Allt um ástina - kennsluleiðbeiningar

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 1 ALLT UM ÁSTINA KENNSLULEIÐBEININGAR I. HLUTI María Jónsdóttir, félagsráðgjafi Thelma Rún van Erven, sálfræðingur Myndhöfundur Sigmundur Breiðfjörð

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 2 EFNISYFIRLIT Formáli 3 Inngangur 4 Kynning 6 1. Sjálfsmynd 7 2. Tilfinningar og líkamstjáning 15 3. Líkaminn og hreinlæti 20 4. Samfélagsmiðlar 25 5. Minn smekkur 33 6. Ástarmálin 38 7. Ástarsambönd 44 8. Kynlíf og samþykki 52 9. Getnaðarvarnir og kynsjúkdómar 60 10. Misnotkun 65 11. Klám 71 VERKEFNABLÖÐ 75 Heimildir 85

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 3 Formáli Námsefnið Allt um ástina er ætlað nemendum með fjölbreyttan taugaþroska sem þurfa aðlagað námsefni. Efnið er hugsað til notkunar í eldri bekkjum grunnskóla og á starfsbrautum framhaldsskóla. Þá nýtist efnið einnig í fullorðinsfræðslu fyrir fatlað fólk. Vinna við gerð þessa námsefnis hófst árið 2020. Innblástur við vinnslu á námsefninu var meðal annars fenginn í vinnu með ungu fólki en höfundar efnisins eru starfsmenn Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR). Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Þróunarsjóður námsgagna veittu styrk við gerð þessa námsefnis sem og Lýðheilsusjóður. Verkefnið er samstarfsverkefni höfunda, Menntamálastofnunar og RGR. Þeir sem hyggjast nota efnið geta sótt námskeið um notkun þess hjá Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Finna má upplýsingar um námskeiðið á vefsíðu stofnunarinnar (rgr.is). Hafnarfjörður, maí 2023 María Jónsdóttir, félagsráðgjafi Thelma Rún van Erven, sálfræðingur

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 4 Inngangur Ástarmálin eru okkur flestum hugleikin, sérstaklega á framhaldsskólaárunum. Á þessum árum er margt að gerast í lífi okkar og við byrjum mörg að feta okkur áfram á þessu sviði. Námsefnið Allt um ástina er hugsað til að efla nemendur til að vera betur í stakk búin að stunda örugg samskipti í raun- og netheimi með uppbyggjandi hætti. Efla færni til að setja öðrum mörk í samskiptum, læra leiðir til til að kynnast öðrum með náin sambönd í huga og þekkja hvað greinir á milli heilbrigðra og óheilbrigðra ástarsambanda. Auk þess að læra að hlúa betur að sjálfum sér og eigin líðan. Þekkja sjálfan sig og sínar langanir og hvað það er sem heillar í fari annarra. Einstaklingar með fjölbreyttan tauaþroska hafa sömu langanir og jafnaldrar þeirra þegar kemur að því að stofna til náinna kynna (Corona, and all, 2015; Jonsdóttir, 2010). Á sama tíma sýna rannsóknir að þau eru minna virk kynferðislega eða hafa verið í ástarsambandi (Zamora o.fl., 2019). Ástæðurnar fyrir þessu geta verið margvíslegar. Þau fá færri tækifæri til að prófa sig áfram, eru félagslega einangruð eða eiga félaga í sömu sporum. Þau fá sjaldan að upplifa að læra af reynslunni (Frawley and Wilson, 2016). Rannsóknir sýna einnig að þau fá minni fræðslu og skortur er á kennsluefni sem hentar þeirra þörfum en oft þarf það að vera klæðskerasniðið (Curtis, 2017). Þá getur reynst erfiðara að lesa í umhverfið og læra óskrifaðar reglur samfélagsins. Þess vegna er markviss og regluleg fræðsla um kynheilbrigði og samskipti mikilvæg. Þessi ungmenni þurfa meiri fræðslu til viðbótar við hefðbundna kynfræðslu. Þau þurfa að læra leiðir til að vera öruggari í tengslum við kynheilbrigði, vináttu og ástarsambönd, daður, tilhugalíf og kynlíf (Zamora o.fl., 2019). Hvernig á að nota námsefnið Námsefnið spannar 11 kafla og skiptist í tvo hluta, annars vegar I. hluti sem eru kennsluleiðbeiningar og verkefni sem vinna á með í tengslum við myndir sem eru í II. hluta. Hver kafli er eins uppbyggður og hinn fyrri, það er upprifjun úr síðasta tíma og umræðuefni tímans í dag. Þá eru ýmis verkefni sem á að leysa. Í hverjum kafla má finna bréf stíluð til Kæra sála. Þetta eru bréf ungmenna sem eru að leita ráða vegna ýmissa vandamála og mælt er með að fá hópinn til að hjálpast við að ráðleggja einstaklingnum. Mælt er með að kenna einn kafla einu sinni í viku. Það er mikilvægt að undirbúa kennsluna vel með því að renna yfir kaflann og afla viðeigandi aðfanga fyrir tímann. Ákveðnir hlutar námsefnisins kunna að reynast sumum nemendum of flóknir, meta þarf því hverju sinni hvað hentar hverjum og einum. Margir í nemendahópnum þurfa endurtekningar og ætti því engin fyrirstaða að vera fyrir því að sumir nemendur fari oftar en einu sinni í gegnum námsefnið. Þá má einnig nota efnið með öðru námsefni.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 5 Kennsluleiðbeiningar Sumum gæti þótt erfitt að kenna ákveðna kafla. Við erum öll með ólíkan bakgrunn, trú og gildi. Við þurfum að virða skoðanir hvers annars og vita hvernig við ætlum að nálgast þessi ólíku viðhorf. Við þurfum líka að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við séum tilbúin að sinna þessari kennslu (MacCarthy, 1991; Hartman, 2013). Eftirfarandi atriði er gott að hafa að leiðarljósi: • Skapaðu þægilegt og létt andrúmsloft. • Nemandinn þarf að upplifa að þarna ríki traust og að leyfilegt sé að spyrja um allt. • Sýndu næmni. • Skapaðu öruggt rými þar sem þið verðið ekki fyrir truflun. • Vertu viðbúinn ef það koma fram viðkvæmar upplýsingar, í hvaða farveg þú ætlar að setja þær. ○ Kennari vinnur með öðrum. ○ Hafðu teymi bak við þig sem þú getur leitað til ef eitthvað kemur upp á. • Gott er að foreldrar/aðstandendur séu upplýstir um efnistök til að þau geti haldið áfram að leiðbeina barninu heima. • Verið viðbúin undir ögrandi hegðun (t.d. þegar verið er að kenna atriði í tengslum við sjálfsfróun og kynlíf) og verið búin að ákveða hvernig þið ætlið að bregðast við. • Vísið í nýliðna atburði eða einhverja sjónvarpsþætti sem nemendur eru að horfa á. Nefna má dæmi eins og í tengslum við ólíkar sambandsgerðir, kynhneigð og fleira sem getur auðveldað skilning á viðfangsefninu enn frekar. Heimildir Í heimildaskrá má finna heimildir sem hafa veitt undirrituðum innblástur við gerð þessa fræðsluefnis en ekki er vitnað beint í þær við einstaka verkefni eða myndir.