Upprisan

Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Upprisan

Sækja pdf-skjal

 

Upprisan Maður sem hét Jósef og var frá Arímaþeu fór til Pílatusar og bað um að fá líkama Jesú til að grafa hann. Hann fékk leyfi til þess og vafði líkamann í línklæði og lagði hann í gröf sem búið var að höggva inn í klett. Því næst var stórum steini velt fyrir gröfina. Trúarleiðtogar gyðinga minntust hins vegar þess að Jesús hefði boðað að hann myndi rísa upp eftir dauða sinn og því var ákveðið að setja varðmenn fyrir utan gröfina til að tryggja að líki Jesú yrði ekki rænt og menn gætu sagt að hann hefði risið upp frá dauðum.

Á sunnudeginum gengu nokkrar konur að gröf Jesú. Þegar þær stóðu fyrir framan hana varð mikill jarðskjálfti og varðmennirnir féllu niður. Engill birtist og velti steininum frá gröfinni en hún var tóm. Engillinn sagði konunum að fara til lærisveinanna og segja þeim frá því sem þær sáu en Jesús væri upprisinn. Á leiðinni birtist Jesús þeim og bað þær að segja lærisveinum sínum að hitta sig í Galíleu. Varðmennirnir komust til meðvitundar aftur og fóru í skyndi til borgarinnar að segja frá því sem þeir höfðu upplifað og að gröf Jesú væri nú tóm. Trúarleiðtogar gyðinga vildu alls ekki að þessi saga færi á kreik og báðu varðmennina um að segja að lærisveinarnir hefðu komið á meðan þeir sváfu og rænt líkama Jesú. Þegar konurnar höfðu sagt lærisveinunum frá því sem þær upplifðu héldu þeir til Galíleu þar sem þeir hittu Jesú og dvöldu með honum.