettir á nokkrum stöðum Rómaveldis eða í Róm, Jerúsalem, Antíokkíu og Konstanínópel (Istanbúl). En Rómverjar héldu áfram að ofsækja kristna menn sem vildu ekki samþykkja að rómarkeisari væri Guð þó lög Rómaveldis segðu að svo ætti að vera. Það var ekki fyrr en árið 313 e.Kr. að stjórnvöld Rómaveldis fyrirskipuðu umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum að ofsóknirnar hættu. Það ár gaf Konstantínus keisari kristnum mönnum trúfrelsi. Árið 392 e.Kr. var kristin trú svo gerð að opinberri ríkistrú Rómaveldis.

Eftir því sem iðkendum trúarinnar fjölgaði komu líka upp ágreiningsmál sem þurfti að leysa. Sum mál náðist sátt um en önnur ekki sem leiddi til þess að þegar Rómaveldi skiptist í austur og vestur þá jókst ágreiningur kirkjunnar manna. Á 11. öld skiptist hún upp í tvær kirkjudeildir. Þær voru rómversk-kaþólska kirkjan til vesturs og rétttrúnaðarkirkjan til austurs. Kirkjudeildirnar eiga það sameiginlegt að trúa á hina heilögu þrenningu, Guð sem skapara, Jesú Krist son hans og heilagan anda. Það sem aðskilur kirkjudeildirnar hins vegar er munurinn á helgihaldi og hinum ýmsu siðum. Síðast en ekki síst var það afstaða kirkjudeildanna til páfans í Róm sem aðskildi þær en menn voru ekki á eitt sáttir um vald hans.