Framþróun og breytingar

Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Framþróun og breytingar

Sækja pdf-skjal

 

Framþróun og breytingar Fyrir u.þ.b. 2500 árum urðu miklar hræringar í hugmyndafræði hindúa. Spekingar eins og Siddhartha Gautama, betur þekktur sem Búddha, og Mahavira, upphafsmaður janismi, gagnrýndu ríkjandi valda- og stéttakerfi og efuðust um marga þætti átrúnaðarins. Hugmyndir þeirra höfðu mikil áhrif á samfélagið og á þessum tíma tók trúin því miklum breytingum. Fórnir lögðust að mestu af en í staðinn var farið að tilbiðja myndir af guðunum. Skyldur einstaklingsins, svokallað dharma, fór að verða miðpunktur hindúatrúar. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi friðar sem dyggðar og síðan þá hefur friðarboðskapur þótt einkennandi fyrir hindúatrú. Á þessum tímum voru mörg af helstu og mikilvægustu ritum hindúa skrifuð niður en fram að því hafði innihald þeirra gengið munnlega mann fram að manni.

Búddhadómur varð sífellt vinsælli í landinu og þegar mikill keisari að nafni Ashoka, sem var búddhatrúar, náði yfirráðum yfir stórum hluta Indlands breiddist búddhadómur enn hraðar út og hafði mikil áhrif á menningu þeirra og siði. Hindúatrú hvarf þó ekki úr menningunni og nokkur hundruð árum síðar, á tímum Gupta keisaraveldisins, varð mikil endurvakning á hinni gömlu menningu hvort sem var í formi átrúnaðar, lista eða vísinda og fljótlega varð hindúatrú aftur stærsti átrúnaður Indlands.

Samhliða þessu þróaðist hindúatrú enn meir. Dýrkun á náttúruguðunum hvarf að mestu en í staðinn fór fólk að dýrka stóru guðina, Vishnu, Shiva og Gyðjuna.