Kristni / Hátíðir / Páskahátíðin
 
Páskarnir, mesta og elsta hátíð kristinna manna, er önnur stórhátíð kirkjuársins. Á páskunum er dauða og upprisu Jesú minnst. Fyrir páskahátíðina er undirbúningstími eins og fyrir jólahátíðina. Undirbúningstímabilið nefnist fasta eða langafasta og stendur í 40 daga. Fastan hefst á öskudegi og frá þeim tíma og fram að páskum er tími sjálfsafneitunar, iðrunar og yfirbótar. Fastan merkir að menn neiti sér um hluti eins og til dæmis að borða kjöt. Sprengidagur var hér áður fyrr síðasti dagurinn sem fólk borðaði kjöt fram að páskum. Frá öskudegi og til laugardagskvölds fyrir páskadag var fastað alla daga nema sunnudaga.
Síðasti sunnudagur fyrir páska nefnist pálmasunnudagur en þá minnast kristnir menn þess þegar Jesús kom ríðandi á asna inn í Jerúsalem. Þar tók fólk á móti honum sem konungi. Að þessum degi loknum hefst dymbilvika eða kyrravika þar sem minnst er síðustu daga Jesú, þjáninga hans og dauða.
Skírdagur er fimmtudagurinn fyrir páska en þá er síðustu kvöldmáltíðarinnar minnst. Orðið skír merkir „hreinn". Heitið á þessum degi er vísun í það þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna áður en þeir snæddu síðustu kvöldmáltíðina saman. Seinna um kvöldið var Jesús handtekinn af varðforingjum helgidómsins og öldunganna.
Föstudagurinn langi er sorgardagur en þá minnast menn krossfestingar Jesú. Jesús var handekinn og dæmdur fyrir landráð. Hann var krossfestur eins og siður var um sakamenn á þessum tíma.
Páskadagur er sunnudagur og mikill gleðidagur í hugum kristinna manna en þá er upprisu Jesú minnst. Hér er einnig minnst frelsunar Ísraelsmanna frá Egyptalandi. Börn eru gjarnan glödd með súkkulaðieggjum á þessum degi en eggið táknar nýtt líf.
Uppstigningardagur er 40 dögum eftir páska. Þá er þess minnst þegar Jesús steig upp til himna og kvaddi lærisveina sína. Tíminn frá páskum og fram að hvítasunnu einkennist af gleði og fögnuði yfir því sem átti sér stað um páskana. Jesús sýndi með upprisu sinni að hann sigraði dauðann og gaf mönnum von um eilíft líf í Guðsríki.