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 6 Kynning Mynd bls. 1: Allt um ástina Mynd bls. 2: Allt um ástina Ástarmálin geta stundum verið flókin og það er margt sem þarf að huga að áður en við stofnum til náinna kynna með einhverjum. Á þessu námskeiði ætlum við að læra leiðir til að sýna ábyrga hegðun á þáttum sem varða ástarmálin. Mynd bls. 3: Allt um ástina Það er margt sem þarf að huga að, meðal annars: • Sjálfsmyndina og tilfinningar. • Skiptir líkamstjáning máli? • Kynheilbrigði. • Hver eru mín mörk og ábyrgð? • Hvað er ást? • Við hverja er í lagi að reyna við? • Í hvern á ég séns? • Hvernig á að daðra? • Hvernig á að haga sér á stefnumóti? • Rafræn samskipti. • Þróun ástarsambanda. • Heilbrigð og óheilbrigð sambönd. Mynd bls. 4: Efnisyfirlit 1. Sjálfsmynd 2. Tilfinningar og líkamstjáning 3. Líkaminn og hreinlæti 4. Samfélagsmiðlar 5. Minn smekkur 6. Ástarmálin 7. Ástarsambönd 8. Kynlíf og samþykki 9. Getnaðarvarnir og kynsjúkdómar 10. Misnotkun 11. Klám Verkefnablöð

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 7 1. Sjálfsmynd Mynd bls. 5: Sjálfsmynd Mynd bls. 6: Tíminn í dag 1. Sjálfsmynd 2. Sjálfsstyrkur 3. Ákveðni 4. Sjálfsrækt 5. Gagnrýni 6. Hrós Mynd bls. 7: Sjálfsmynd Ræðið að sjálfsmyndin er myndin sem við höfum af okkur sjálfum. Til að skoða hvað sjálfsmyndin er, er ágætt að svara eftirfarandi spurningum: • Hver er ég? • Hvað lýsir best persónuleika mínum? • Hvaða mynd hef ég af sjálfum mér? • Fyrir hvað stend ég? • Hverjir eru styrkleikar mínir? • Hverjir eru veikleikar mínir? • Hver eru mín áhugamál? Mynd bls. 8: Verkefni – Sjálfsmynd Tvö og tvö taka viðtal við hvort annað, skrifa niður eða strika undir rétt orð í lið 2 og 3. Síðan kynnum við þann sem við tókum viðtal við fyrir hópnum eftir viðtalið. Prentið út verkefnablað 1 til að nemendur geti fyllt það út. Spurningar 1. Nafn, aldur, afmælisdagur, hverjir eru í fjölskyldunni þinni. 2. Áhugamál (sund, hlaupa, skautar, skíði, handbolti/fótbolti, boccia, kór, fimleikar, teikna, lesa). 3. Persónuleiki þinn(við getum verið feimin, ófeimin, róleg, fyndin, hress, félagsverur, hlédræg). 4. Kvikmyndir/þættir/tölvuleikir. Mynd bls. 9: Sjálfsmynd sveiflast upp og niður • Það er eðlilegt að sjálfsmynd okkar sveiflist upp og niður, hún getur bæði verið sterk og veik. Það getur verið út af því hvernig okkur líður eða hvernig aðrir koma fram við okkur • Við verðum sjálf að vera góðar fyrirmyndir og komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur • Við berum ábyrgð á eigin hegðun og hvernig við komum fram við aðra

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 8 Mynd bls. 10: Verkefni – Sterk sjálfsmynd Ræðið eftirfarandi setningar og fáið nemendur til að tengja réttar setningar inn í boxin á glærunni: • Ég er óánægður með mig • Engum líkar við mig • Ég er mikils virði • Ég er heimskt • Ég er fyndið/in/inn • Ég get allt • Ég get verið ósammála • Ég stend með mér • Ég get ekki neitt • Ég leyfi öðrum að ráða • Ég er ánægt/ð/ur með mig • Að segja já en meina nei Mynd bls. 11: Verkefni – Veik sjálfsmynd Ræðið setningar hér að neðan og fáið nemendur til að tengja réttar setningar við boxin á glærunni: • Ég er óánægð/ur með mig • Engum líkar við mig • Ég er mikils virði • Ég er heimsk • Ég er fyndið/n/n • Ég get allt • Ég get verið ósammála • Ég stend með mér • Ég get ekki neitt • Ég leyfi öðrum að ráða • Ég er ánægt/ð/ur með mig • Að segja já en meina nei Mynd bls. 12: Verkefni – Styrkleikar og veikleikar • Láta nemendur skrifa á blað þrjár tegundir styrkleika hjá sér. • Láta þau skrifa á blaðið tvo hluti eða fleiri sem þau vilja verða betri í. • Til dæmis að elda, teikna, hreyfa sig, spila tölvuleik, tala við aðra, halda fyrirlestur, standa með sér, setja öðrum mörk. ◌ Ræðið síðan saman í hóp hvernig þau geta styrkt sig í þessu. Mynd bls. 13: Kæri sáli– Sjálfsmynd Kæri sáli. Ég verð að segja þér frá afmælisdeginum í gær. Ég var búin að hlakka svo til að fá símtöl, skilaboð, „like“, „snöpp“ og „tögg“ í „stories“ frá vinkonum mínum en síðan heyrðist ekkert frá þeim allan daginn. Ég var mjög leið og sjálfsmyndin var í molum. Ég hélt að þær væru bara búnar að gleyma mér eða væri alveg sama um mig. Síðan þegar ég kom heim úr bæjarvinnunni var fjölskylda mín og allar vinkonurnar búnar að skipuleggja óvænt afmælisboð fyrir mig. Mér brá ekkert smá þegar þau stukku öll fram og öskruðu „til hamingju með afmælið“ en ég held ég hafi aldrei verið jafn glöð. Þetta var besti afmælisdagur „ever“ og ég er heppnasta stelpa/stálp í heimi. Umræður: • Ræðið hvernig sjálfsmyndin getur sveiflast upp og niður sbr. Hún var niðurbrotin fyrri partinn en mjög ánægð síðar um daginn. • Hvernig líður okkur þegar við fáum t.d. ekki „like“ sem við erum að vonast eftir að fá? Hefur það áhrif á sjálfsmynd okkar?

