Kristni / Hátíðir / Jólahátíðin
 
Jólin eru haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann fæddist en ákveðið var að 25. desember yrði sá dagur þegar menn minnast fæðingar hans. 25. desember var haldinn hátíðlegur fyrir tíð Jesú. Heiðnir menn héldu þá upp á vetrarsólstöður en það merkti að sólin væri farin að hækka á lofti. Þegar heiðni var aflögð í Róm var dagurinn tileinkaður fæðingu Jesú Krists enda er Jesús oft nefndur „ljós heimsins“. Jólin eru fyrsta stórhátíð kirkjuársins og jafnframt sú yngsta. Um miðja 4.öld e.Kr. voru fyrst haldin kristin jól. Á jólunum minnast kristnir menn fæðingar Jesú Krists.
Undirbúningur jólanna hefst á aðventunni. Aðventa þýðir koma. Menn rifja þá upp aðdraganda að komu frelsarans Jesú Krists. Minnst er spádóma manna um komu hans, borgarinnar Betlehem, hirðingjanna og englanna. Þetta er tákngert með aðventukransinum sem yfirleitt er greniskreyttur hringur með fjórum kertum á. Hringurinn táknar hringrás tímans en kertin fjölda sunnudaga á aðventunni. Hvert kerti hefur sitt nafn og á fyrsta sunnudegi í aðventu er kveikt á spádómskertinu. Með því minnumst við spádóma sem er að finna í Gamla testamentinu um komu frelsarans. Annað kertið nefnist Betlehemkerti og minnir á borgina þar sem frelsarinn fæddist. Þriðja kertið nefnist hirðakerti og minnir á fjárhirðana sem leituðu Jesú eftir að hafa fengið fregnir af komu hans. Fjórða kertið nefnist englakerti og minnir á englana sem fluttu fregnir af fæðingu frelsarans. Aðventan minnir kristna menn á kærleika, hjálpsemi og gestrisni því þessi tími er notaður til að undirbúa jólahátíðina sjálfa. Fjölskyldur taka sig saman og útbúa gjafir handa sínum nánustu, senda kveðjur til vina og vandamanna, baka góðgæti, skreyta hýbýli og taka til. Áhersla er lögð á að allir hjálpist að við undirbúninginn.
Á jólunum fara kristnir menn gjarnan í kirkju. Fæðingar frelsarans er minnst með gleði og fjölskyldur og vinir hittast, borða saman góðan mat og skiptast á gjöfum. Hér á landi er jólamessan sennilega fjölmennasta messa ársins. Klukkan 18:00 á aðfangadag, þann 24.desember, er guðsþjónusta í langflestum kirkjum landsins og í Ríkisútvarpinu er einnig hægt að hlusta á útvarpsmessu á sama tíma. Talað er um að kirkjuklukkurnar hringi inn jólin klukkan 18:00 á aðfangadag. Einnig eru messur á jóladag og annan í jólum.