Fæðing Jesús

Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Fæðing Jesús

Sækja pdf-skjal

 

Fæðing Jesús Fyrir meira en 2000 árum fæddist drengur í borginni Betlehem. Spáð hafði verið fyrir fæðingu hans og margir beðið hennar. Það voru hins vegar ekki allir sammála um að það væri þessi drengur sem beðið væri eftir eða spáð fyrir. Drengurinn hlaut nafnið Jesús og síðar nefndur Jesús Kristur. Ímyndaðu þér að þú sért í litla þorpinu Nasaret í Palestínu fyrir meira en 2000 árum síðan. Þar bjó Jósef sem var ungur smiður. Hann átti unnustu sem hét María. Jósef og María ætluðu sér að giftast einn daginn og stofna fjölskyldu. María var óspjölluð mey en dag einn birtist henni engill sem sagði henni að hún yrði brátt þunguð og barnið yrði drengur sem nefna ætti Jesú. Nokkru síðar fann hún að hún bar barn undir belti og sagði Jósef frá því. Á þessum tíma var mikil skömm að því að eignast börn áður en búið var að gifta sig. Jósef vissi að hann var ekki faðirinn svo hann var alls ekki ánægður með þetta og ákvað að hætta við að giftast Maríu. En þá kom til hans engill og sagði honum frá því hvernig á þessu stæði svo hann ákvað að standa með heitkonu sinni í stað þess að segja skilið við hana. Þar sem María var óspjölluð þegar hún varð þunguð af syni sínum var hún síðar nefnd María mey.

Á þessum tíma var Ágústus keisari Rómarveldis og hann ákvað að gera manntal í öllum ríkjum sínum. Hann skipaði öllum að fara til heimaborgar sinnar og láta skrásetja sig þar. María var langt gengin með barnið en þar sem Jósef var frá Betlehem urðu þau að ferðast þangað. Mjög margt fólk hafði farið til borgarinnar í sömu erindagjörðum og María og Jósef og því var fullt á öllum gististöðum. María varð hins vegar að komast í hús þar sem hún var að því komin að eiga barnið. Þau komu sér því fyrir í fjárhúsi þar sem María ól son sinn og lagði í jötu. En fréttir af fæðingu þessa drengs og sérstöðu hans barst víða. Rétt fyrir utan Betlehem voru fjárhirðar að gæta kinda út í haga þegar engill birtist þeim og fór að tala við þá. Engillinn bað þá að vera ekki hrædda því að „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“ (Lk2.11). Hann sagði þeim líka hvar þeir myndu finna Jesú og síðan birtist englakór sem söng „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á“ (Lk2.14). Fjárhirðarnir fóru til Betlehem til að athuga hvort þetta væri rétt og fundu Maríu, Jósef og ungbarn í jötu. Fjárhirðarnir sögðu öðrum frá því sem engillinn sagði og frá englakórnum og fólk varð mjög undrandi á þessari frásögn.

Þrír vitringar frá Austurlöndum höfðu einnig lagt af stað í langferð og fylgt bjartri stjörnu því þeir voru sannfærðir um að hún leiddi þá að hinum mikla konungi Gyðinga. Þegar þeir komu til Jerúsalem fóru þeir strax til Heródesar konungs og spurðu „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?“ (Mt2.2) Heródes varð mjög undrandi en um leið reiður þegar hann áttaði sig á að vitringarnir væru virkilega að leita að nýfæddum konungi. Heródes vildi ekki að einhver tæki völdin af honum og því sagði hann vitringunum að fara og finna drenginn fyrir sig og koma svo og segja sér hvar hann væri að finna. Vitringarnir héldu áfram til Betlehem þar sem þeir fundu drenginn liggjandi í jötu. Þeir færðu honum gjafir;gull, reykelsi og myrru og héldu síðan aftur heim. En þeir sögðu ekki Heródesi frá því hvar drengurinn væri því þá grunaði að hann vildi honum illt.

Þessa atburða minnast kristnir menn á jólunum.