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 9 Mynd bls. 14: Sjálfstyrkur/sjálfstraust Hvað felur orðið sjálfstyrkur eða sjálfstraust í sér? Fáið nemendur til að koma með hugmyndir. Ræðið það sem er að gerast á myndinni. Mynd bls. 15: Sjálfstyrkur • Að vera ákveðin • Að geta hrósað og tekið við hrósi • Að taka gagnrýni og geta gagnrýnt með uppbyggjandi hætti • Að geta samið og gert málamiðlanir – gefið stundum eftir • Ögra sér: ◌ Prófa eitthvað nýtt ◌ Fara út fyrir þægindarammann • Hugsa jákvætt Útskýrið: • Sjálfstyrkur getur til dæmis birst með: ◌ Að standa með sjálfum sér. ◌ Að vera ákveðin og geta sagt nei þegar þið eruð til dæmis ekki alveg viss. ◌ Að hafa styrk til að taka ákvarðanir sem eru stundum ekki vinsælar hjá vinum okkar. ◌ Að standast þrýsting. ◌ Að geta sagt nei • Fáið nemendur til að hugsa um atriði sem geta falið í sér þrýsting sem tengist kynhegðun/kynlífi. • Dæmi: Einhver manar þig til að senda mynd, kyssa, kela, stunda samfarir þegar þú ert ekki viss um hvort þú viljir það. Mynd bls. 16: Verkefni – Sjálfstyrkur Ræðið setningar á glærunni. Mynd bls. 17: Verkefni – Hvað er ákveðni? Ræðið hvað felur í sér að sýna ákveðni: Ákveðni er: • Að verja tíma í það sem þig langar. • Hlusta á og samþykkja jákvæða hluti sem fólk segir um þig. • Að segja tilteknum aðila að geri þig ósátta/reiða. Ákveðni er ekki: • Að láta aðra gera það sem þú vilt. • Að vera þögul/l þegar þú ert reið/ur yfir einhverju. • Að láta aðra taka ákvarðanir fyrir þig.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 10 Ræðið: • Að vera ákveðin/n tryggir ekki að þú fáir þitt fram. • Að vera ákveðin/n snýst ekki um að vinna. • Með því að vera ákveðin/n er ekki þar með sagt að þú náir öllu þínu fram. • Því meira sem þú æfir þig því auðveldara verður það. • Öllum finnst erfitt á einhverjum tímapunkti að biðja um það sem þá langar í. • Við þurfum að skoða hvernig við hegðum okkur núna til að geta lært að vera ákveðnari. • Að biðja um það sem þú vilt þýðir að þú þarft að bera þá virðingu fyrir sjálfum þér sem þú átt skilið. Mynd bls. 18: Hegðun Útskýrið: Hegðun er allt sem við gerum og segjum. Við sýnum öll margskonar hegðun. Sumt fólk er hlédrægt eða til baka við þá sem hafa völd, þá finnst öðrum erfitt að tjá tilfinningar sínar. Sumir samþykkja allt sem þeir eru spurðir um, finnst oft eins og aðrir ráði meiru. Mynd bls. 19: Verkefni – Sterk sjálfsmynd – Ákveðniþjálfun Veltum fyrir okkur myndinni. Stelpan er að segja að hún sé næst í röðinni. Við sjáum þrjár tegundir af þessari hegðun á myndinni. a. Ákveðni: Hún stendur með sjálfri sér er kurteis en ákveðin – „fyrirgefðu,“ segir hún við konuna við hliðina á henni sem gerir sig líklega til að verða næst. „Ég er næst,“ segir hún ákveðin og horfir á konuna sem segir: „afsakið“. b. Frekt: Hán sér að konan við hliðina ætlar að ryðjast fram fyrir. Hán segir: „heyrðu góða,“ frekjulega og reiðileg á svipinn, „ég er næst.“ c. Feimið: Hán sér að konan við hliðina er líkleg til að ryðjast fram fyrir. Hán horfir bara niður og segir ekki neitt. Sterk sjálfsmynd felur meðal annars í sér að sýna ákveðni og hvernig við hegðum okkur og stöndum með sjálfum okkur. Ákveðniþjálfun hjálpar okkur að breyta þeirri hegðun sem við erum ekki ánægð með. Hún hjálpar okkur einnig að verða ákveðnari og styrkir sjálfsmynd okkar. Verkefni Fá nemendur til að hugsa um aðstæður þar sem þeim fannst erfitt að biðja um það sem þau vilja. Aðstæður þar sem þau geta misst stjórn á skapi sínu eða þagað í stað að spyrja spurninga þegar þau langar til. Ég gef sjálf dæmi um mig þar sem mér fannst erfitt að vera ákveðin. Spyrjið: Fáið nemendur til að draga miða sem lýsir hegðun sem þau eiga að leika. Á þessa 3 miða eru skrifuð hugtökin: Frek/ur, ákveðin/n, feimin/n, hlédræg/ur. Skrifið hugtökin einnig upp á töflu. Nemandinn dregur annan miða skv. lýsingu hér að neðan og á að leika það sem stendur á miðanum. Aðrir nemendur að geta sér til um hvaða hegðun nemandi var að sýna (ákveðni, frekju eða hlédrægni).

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 11 Miði 1. Nemandi spyr kennarann: „Hvað er klukkan?“ og leikur látbragðið út frá miðanum sem var dreginn (frekt t.d.). Aðrir nemendur giska. Miði 2. Nemandi spyr kennarann: „Má ég aðeins komast fram hjá þér?“ og leikur skv. miðanum sem var dreginn. Aðrir nemendur giska. Miði 3. Nemandi segir við kennarann að þetta sé þinn blýantur og leikur skv. miða sem var dreginn. Aðrir nemendur giska. Miði 4. Nemandi a) Gengur reiðilega um gólf. b) Stendur kyrr á reiðilegan hátt. c) Gengur um og er dapur. d) Stendur og er hræddur. e) Stendur kyrr og er ánægður. Mynd bls. 20: Að segja já en meina nei • Það er gott að vilja hjálpa öðrum. En að gera öðrum greiða af því að okkur finnst við verða að gera það getur stundum leitt til gremju, þreytu, eftirsjár og óánægju. • Ég stend sjálfa mig oft að því að gera hlutina illa af því að ég sagði já við einhverju sem ég vildi ekki gera. • Með því að segja já þegar þú vilt segja nei ertu að draga úr mikilvægi þínu og neita þér um rétt þinn til að segja nei. Það verður auðveldara að segja nei með æfingunni. Það er sjaldnast mjög erfitt og þú getur ekki dáið af því að segja nei! • Dæmi: Vinur þinn biður þig um að lána sér pening. Þú segir já en sérð eftir því af því þú veist að hann mun líklega ekki borga þér til baka. Ég hefði átt að segja nei, ég verð að vera ákveðinn næst og segja nei. Ræðið eftirfarandi: • Við höfum rétt á því að segja já og nei. • Með því að segja já og meina nei ertu að gera lítið úr þér. • Þegar við segjum nei þá erum við að hafna beiðni en ekki fólki. • Við getum notað nei og lifað það af! Ekki jafn slæmt og við höldum. ◌ Af hverju segir þú já þegar þú vilt segja nei? ◌ Hverjir eru gallar þess að segja já þegar við viljum segja nei? ◌ Hverjir eru kostir þess að segja nei þegar þú vilt ekki samþykkja beiðni? Að segja nei: • Öllum finnst erfitt að segja nei – dónalegt, eigingjarnt, ótti við að valda vonbrigðum. • Auðveldara og fljótlegra er að segja já – samt finnum við fyrir gremju og eftirsjá að samþykkja eitthvað sem við vildum ekki. • Segjum já af skyldurækni og setjum aðra í forgang – annars erum við sjálfselsk og tillitslaus. • Þarfir annarra mikilvægari. • Með því að segja nei erum við að koma fram af virðingu við okkar sjálf og viðurkenna okkar eigin réttindi og við verðum heiðarleg gagnvart öðrum.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 12 Mynd bls. 21: Sjálfsrækt Skoðið myndir og ræðið að það sé margt sem hægt er að gera fyrir sjálfan sig. Hvað er sjálfsrækt? • Að hlúa að sjálfum sér og vera góður við sig. • Hugsa jákvætt um sjálfan sig. ◌ Ég get – ég vil • Rækta sjálfan sig. ◌ Hreinlæti ◌ Hreyfing ◌ Mataræði Mynd bls. 22: Hvað getum við gert? • Ræðið hvað við getum gert: • Rækta áhugamál eða leita leiða til að koma sér upp áhugamálum. ◌ Hvað finnst mér gaman að gera? ◌ Hverju vil ég verða betri í? ◌ Hvað langar mig til að læra? • Vinna í því að eignast vini og rækta þá. Mynd bls. 23: Að gagnrýna • Veldu stað og stund – aldrei fyrir framan aðra. • Þegar þú ert á réttum stað – vertu nákvæmur með það sem þú ert að gagnrýna. ◌ Lýstu nákvæmlega því sem þú ert ekki ánægður með. ◌ Ekki gagnrýna einstaklinginn persónulega. ◌ Mundu að ekki er víst að viðkomandi breyti hegðuninni sem þú ert að gagnrýna; hann einn getur breytt henni. ◌ Með því að gagnrýna sýnir þú sjálfum þér virðingu og samþykkir að tilfinningar þínar séu jafn mikilvægar og annarra. ◌ Gagnrýni veitir fólki tækifæri til að breyta hegðun sinni. ◌ Það er munur á milli þess sem þú vilt og að gagnrýna. • Þegar við gagnrýnum erum við að óska eftir breytingum í fari annars. ◌ Þú átt rétt á að segja fólki hvað þér líkar. ◌ Það þýðir samt ekki að þú fáir vilja þínum frágengt. ◌ Með gagnrýni ertu að koma fram við þig af virðingu. • Hvað finnst okkur um konuna sem er að gagnrýna? Hvernig líður stelpunni/stálp með þessa gagnrýni?

