Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Indus- og vedamenningin
 
Hindúatrú er með elstu trúarbrögðum heims og á uppruna sinn í hinum frjósama Indusdal í austurhluta Pakistan sem áður var hluti af Indlandi. Fyrir mörg þúsund árum lifði samfélag fólks í þessum dal og var menning þess almennt kölluð Indusmenningin. Ekki er vitað mikið um líf þessa fólks þótt fornleifauppgröftur hafi sýnt að það hafi verið frekar vel skipulagt og tæknivætt. Það bjó t.d. í stórum og glæsilegum borgum sem höfðu vatnsveitukerfi, brunna og ruslarennur. Það hafði einnig sérstakt letur sem enginn hefur enn getað ráðið.
Fyrir um 4000 árum fluttist menningarþjóð að norðan sem kallaði sig aría í Indusdalinn og blandaðist menningunni sem var þar fyrir. Aríarnir komu með tungumál sem kallast sanskrít og af því er nútíma tungumál Indverja komið. Sanskrít er líka náskylt svokölluðum indóevrópskum tungumálum, sem eru flest þau tungumál sem töluð eru í Evrópu, t.d. gríska, enska og íslenska.
Almennt er talið að hindúatrú sé uppruninn í þessari blönduðu menningu sem hefur verið kölluð vedamenningin og margt af því sem er að finna í hindúatrú í dag á rætur að rekja til þessara tíma. Hindúatrú er því elsti lifandi átrúnaður Jarðarbúa. Þó hafa orðið nokkrar veigamiklar breytingar. Til dæmis var á þessum tíma lögð mikil áhersla á að tilbiðja náttúruguði s.s. regnguð, eldguð, plöntuguð og að halda fórnarathafnir þeim til heiðurs. Þetta hefur alveg lagst af. Talið er að Vedurnar, elstu helgirit hindúa, hafi verið samdar fyrir u.þ.b. 2500–3500 árum síðan, á tímum vedamenningarinnar.