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 13 Mynd bls. 24: Að taka gagnrýni • Hvaða kostir eru það að hlusta á það sem er sagt? • Ég gæti verið sammála, ef ég er ósammála þá get ég sagt það, ég get breytt hegðun minni ef ég vil, við gætum orðið betri vinir. • Gagnrýni snýr að einhverju sem þú hefur gert, ekki að gera lítið úr þér sem manneskju. • Mikilvægt er að reyna að horfa á gagnrýni sem jákvæðan hlut, betra að hlusta á hvað fólk vill segja en að hunsa það. • Við hlustum og ákveðum svo hvort við erum sammála eða ósammála. • Mörgum finnst erfitt að taka gagnrýni. • Hvernig líður okkur þegar við erum gagnrýnd, hvernig tökum við gagnrýni? • Ég þoli það ekki, það er verið að ráðast á mig, ég vil hefna mín, ég verð sár, ég vil labba í burtu, ég verð reið við þann sem gagnrýnir mig. • Hvað finnst okkur um konuna sem er að gagnrýna? Hvernig líður stelpunni/stálp með þessa gagnrýni? Mynd bls. 25: Að hrósa og fá hrós • Hrós er mikilvægt. • Ef við gerum lítið úr hrósi leiðir það til þess að við heyrum bara gagnrýni sem aftur dregur úr sjálfstrausti okkar. Ef við hrósum ekki er eina endurgjöfin sem fólk fær frá okkur gagnrýni. • Við þurfum öll að fá endurgjöf vegna góðra eiginleika okkar. • Ef við hlustum ekki á hrós en bara á gagnrýni líður okkur ekki vel með okkur sjálf. • Hrós er ekki sama og smjaður. Hrós er eitthvað fallegt sem við sagt er við okkur: • Góður kokkur. • Fallegt bros. • Þú sýnir hugulsemi. Hrós getur snúist um: • Útlit. • Eitthvað sem þið eruð góð í. • Hverskonar manneskja ertu? • Hvernig líður ykkur þegar þið fáið hrós? Að hrósa: • Segðu hvað þú hugsar. • Hafðu það einfalt. • Segðu satt. • Segðu hvað þér líkar í fari annarra og í hverju þeir eru góðir. Ekki hrósa eingöngu útliti þeirra. Reynið að forðast: • Að gera lítið úr ykkur sjálfum eftir að hafa hrósað öðrum – „þú ert svo góður dansari en ég er bara klaufi.“

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 14 • Að fá hrós: Hlustaðu á það sem er sagt. • Segðu takk og brostu. • Að taka undir það sem er sagt. • Að biðja um frekari útskýringar. • Að segja hvernig ykkur líður með hrósið. Reynið að forðast: • Að segja eitthvað fallegt á móti vegna þess að þér finnst að þú ættir að gera það. • Að gera litið úr sjálfum sér. • Að hlæja.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 15 2. Tilfinningar og líkamstjáning Mynd bls. 26: Tilfinningar og líkamstjáning Mynd bls. 27: Tíminn í dag 1. Spurningar úr síðasta tíma 2. Tilfinningar 3. Tilfinningarhjólið 4. Líkamstjáning 5. Samskipti og tilfinningar Mynd bls. 28: Spurningar úr síðasta tíma rétt rangt 1. Sjálfsmynd er sú mynd sem við höfum af sjálfum okkur. 2. Veik sjálfsmynd lætur þér líða vel með sjálfan þig. 3. Sterk sjálfsmynd hjálpar þér að standa með sjálfum þér. 4. Að geta tekið hrósi er dæmi um sjálfsstyrk. 5. Sjálfsrækt felur í sér að hugsa jákvætt um sjálfan sig. 6. Að vera ákveðin er sama og vera frek. 7. Við segjum stundum já til að þóknast öðrum. Mynd bls. 29–30: Tilfinningar • Við höfum öll tilfinningar hvort sem við viljum það eða ekki, við ráðum því ekki hvort við höfum tilfinningar en við berum ábyrgð á hvernig við tjáum þær. • Við getum tjáð tilfinningar okkar með margs konar hætti. • Tilfinningar eru alls konar. • Allar eiga rétt á að láta í ljós tilfinningar sínar en við eigum ekki að stýra öðru fólki með þeim. • Rætur tilfinninga má rekja til einhvers sem við erum að hugsa og við tjáum þær á alls konar máta. Skoðum þessar fjórar grunntilfinningar á myndinni: ◌ Gleði ◌ Sorg ◌ Hræðsla ◌ Reiði Verkefni: Teiknið fjögur stór tré á stórt blað eitt tré á hvert blað eins og sjá má á bls. 29. Náið í verkefnablað 2 aftast í kennsluleiðbeiningum. Þar er búið að skrá niður orðin úr tilfinningahjólinu sem eiga við sorg, reiði, gleði og hræðslu. Klippið út miðana og ruglið þeim saman. Fáið hvern og einn nemenda til að draga renning úr bunkanum og hengja á viðeigandi tré.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 16 Mynd bls. 31: Grunntilfinning: Hræðsla Grunntilfinningar geta brotist út með ýmsum hætti með líkamstjáningu og hegðun. Hræddar tilfinningar geta sagt okkur þegar hlutirnir eru ekki í lagi eða þegar eitthvað slæmt gæti gerst. Ótti hjálpar oft til við að vernda okkur þegar við teljum að aðstæður séu hættulegar. Ótti hjálpar okkur að vera varkárari. Líkamsvísbendingar: Spenntir vöðvar, hröð grunn öndun, hraður hjartsláttur, að hugsa ekki skýrt, hlaupa í burtu, fela sig. Mynd bls. 32: Grunntilfinning: Reiði Reiðitilfinningar geta sagt okkur þegar eitthvað virkar ekki eins og við viljum eða búumst við, þegar komið er fram við okkur á ósanngjarnan hátt eða við höfum misst eitthvað sem er okkur mikilvægt. Stundum geta reiðitilfinningar hvatt okkur til að leysa vandamál þegar við höfum týnt einhverju (t.d. mikilvægum hlut, leik, vinnu, ástvini, einhverju sem við höfum vonað eftir, o.s.frv.). Líkamsvísbendingar: Spenntir vöðvar, grunn öndun, roði í kinnum, gnísta tönnum, setja í brýnnar, hugsa ekki skýrt, öskur, blótsyrði, kýla. Mynd bls. 33: Grunntilfinning: Afbrýðisemi Er reiðitilfinning og á ábyrgð þess sem upplifir hana. Afbrýðisemi getur birst á mismunandi hátt við mismunandi aðstæður. Þú getur stundum fundið fyrir afbrýðisemi til dæmis í garð fjölskyldumeðlima, systkina, vina, aðila úr skólanum þínum, aðila í parasambandi eða einhvers sem þú ert að keppa við. Það er mikilvægt að átta sig á því hvaðan afbrýðisemin kemur. Hver er upplifun þín? Ertu óörugg um að verða hafnað eða skilin eftir útundan? Óttastu að missa manneskju sem skiptir þig máli? Afbrýðisemi sprettur gjarnan af óöryggi. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir því að afbrýðisemi er þín eigin tilfinning og því á þinni ábyrgð en ekki annarra. Þú berð ábyrgð á því að skilja hver rótin er og takast á við þær tilfinningar sem þú ert að upplifa: Líkamsvísbendingar: Spenntir vöðvar, grunn öndun, roði í kinnum, gnísta tönnum, setja í brýnnar, hugsa ekki skýrt, öskur, blótsyrði, kýla. Mynd bls. 34: Grunntilfinning: Sorg Þegar við höfum misst eitthvað (t.d. mikilvægan hlut, leik, vinnu, ástvini, eitthvað sem við höfum vonast eftir, o.s.frv.). Líkamsvísbendingar: Slaka á vöðvum, hallandi líkamsstaða, höfuð niður, tár. Mynd bls. 35: Grunntilfinning: Gleði Gleðitilfinningar geta sagt okkur þegar góðir hlutir eru að gerast. Þeir hjálpa okkur að ákveða hvað við viljum virkilega gera eða hverjum við viljum eyða tíma með. Líkamsvísbendingar: Slaka á vöðvum, hæg öndun, bros, hlátur, vellíðan, nota góð orð. Mynd bls. 36: Kynferðislegar tilfinningar Kynferðislegar eða rómantískar tilfinningar geta sagt okkur þegar við löðumst að, erum hrifin af eða líkar við einhvern. Þessar tilfinningar eru eðlilegar og gætu breyst í ástríkar tilfinningar eða að lokum vináttu eða samband. Líkamsvísbendingar: Slaka á vöðvum, hæg eða hröð öndun, stöðugur eða hraður hjartsláttur, bros, kynþokkafullar hugsanir, kitl í kynfærin. Mynd bls. 37: Tilfinningar og líkamstjáning Grunntilfinningar geta brotist út með ýmsum hætti með líkamstjáningu og hegðun. Tilfinningar eru til staðar og eru hvorki réttar né rangar. • Líkamleg líðan gefur vísbendingar um hvaða tilfinningar við erum að upplifa. • Ef við tjáum ekki tilfinningarnar koma þær fram í líkamstjáningu okkar og hreinlega leka út. • Stundum tjáum við ekki tilfinningar okkar því okkur finnst það vera kjánalegt, dónalegt eða vegna þess að við höfum samviskubit.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 17 • Líkamstjáning snýst um merki og skilaboð sem fólk sýnir. Hún er orðlaus samskipti sem geta vera meðvituð eða ómeðvituð. • Líkamstjáning er hluti af hegðun okkar og getur verið undir áhrifum frá sjálfsvirðingu, tilfinningum og skoðunum. • Líkamstjáning hjálpar eða hindrar að skilaboð komist áfram. • Ef við tjáum ekki tilfinningar okkar safnast þær saman og leka á endanum út með líkamstjáningu okkar. Stundum springum við af reiði þegar við eigum síst von á því eða verðum veik. • Stundum finnum við fyrir sektarkennd yfir því að sýna reiði okkar eða teljum það vera veikleikamerki að gráta fyrir framan aðra. Við notum ekki bara orð við notum líka líkamann. Fáið nemendur til að leika eftirfarandi með líkamanum og ekki nota orð. Það er ruglingslegt þegar líkamstjáning okkar passar ekki við það sem við erum að segja: • „Nei“, á meðan þú kinkar kolli og brosir. • „Farðu í burtu“, á meðan þú opnar faðminn. • „Mér líður vel“, á meðan þú lítur út fyrir að vera dapur. • „Ég er mjög reið“, á meðan þú brosir. Fáið nemendur til að para saman líkamleg einkenni við rétta tilfinningu. Mynd bls. 38: Verkefni – Para tilfinningar við viðbrögð líkamans 40741 Allt um ástina – nemendaverkefni | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 38 Verkefni: Líkamstjáning og tilfinningar Andlit roðnar Sviti Hiti Hraður hjartsláttur Kökkur í hálsinum Grátur Brjóstverkur Skjálfti Kuldi Gæsahúð Hoppa af kæti Flissa Orka Fiðringur í maga Reiði Hræðsla Ánægja Sorg Parið saman tilfinningu og líkamlega líðan: Mynd bls. 39: Verkefni – Svipbrigði Ljósritið verkefnablað 3 og klippið út myndirnar sem þar eru eða finnið myndir í blöðum eða á netinu af fólki sem sýnir mismunandi svipbrigði. Safnið myndunum í bunka. Biðjið nemendur að draga mynd og leika andlitssvipinn sem er á myndinni og sýna ef þau væru reið, hrædd eða sorgmædd. Hvetjið þátttakendur til að deila hvenær þeir gætu fundið fyrir þessum tilfinningum. Kennarinn byrjar á að sýna svipbrigði út frá myndinni sem hann dregur og segir hvað veki upp þessa tilfinningu hjá honum.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 18 Mynd bls. 40: Verkefni – Hvað er líkaminn að segja? Við getum sagt eitt á meðan líkaminn segir annað. • Til þess að vera skýr þarf líkamstjáning okkar að vera í samræmi við það sem sagt er. • Hvað var ég að segja með líkama mínum? 1. Fáið nemendur til að leika eftirfarandi með líkamanum og ekki nota orð: • Komdu hingað. • Nei. • Ég vil ekki. • Mér er kalt. 2. Teiknaðu útlínur á blað, spyrðu hópinn hvaða líkamsparta við notum til að tjá okkur (t.d. kjálkann, augu, líkamsstöðu, handapat, bros, rödd; merktu inn á teikninguna þessi svæði). 3. Leiktu fyrir hópinn með líkamanum og ýktu látbragðið: • Nei, á meðan þú kinkar kolli og brosir. • Farðu burt, á meðan þú opnar faðminn. • Mér líður vel, á meðan þú lítur út fyrir að vera dapur. • Ég er mjög reið, á meðan þú brosir. Mynd bls. 41: Upplifun og tjáning tilfinninga Við upplifum tilfinningar með breyttu líkamlegu ástandi okkar, t.d. fiðring í maganum eða kökk í hálsinum. • Þessi líkamlegu einkenni gefa oft vísbendingar um hverjar tilfinningarnar eru og hjálpa okkur að ákveða hvernig best sé að bregðast við þeim. Með því að bera kennsl á þær auðveldar það okkur að bera kennsl á líðanina og hafa taumhald á tilfinningunum. Við tjáum tilfinningar okkar með ólíkum hætti. • Reiði: Öskra, slá einhvern, sparka í hurð, hlaupa. • Ánægja: Hlæja, dansa syngja, hoppa af kæti. • Depurð: Gráta, skrifa sjálfum sér bréf, láta eins og allt sé í lagi, ölvaður. • Ótti: Öskra á einhvern, gráta, berja frá sér. Mynd bls. 42: Að deila tilfinningum með öðrum • Það er gott að deila tilfinningum með aðila sem við treystum vel. Þegar við ákveðum við hvern við viljum tala getum við skipulagt tíma og stað til að tala saman – stað þar sem við getum verið í næði og erum örugg. • Að skrifa hugsanir okkar niður á blað áður en við hittumst getur hjálpað þér að byrja samtalið. • Sumt fólk á erfitt með að deila tilfinningum sínum og það er allt í lagi. Við þurfum ekki að deila öllum tilfinningum sem við höfum en það er mikilvægt að deila tilfinningum þegar við þurfum hjálp. Það er kannski ekki til lausn á líðaninni eða vandanum en við vitum að það er einhver þarna til að styðja okkur. • Mikilvægt er hvernig þér líður. Það getur verið erfitt þegar við felum tilfinningar okkar, ýkjum þær eða forðumst einfaldlega að tala um þær við einhvern sem við treystum. Að tala við einhvern eins og fjölskyldumeðlim eða vin getur hjálpað okkur að líða betur. Að hafa einhvern til að deila tilfinningum sínum með getur hjálpað okkur að skilja þær betur og finna lausnir þegar á þarf að halda.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 19 • Tilfinningarnar eru mikilvægar því þær segja okkur eitthvað um það sem er að gerast í lífi okkar. Tilfinningar geta hjálpað okkur að skilja okkur sjálf, en þær geta líka valdið ruglingi og jafnvel sært aðra. Stundum geta tilfinningar verið ruglingslegar til dæmis í tengslum við maka eða þegar við verðum hrifin af einhverjum eða þegar okkur er sýndur áhugi frá öðrum aðila. Betri skilningur á tilfinningunum getur hjálpað okkur að tjá þær þegar við erum innan um annað fólk. Að tala opinskátt um tilfinningar sínar við aðila sem við treystum getur hjálpað við að skilja betur líðan okkar. Auk þess gerir það okkur kleift að verða nánari manneskjunni eða fólkinu sem okkur þykir virkilega vænt um eða því um þig. Mynd bls. 43: Kæri sáli – greinið tilfinningar úr sögum Umræður: • Hvernig tilfinning er afbrýðisemi? • Hvað getur hann gert? • Væri ein leið að ræða við kærustuna og segja hvernig honum líður? • Hvernig líður honum í sambandinu? Þarf hann að endurskoða hvort hann vilji halda áfram að vera í þessu sambandi? Kæri sáli. Ég nýbyrjaður með stelpu. Hún á mikið af strákavinum og þegar hún fer að hitta þá finn ég oft að vöðvarnir spennast upp og stundum þegar hún er með þeim lengi fer ég að anda grunnt þangað til ég veit að hún er komin heim. Ég fattaði fyrst ekki hvað þetta væri en hún sér á mér að það er eitthvað að og hefur spurt en ég veit ekki hvernig ég að útskýra það. Ég talaði um þetta við vin minn og hann sagði að ég væri líklega að upplifa afbrýðisemi. Ég veit að hún myndi ekki halda fram hjá mér en þetta truflar mig samt. Hvað get ég gert? Umræður: • Hvernig tilfinning er afbrýðisemi? • Hvað getur hann gert? • Væri ein leið að ræða við kærustuna og segja hvernig honum líður? • Hvernig líður honum í sambandinu? Þarf hann að endurskoða hvort hann vilji halda áfram að vera í þessu sambandi?

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 20 3. Líkaminn og hreinlæti Mynd bls. 44: Líkaminn og hreinlæti Mynd bls. 45: Tíminn í dag 1. Spurningar úr síðasta tíma 2. Líkaminn okkar 3. Hreinlæti 4. Hreinlæti og kynfærin Mynd bls. 46: Spurningar úr síðasta tíma rétt rangt 1. Gleði, reiði, sorg og hræðsla eru grunntilfinningar. 2. Afbrýðisemi er gleðitilfinning. 3. Kynferðistilfinningar eru óeðlilegar og ekki í lagi. 4. Tilfinningar okkar geta birst með líkamstjáningu. 5. Það er mikilvægt að tjá tilfinningar sínar 6. Það eru ekki allir með tilfinningar. Mynd bls. 47: Líkaminn okkar Að viðhalda líkamlegri heilsu felur í sér að hlúa að líkama okkar. Við þurfum að passa upp á að hreyfa okkur daglega, borða hollan og fjölbreytan mat og fá nægan svefn. Þessi atriði stuðla að heilbrigðum lífstíl. Annað mikilvægt atriði er að vera hirðusamur um eigið hreinlæti með því erum við að sýna líkamanum okkar umhyggju. Að þekkja vel alla líkamspartana hjálpar okkar að hlúa betur að líkamlegri og kynferðislegri heilsu. Mynd bls. 48: Alls konar líkamar • Allir líkamar eru einstakir, engir tveir eru eins og það gerir okkur sérstök sem einstaklinga. Sérhver líkami er góður líkami og húðlitur er ólíkur. • Stundum eru mismunandi væntingar í samfélögum um það hvernig líkami okkar ætti að líta út og hvað við ættum að gera við hann. • En hann er þinn eigin líkami og þú ræður yfir honum og hefur leyfi til að taka þær ákvarðanir sem þér finnst bestar fyrir þig.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 21 Mynd bls. 49: Einkastaðir líkamans Líkami hvers og eins er allur einkastaður en hér er verið að einfalda málið með því að tala um kynfæri hvers og eins. Ræðið um einkastaðina, fáið nemendur til að nefna hvað þeir heita. Af hverju notum við sundföt? – Ræðum það. Erum við stundum nakin á meðal annarra sbr. í búningsklefum? Mynd bls. 50: Kynþroski Rifjið upp helstu líkamlegar breytingar sem eiga sér stað við kynþroskann. Eftirfarandi líkamlegar breytingar eiga sér stað við kynþroska: Strákar/stálp: Líkaminn lengist Vöðvar stækka Hárvöxtur undir höndum, á kynfærum, efri vör, bringu og á handleggjum og fótleggjum. Kynfæri stækka Sæðisframleiðsla hefst í eistum Rödd breytist (mútur) Svitamyndun. Stelpur/stálp Líkaminn lengist Vöðvar stækka Mjaðmir breikka. Hárvöxtur undir höndum, á kynfærum og hand-og fótleggjum. Blæðingar hefjast Brjóst stækka Svitamyndun. Mynd bls. 51: Hreinlæti Að halda líkamanum hreinum stuðlar að bættri líkamlegri heilsu okkar, við minnkum líkur á að verða veik og komum í veg fyrir útbreiðslu sýkla ef við hugum vel að eigin hreinlæti. Mynd bls. 52: Persónulegt hreinlæti Persónulegt hreinlæti vísar til þess að við hugsum um að þrífa líkamann sem felur í sér að þvo hendur okkar, baða okkur, bursta tennurnar og klæðast hreinum fötum. Að innleiða gott persónulegt hreinlæti hefur bæði líkamlegan og heilsufarslegan ávinning. Að hugsa vel um eigið hreinlæti minnkar líkur á vondri líkamslykt og bætir persónulegt útlit: Þetta hefur áhrif á félagslega stöðu þína og stuðlar að betri tilfinningalegri líðan. Gott persónulegt hreinlæti getur styrkt sjálfsmyndina og aukið sjálfstraustið. Þegar við erum ung þurfum við að temja okkur að hugsa vel um persónulegt hreinlæti. Miklu máli skiptir að persónulegt hreinlæti sé gott. Það getur haft áhrif á hvernig fólk kemur fram við okkur eins og til dæmis í skóla eða á vinnumarkaðinum. Mynd bls. 53: Frá toppi til táar – Hárið Ræðið mikilvægi þess að huga vel að öllum líkamshlutum í tengslum við hreinlæti. Það er ekki bara nóg að þvo hárið. Setjið í poka sjampó, hárnæringu, hárbursta og greiðu. Fáið nemanda til að taka vöruna upp úr pokanum og lýsa fyrir hinum tilgang þess að nota þessa vöru. • Rakvél – rafmagns og venjuleg. • Raksápa. • Plokkari. • Vaxstrimlar.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 22 Útskýrið: Mörg okkar eru með hár um allan líkamann (sum meira en önnur). Hárið á höfði okkar framleiðir olíu sem gerir það feitt ef við þvoum það ekki nógu vel. Við erum líka með hár á kynfærum okkar til að vernda þau. Við getum valið hvað við gerum við hárið á höfðinu og stundum látið klippa það eins og við viljum. Við þurfum að hugsa vel um hárið, notum sjampó til að þvo það að minnsta kosti annan hvern dag. Flestir þurfa aðeins lítið magn af sjampó – sumir sem eru með þurrt hár. Notaðu hárnæringu eða það flækist auðveldlega. Það er mikilvægt að passa að skola sápu og hárnæringu vel úr hárinu á eftir. Síðan þarf að bursta eða greiða það á eftir þegar við höfum þurrkað það vel. Mynd bls. 54: Hárin á líkama okkar Önnur hár á líkama okkar þarf einnig að snyrta. Það eru stundum einhver hár þar eða í andlitinu sem við viljum ekki hafa. Hvernig getum við tekið þau af? Sumir velja að raka eða snyrta hárin á kynfærunum eða fara á snyrtistofu. Skoðið glæru: • Hvernig snyrtum við önnur hár á líkamanum? • Rakstur: ◌ Rakstur felur í sér að hár er fjarlægt með því að nota rakvél og raksápu. Fólk notar oft rakstur sem aðferð til að fjarlægja hár í andliti, hár undir handleggjum og hár á fótleggjum. Þau sem vilja ekki safna skeggi þurfa að raka sig reglulega. • Vaxmeðferð: ◌ Vaxmeðferð felur í sér að hár er fjarlægt af rótinni með vaxstrimlum en það vex aftur eftir tvær til sex vikur. Hægt er að vaxa næstum hvaða svæði líkamans sem er, þar á meðal: augabrúnir, kynhár, fætur, handleggi, bak og fleira. • Plokkun: ◌ Plokkun felur í sér að hár er fjarlægt af rótinni með því að nota plokkara. Augabrúnir eru það svæði líkamans sem oftast er snyrt með því að nota plokkara. Mynd bls. 55: Tennur Tennur ætti að bursta á hverjum degi, tvisvar á dag, eftir að við borðum morgunmat og eftir kvöldmat eða fyrir háttinn. Samhliða því að bursta tennurnar er mikilvægt að nota tannþráð. Og stundum munnskol. Ef við burstum ekki tennurnar nógu oft getur það leitt til tannholdssjúkdóma eða við fáum holur í tennurnar. Eftir burstun þarf að skola tannburstann undir volgu vatni. Síðan er mikilvægt að láta tannlækni fara yfir tennurnar að minnsta kosti einu sinni á ári. Mynd bls. 56: Handþvottur Setjið í poka, naglaskæri, naglaklippur handsápu, naglaþjöl. Fáið nemendur til að taka upp einn hluta og lýsa fyrir bekknum hvað þetta er. Tíður og réttur handþvottur hjálpar til við að koma í veg fyrir útbreiðslu sýkla sem leiða til veikinda og sjúkdóma. Við ættum að þvo okkur um hendurnar áður en við borðum, eftir að við notum klósettið, eftir að við hnerrum, hóstum eða snýtum nefið og eftir að við snertum rusl eða eitthvað óhreint. Þvoðu hendurnar með því að bleyta þær með volgu vatni, notaðu sápu og nuddaðu lófa, handabak, hnúa, á milli fingra og fingurgóma. Gakktu úr skugga um að þú skrúbbir í 15-20 sekúndur. Að syngja lag eins og „Hún á afmæli í dag“ getur hjálpað til við að fylgjast með tímanum. Sjá mynd af handþvotti á heimasíðu Landlæknis: Mynd bls. 57: Neglur Ræðið mikilvægi þess að klippa neglurnar reglulega, best er að gera það eftir bað eða sturtu á 2–3 vikna fresti; þá eru þær ekki eins stökkar. Klippið þær þvert yfir annars er hætta á að neglurnar verði inngrónar. Við notum naglaþjöl til að skerpa brúnirnar á nöglunum.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 23 Mynd bls. 58: Líkamsþvottur Setjið í poka: sturtusápu, svitalyktareyði og e.t.v. milda sápu fyrir kynfærin, þvottapoka, líkams- og andlitskrem. Fáið nemendur til að taka einn og einn hlut upp og lýsa til hvers hann er notaður. Besta leiðin til að halda öllum líkamanum hreinum. Sumir kjósa að fara í bað. Þegar þú baðar þig, vertu viss um að þvo allan líkamann vandlega með sápu og notaðu þvottapoka. Þvoðu handleggina, kynfærin og fæturna vel. Sumir kjósa að fara í bað á hverjum degi meðan aðrir velja að fara annan hvern dag í bað. Þá er hægt að nota svitalyktareyði undir hendurnar til að stjórna líkamslyktinni. Mynd bls. 59: Fatnaður Það er frekar gagnslaust að fara í sturtu og síðan t.d. aftur í skítugar nærbuxur og sokka. Mikilvægt er að skipta um nærföt og sokka daglega. Þá þarf að fara yfir fötin sín og skoða hvort þau eru skítug eða ekki áður en þú ferð í þau aftur. Buxur, peysur og skyrtur þarf að þvo reglulega, ræðið hvað er eðlilegt að fara aftur í sömu buxurnar oft áður en þær eru þvegnar, ræðið fleiri fatategundir þ.e. hversu oft ætti að þvo þær. Mynd bls. 60: Kynfæri: Typpi og pungur Áður en við skoðum hvernig við þrífum typpi og pung skulum við fyrst vera viss um að þekkja vel heitin á þessum lífærum. Litið svæðin á myndinni sem merkt eru tölustöfum með ólíkum litum. 1. Typpi 2. Forhúð 3. Þvagrás 4. Þvagblaðra 5. Blöðruhálskirtill 6. Sáðblaðra 7. Sáðrás 8. Eistu 9. Pungur 10. Eistnalyppa Mynd bls. 61: Hreinlæti og kynfæri Skoðum myndina, það þarf að passa að þrífa forhúðina (það er hettan, sem hylur höfuð getnaðarlimsins). Það þarf að draga forhúðina til baka og þvo svæðið varlega þegar farið er í sturtu. Sjá myndband Mynd bls. 62: Ytri kynfæri: Píka Áður en við skoðum hvernig við þrífum píkuna skulum við fyrst vera viss um að þekkja vel heitin á þessum líffærum. Litið svæðin sem merkt eru tölustöfum á myndinni með mismunandi litum. 1. Snípur 2. Ytri skapabarmar 3. Þvagrásarop 4. Innri skapabarmar 5. Leggangaop 6. Endaþarmsop Mynd bls. 63: Innri kynfæri: Píka Litið svæðin sem merkt eru á myndinni með tölustöfum með mismunandi litum. 1. Leggöng 2. Legháls 3. Leg 4. Eggjastokkar 5. Eggjaleiðarar

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 24 Mynd bls. 64 Hreinlæti og kynfærin Mikilvægt er að nota milda sápu á kynfærin. Notið sápuna á þau utanverð en óþarfi er að setja hana inn í kynfærin, það getur eyðilagt eða þurrkað upp slímhúðina. Þá er mikilvægt að huga sérstaklega vel að hreinlæti á meðan blæðingar standa yfir. Góð regla er að þvo hendurnar fyrir og eftir að hafa skipt um bindi eða annað sem er notað þegar þú hefur blæðingar. Einnig að skipta um nærföt ef það hefur komið blóð í þau. Mynd bls. 65: Kæri sáli Kæri sáli. Í enskutímum sit ég við hliðina á stelpu sem ég þekki lítið. Stundum eigum við að gera paraverkefni saman. Hún er svo andfúl að ég „meika“ ekki að vinna með henni. Ég reyni helst að anda ekki þegar hún er að tala. Hvað á ég að gera? Kæri sáli. Kærastinn minn er nýbyrjaður að fara í líkamsrækt. Hann er búinn að vera á leiðinni lengi og er svo ánægður með sig að vera byrjaður. Þegar hann kemur heim er hann alltaf í svo góðu skapi og vill þá stunda kynlíf. Vandamálið er að hann er ekki búinn að fara í sturtu og það er svo mikil svitalykt af honum. Ég er hrædd um að ef ég segi eitthvað muni hann hætta að fara. Hvað á ég að gera? Umræðupunktar: • Þetta eru viðkvæm atriði að gagnrýna og getur verið særandi fyrir viðkomandi. Þess vegna þarf að gera varfærnislega. • Hvernig myndu þið vilja að væri talað við ykkur um svona hluti? • Hvernig myndu þið bregðast við ef þið fengjuð sambærilega gagnrýni? • Hvort er árangursríkara að ræða við viðkomandi eða bakatala viðkomandi við aðra? Ræðið að baktal er ekki af hinu góða. • Hér getur kennari lagt áherslu á mikilvægi hreinlætis, það viðkemur ekki bara okkur sjálfum. Við þurfum öll að huga vel að eigin hreinlæti til þess að aðrir vilji vera í kringum okkur.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 25 4. Samfélagsmiðlar Mynd bls. 66: Samfélagsmiðlar Mynd bls. 67 Tíminn í dag 1. Spurningar úr síðasta tíma 2. Internetið 3. Netreglur 4. Að kynnast á netinu 5. Samfélagsmiðlar 6. Sexting Mynd bls. 68: Spurningar úr síðasta tíma rétt rangt 1. Samfélagið á að stjórna hvernig líkami minn lítur út. 2. Persónulegt hreinlæti skiptir ekki máli. 3. Gott persónulegt hreinlæti getur styrkt sjálfsmyndina. 4. Hreinlæti getur haft áhrif á félagslega stöðu okkar. 5. Það er nóg að tannbursta sig á kvöldin. 6. Mikilvægt er að nota milda sápu á kynfærin. 7. Það verður að passa að setja sápu inn í kynfærin.

40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 26 Mynd bls. 69: Internetið Netið er frábær miðill sem nýta má á ýmsan hátt eins og kemur fram hér á glærunni. Við verðum líka að hafa í huga að það eru margir á netinu sem hafa ekkert gott í hyggju og til dæmis leggja aðra í einelti, stela persónulegum upplýsingum og fleira til að særa aðra. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum okkur fram við að vera örugg á netinu. Það getum við gert með því að fylgja nokkrum einföldum reglum. • Netið er snilldar uppfinning sem nýtist í margt: ◌ Spila tölvuleiki ◌ Spjalla ◌ Kaupa ýmislegt ◌ Afla sér upplýsinga ◌ Margt, margt fleira • Það er samt líka margt sem ber að varast á netinu: ◌ Vírusa ◌ Spam ◌ Hakkara ◌ „Online predators“ Mynd bls. 70: Netreglur 1. Aldrei gefa upp persónulegar upplýsingar (eins og heimilisfang og símanúmer). 2. Ekki samþykkja vinabeiðnir eða „follow request“ frá fólki sem þú þekkir ekki. 3. Ef þú hittir einhvern sem þú kynnist á netinu, hittist þar sem er fleira fólk. 4. Aldrei senda myndir eða myndskeið af þér til annarra, sérstaklega ekki af kynfærunum/einkastöðunum. Aldrei biðja um myndir eða myndbönd af öðrum. Ef eitthvað fer á netið þá geta allir séð það og það getur verið erfitt að taka það út. 5. Ef þú ert að tala við ókunnugan á netinu fylgstu með rauðum flöggum og settu mörk. Hættu að tala við einhvern sem biður þig um pening, segir óviðeigandi hluti eða lætur þér líða óþægilega. Mynd bls. 71: Verkefni: Hvað má gefa upp á netinu 1. Þú ert að kaupa tónleikamiða í gegnum netið og það er óskað eftir nafni og símanúmeri. (já) 2. Þú ert á vefsíðu sem óskar eftir kortaupplýsingunum þínum en þú ert ekki að kaupa neitt. (nei) 3. Þú ert að byrja að kynnast einhverjum í gegnum samfélagsmiðla og viðkomandi biður um heimilisfangið þitt. (nei) 4. Það poppar upp gluggi í tölvunni þinni sem tilkynnir þér að þú hafir unnið ferð til útlanda og biður um fullt nafn, símanúmer og heimilisfang. (nei) 5. Þú færð tölvupóst frá ókunnugum sem segist vera skyldur þér og biður þig um pening. (nei) Mynd bls. 72: Kynnast á netinu • Oft kynnist fólk á netinu eða samfélagsmiðlum (t.d. Snapchat, Instagram, Tinder) • Þegar fólk kynnist á netinu er mikilvægt að huga að nokkrum atriðum til þess að tryggja eigið öryggi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=